02.04.1927
Neðri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (1049)

21. mál, fjárlög 1928

Halldór Stefánsson:

Jeg ætla mjer ekki að fara út í almennar umræður um fjárlagafrv. Jeg hefi borið fram brtt. á þskj. 284,XLII við 51. brtt. hv. fjvn. á þskj. 233, staflið a, um Björn Þorláksson fyrv. prest. Leggur háttv. nefnd það til að hækka hin lögboðnu eftirlaun hans um 208 kr. á ári, en tillaga mín fer í þá átt að hækka þau um 408 kr. Eins og háttv. þdm. mun kunnugt, þá liggur frammi í lestrarsal umsókn frá sjera Birni í þessa átt, og hefir hv. fjvn. haft hana til athugunar, eins og hv. frsm. þessa kafla fjárlagafrv. (TrÞ) gat um. Hv. fjvn. sendi umsókn þessa herra biskupnum til umsagnar, og hefir hann mælt með því, að sjera Birni yrði veitt þessi uppbót á eftirlaun hans. Háttv. fjvn. hefir ekki sjeð sjer fært að fara lengra en að veita rúman helming þess, sem biskup leggur til, eða 208 kr., og styður hún till. sína með því, að venja hafi verið undanfarið að veita gömlum uppgjafaprestum nokkra viðbót eftirlauna þeirra, er lögmælt eru, ef sjerstakar ástæður eru fyrir hendi. Þannig er nú í fjárlagafrv. 6 uppgjafaprestum auk sjera Bjarnar veitt uppbót, 325–780 kr. til hvers um sig.

Um sjera Björn er það að segja, að hann hefir alveg óvenju langan embættisaldur að baki sjer, rúm 50 ár, auk þess sem hann alla þá tíð hefir haft margvíslegum opinberum störfum að gegna.

Í niðurlagi umsóknar sinnar kemst sjera Björn þannig að orði:

„Fyrir því vil jeg leyfa mjer að óska þess, að hið háa Alþingi taki til íhugunar, hvort jeg sje þess maklegur að fá þegar frá fardögum 1926 viðbót við lögmælt eftirlaun mín, með sjerstöku tilliti, bæði til þess að jeg hafði á hendi prestsembætti í 51 ár, — lengur en hinir 6 nefndu uppgjafaprestar, að fráteknum einum, G. V., svo og með tilliti til þess, að jeg gegndi margvíslegum störfum í þjóðfjelaginu í meira en helming aldar.“

Ástæðan til þess, að jeg hefi flutt þessa brtt., er sú, að mjer finst hv. fjvn. ekki með sanngirni hafa tekið til greina verðleika þessa manns og hið langa og nytsama starf hans í þágu þjóðfjelagsins. Jeg, sem hefi persónuleg kynni af þessum manni, veit, að störf hans öll eru sjerstaklega ábyggileg og traust.

Ef nú hv. þingdeild skyldi fallast á brtt. hv. fjvn., þá verður það svo, að þessi merki maður kemur til að fá lægstu viðbótarlaun uppgjafapresta á þessu landi. Stendur það óneitanlega í öfugu hlutfalli við embættisaldur hans, þar sem hann er einn af þeim embættismönnum, er lengst hafa verið í embætti. Vona jeg því, að hv. deild taki brtt. minni vel, svo að þessi öfugu hlutföll verði ekki staðfest í afgreiðslu málsins.