01.04.1927
Neðri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

21. mál, fjárlög 1928

Bernharð Stefánsson:

Jeg vil leyfa mjer að þakka hæstv. atvrh. (MG) fyrir undirtektir hans undir till. mína um hækkun framlags til Þelamerkurvegarins. Hann sagði, að ef bærilega stæði á 1928, þá mundi hann vilja styðja að því, að unnið væri að þessum vegi fyrir 20 þús. kr., þannig að notuð verði fyrirfram fjárveiting í fjárlögunum 1929.

Eftir atvikum get jeg verið mjög ánægður með þessar undirtektir. Komist þetta í framkvæmd, þá hefi jeg náð því takmarki, sem tillaga mín stefndi að, sem sje, að þessum vegarkafla verði lokið á árinu 1928. Jeg sje því ekki ástæðu til þess að halda tillögu minni til streitu að þessu sinni og læt hæstv. forseta vita, að jeg tek hana hjer með aftur.

Þar sem till. mín er tekin aftur, er gagnslaust að vera að svara hv. frsm. (ÞórJ) að því leyti, sem hann vjek að henni. Jeg get aðeins tekið fram, að jeg skil ekki, að ekki sje hægt að vinna fyrir þessar 20 þús. kr. yfir vorið. En sem sagt skiftir það engu máli að fara lengra út í þetta, þar sem jeg hefi tekið till. aftur í trausti til ummæla hæstv. atvrh.