26.02.1927
Efri deild: 15. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

1. mál, sveitarstjórnarlög

Einar Árnason:

Það eru aðeins tvö eða þrjú atriði, sem mig langar til að segja fáein orð um.

Það er þá fyrst brtt. um að hækka laun oddvita, Fram til ársins 1917 munu þau hafa verið 2 kr. fyrir hvern tug hreppsbúa, en þá hækkuðu þau upp í 3 kr., og við það hefir setið síðan. Stjfrv. vill nú hækka launin upp í 4 kr., og hv. allshn. um enn eina krónu, upp í 5 kr. Það má segja, að þetta sje ekki stórt atriði og að launin sjeu ekki há, þó að þau sjeu hækkuð þetta. En jeg sje samt enga knýjandi ástæðu til að breyta þessu; a. m. k. ætti að vera nóg að fara upp í 4 kr. Mjer er heldur ekki kunnugt um, að neinar kvartanir hafi borist frá oddvitum um það, að starf þeirra væri ekki nægilega borgað. Það virðist líka vera óeðlilegt að fara að hækka þetta svo mikið einmitt nú, þegar mesta dýrtíðin er búin og laun allra annara lækka. Það stingur í stúf við borgun til annara hreppsnefndarmanna, sem ekkert fá, þótt þeir starfi mikið í nefndinni. Fer mikill tími á hverju ári í starf þeirra, ekki síst þar sem það er víða regla, að einn hreppsnefndarmaður endurskoði reikninga hreppsins. Er það mikið verk, ef það er sæmilega af hendi leyst, en fyrir það er engin borgun ákveðin. — Þó að þetta sje ekki stórt atriði, held jeg, að engin ástæða sje til að hækka launin, og get því ekki greitt atkvæði með þessari brtt. hv. allshn.

Annað atriði, sem jeg vildi gera aths. um, er hið sama og hjá hv. 2. þm. S.-M. (IP) kom fram, sem sagt hið tvöfalda atkvæði oddvitans. Það er alveg rjett hjá hæstv. atvrh. (MG), að þetta ákvæði virðist ekki hafa komið að sök til þessa. En þar með er ekki sagt, að með breyttri löggjöf á ýmsum öðrum sviðum geti þetta ekki komið að sök hjer eftir. Ef tekið er það dæmi, að 3 menn sjeu í hreppsnefnd, og einn forfallast, — sem hæglega getur komið fyrir, einkum nú, er konur eru skyldaðar til að sitja í hreppsnefnd, — þá verður það oddvitinn, sem einn ræður öllu. — Nú liggur fyrir þinginu frv. til fátækralaga, þar sem meðal annars er lagt svo fyrir, að hreppsnefnd skuli ákveða, hvort sveitarstyrkur skuli talinn afturkræfur eða ekki, en á því veltur aftur það, hvort maðurinn fær að halda kosningarrjetti eða ekki. Um þetta getur orðið ágreiningur á hreppsnefndarfundi, og er ekki lítils virði fyrir styrkþegann, hvernig úrskurðurinn fellur. Sjeu nú aðeins 2 hreppsnefndarmenn á fundi, þá gæti oddviti fengið vald til að skera einn úr um það, hvort einhver maður skyldi halda mannrjettindum sínum eða ekki. Það eru þessi nýju lagaákvæði, sem valda því, að mjer finst ærið varhugavert að láta hið tvöfalda atkvæði oddvita haldast.

Þá vil jeg aðeins minnast á þetta atriði um frestina, sem nú er mjög um talað. Það er vafalaust rjett, að þeir eru naumir, en það er ekki gott að gera við því. Það hefir líka sína kosti, að viðkomandi stjórnarvöld hafi aðhald í því efni. En nú hefir mjer dottið í hug, að hjer mætti spara 10 daga, með því að kosnir væru 1 eða 2 yfirskoðunarmenn á reikningana í hverjum hreppi, sem verði þá trúnaðarmenn hreppsbúa og athugi reikningana fyrir þeirra hönd. Í stað þess mætti fella niður að láta reikningana liggja frammi hreppsbúum til sýnis í 10 daga. þessi gamla regla um framlagning reikninganna er í rauninni nauða lítils virði, því að sjaldan lítur nokkur maður á reikningana, en í hinu skipulaginu væri miklu meiri trygging. Við þetta ynnust þessir 10 dagar, og yrðu frestirnir þá í rauninni þeim mun rýmri. Þetta er náttúrlega ekki stórt atriði, en jeg býst varla við, að nokkur hv. þm. finni ástæðu til að breyta stórum atriðum í þessu frv., því að sveitarstjórnarlögin hafa reynst vel í flestum greinum, þótt þau sjeu orðin nokkuð gömul.

Vil jeg loks biðja hv. allshn. að athuga þessi atriði til 3. umr.