01.04.1927
Neðri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

21. mál, fjárlög 1928

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) taldi, að fjvn. hefði ekki felt niður fjárframlög til Hornstrandavita til þess að taka inn radiovita. Það er alveg rjett og það var af ráðnum hug, að nefndin gerði það, því að, eins og þegar hefir komið fram, grunaði hana, að Hornstrandavitinn væri óþarfur, en vildi hinsvegar fá fyllri reynslu um radiovitana en fengin er. En hvernig samkomulag verður milli fjvn. og sjútvn., er annað mál. Jeg hefi aldrei sagt hv. 2. þm. G.-K., að fjvn. mundi fallast á þetta mál. Jeg gat ekkert um það vitað, en hitt sagði jeg, að jeg væri því ekki óhlyntur. En vitanlega er það svo um fjvn., að ef eitthvert mál er borið undir hana af fullu viti og sanngirni, tekur hún það altaf til greina.

Hv. þm. hefir að óþörfu farið hörðum orðum um afstöðu fjvn. í þessu máli. Vitamálastjóri hefir aldrei komið á þann stað, sem um er að ræða og Hornviti á að standa, og veit ekki hversu hæfur hann er. Sömuleiðis er nú upplýst, að þar muni enga byggingu þurfa yfir vitavörð, og margt fleira mætti telja.