01.04.1927
Neðri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

21. mál, fjárlög 1928

Ólafur Thors:

Það er örstutt athugasemd. Jeg vildi fyrir hönd sjútvn. þakka hæstv. atvrh. (MG) fyrir undirtektir hans undir till. nefndarinnar. En þar sem hæstv. ráðh. er ekki viðstaddur, skal jeg ekki fara út í að ræða einstök atriði, sem annars var ástæða til að minnast á og ágreiningi gætu valdið.

Hæstv. atvrh. stakk upp á, að sjútvn. tæki till. aftur til 3. umr. og kæmi þá aftur með sömu upphæð, sem skyldi varið annaðhvort til Hornstrandavitans eða þriggja radiovita. Jeg álít, að við eigum kröfu á að fá hvorttveggja. En ef annað verður að víkja, þá kýs jeg heldur að fá radiovitana.

Jeg ætla svo aðeins að segja örfá orð út af ummælum hv. frsm. (ÞórJ). Hann kvaðst hafa spurt mig, hvort Hornstrandavitinn væri nauðsynlegur, ef radiokerfið kæmist á, sem jeg hefi áður talað um. Jeg sagði hv. frsm., að jeg væri ekki dómbær um það, en nú get jeg frætt hann á því, að jeg hefi spurt vitamálastjóra um þetta, og hann telur alveg nauðsynlegt, að höfuðvitarnir, sem búið er að áætla, verði reistir jafnframt, með hliðsjón af minni skipum, sem engin radiotæki hafa.

Hv. frsm. vildi gefa í skyn, að fjvn. hefði felt niður þessa fjárveitingu til Hornstrandavitans af því að nefndinni væri kunnugt um, að radiovitar væru að ryðja sjer til rúms. Það er eflaust rjett, en það vekur þá spurningu hjá okkur hinum, sem erum að berjast fyrir rjetti sjófarenda, af hverju hv. fjvn. hefir ekki gert ráð fyrir neinni fjárveitingu til radiovitanna. Það er bert af nál., að tilgangurinn er ekki sá, að veita fje til slíkra vita nú, því að í nál., segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ætlast nefndin til þess, að í framtíðinni, þegar reynslan hefir enn frekar staðfest það álit, sem nú er á vitum þessum, og fjárhagurinn jafnframt leyfir, að þessari nýju vitategund verði sýndur maklegur stuðningur í fjárframlögum.“

Af þessu er bert, að tilgangur nefndarinnar er sá, að vitamálin verði ríkissjóði tekjustofn 1928. Annars vil jeg feginn þiggja stuðning hv. nefndar í þessu máli og mun ekki deila frekar á hana, því það kynni að verða til þess að orsaka tregðu frá hennar hálfu um stuðning við málið. Jeg skal þess vegna verða við að taka tillögu sjútvn. aftur til 3. umr. Ástæða mín til þess er meðfram sú, svo að jeg vitni í einkasamtal við hv. frsm. eins og hann vitnaði í einkasamtal við mig, að hv. frsm. hefir látið á sjer skilja við mig, að ef fjvn. fái tækifæri til þess að ræða málið og athuga það, þá megi telja vísan stuðning fjvn. í þessu máli.