02.04.1927
Neðri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (1057)

21. mál, fjárlög 1928

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg vil byrja með því að þakka hv. fjvn. fyrir b-lið 47. brtt. hennar. Eins og háttv. þdm. er kunnugt, átti sjer stað mjög mikill bruni á Stokkseyri á síðasta hausti, er gerði sveitarfjelaginu mjög mikið tjón. Mun það hafa numið í óvátrygðum munum nær 60 þús. kr., eða jafnvel meira. Tjón útgerðarmanna á nokkrum bátum, veiðarfærum og þesskonar áhöldum nam um 30 –40 þús. kr. Þeir leituðu til Fiskifjelagsins og fengu þar nokkurn fjárstyrk til þess að afla sjer veiðarfæra aftur, og sömuleiðis til stjórnarráðsins, sem tók málaleitun þeirra vel og lánaði þessa upphæð, sem hjer er nefnd, 10 þús. kr. Þetta var ákaflega vel gert og kom að góðu haldi. En hinsvegar er það svo, að ef þeir eiga að endurgreiða þetta, er fyrirsjáanlegt, að þeir geta ekki rönd við reist. Þess má geta, að síðasta ár var vertíð þeim ákaflega óhagstæð. Útgerðarkostnaður er þar ætíð mikill; verður venjulega að sækja fiskinn langt og sjósókn stopul, meðal annars vegna hafnleysisins. Jeg vænti þess vegna, að hv. deild sjái nauðsyn þessara manna og samþ. till. hv. fjvn. Það er altaf vel til fallið, að Alþingi hlaupi undir bagga með þeim hjeruðum, sem bíða slíkt tilfinnanlegt tjón, svo að menn hafi möguleika til að stunda áfram sína atvinnu og geti staðið á eigin fótum. Jeg ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þessa till., en vænti hins besta af hv. þdm.

Þá flyt jeg 2 till. á þskj. 284, og að 3. till. er jeg meðflutningsmaður. Aths. við XI. lið var sett í fjárlög í fyrra. Það var gert ráð fyrir, ef Suðurlandsskólinn tæki til starfa, að þá veitti sjera Kjartan prófastur í Hruna honum forstöðu. Ætlast var til, að hann fengi öll sín prestslaun áfram. Með því móti átti að tryggja honum laun við skólann. Nú er kominn afturkippur í þetta mál. Veit jeg ekki, hvort skólinn verður reistur á þeim tíma, er þessi fjárlög gilda. En mjer þykir rjett og í alla staði kurteisara gagnvart sjera Kjartani, að þetta ákvæði, sem komst inn í fjárlög í fyrra, fái að standa þar áfram. Það eyðir engu, ef skólinn verður ekki kominn upp. Færi hinsvegar svo, að skólinn yrði það snemma upp kominn, að hann færi að veita honum forstöðu, þá kemur vitaskuld til að greiða launin. En Alþingi hefir áður lýst yfir vilja sínum í þessu efni, og því vona jeg fastlega, að hv. deild samþ. þessa aths. við 14. gr., þar sem hún var sett í fyrra. Sjera Kjartan er alls góðs maklegur. Er mjög æskilegt, að skólinn yrði reistur það snemma, að hann geti tekið að sjer stjórn hans. Hygg jeg, að allir þeir, sem láta sjer ant um mentun ungmenna þessa lands, vildu gjarnan, að hann veitti skólanum forstöðu og telji rjett að tryggja honum þessi laun. Eftir þeim veðramerkjum, sem jeg hefi veitt eftirtekt á þessu þingi um mentamálin, finst mjer það mjög svo illa við eiga að samþ. ekki þessa heimild til fjárveitingar.

Næst kemur brtt. undir XXIV. lið, um að veita Sigurði Skúlasyni háskólanema styrk til þess að halda áfram íslenskum fræðiiðkunum erlendis. Er hann búinn að ljúka fyrri hluta prófs við háskólann, mjög góðu prófi, og ætlar að ljúka námi í vor. Hefir hann í hyggju að fara utan og dvelja líklega 2–3 ár til þess að halda áfram fræðiiðkunum sínum og semja síðan allmikla ritgerð um einn þáttinn í menningarsögu vorri.

Þeir sjóðir, sem styrkja nemendur frá háskólanum, eru svo settir, að hann getur ekki vænst styrks þaðan fyr en eftir 2–3 ár. Það þykir honum óþægilegt; hann vill þegar halda áfram, uns því er lokið. Þessi maður, Sigurður Skúlason, hefir sótt upphaflega um meiri styrk en þetta, en þó tel jeg honum bót að því, þótt hann fái ekki meiri styrk en till. mín nær. Með aðaltillögu minni hefi jeg farið fram á það, að þessum unga og efnilega manni verði veittar 2500 kr. til framhaldsnáms í íslenskum fræðum erlendis, og til vara, að honum verði í sama skyni veittar 2000 kr.

Það skiftir að vísu litlu máli fyrir ríkissjóð, hvor upphæðin samþ. verður, en fyrir manninn sjálfan skiftir það þó nokkru máli. Fyrir mitt leyti vil jeg þó lýsa yfir því, að jeg gerði mig ánægðan með það, þótt varatill. væri samþ., eða ljeti mjer það lynda að minsta kosti.

Jeg veit það vel, að margir eru þeir námsmenn, sem vilja fá styrk til utanferðar. Jeg skal ekki dæma á milli þeirra, hver þeirra mundi verðugastur til þess að hljóta slíkan styrk, sem hjer er farið fram á, en um þennan mann þori jeg að fullyrða, að hann er reglusamur, áhugasamur og hefir stundað nám sitt ágætavel. — Hann leggur stund á þá fræðigrein, sem mikils er um vert fyrir oss Íslendinga að fá góða menn til að nema. Og jeg álít, að gott sje fyrir þjóðerni okkar og tungu að leggja þeim mönnum lið, sjerstaklega ef þeir eru efnilegir, sem vilja gefa sig að íslenskum fræðum. Og jeg tel það skilningsskort hjá Alþingi, ef það skyldi hafa á móti því að styrkja efnilega menn til þessa náms.

Að svo mæltu fel jeg hv. þdm. þessa brtt. og vona, að þeir geti fallist á hana.

Þá er jeg meðflutningsmaður að seinustu till. á þskj. 284, en þar sem hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) hefir þegar gert glögga grein fyrir þeirri till. og jeg hefi þar engu við að bæta, get jeg látið mjer nægja að vísa til ummæla hans. Þó vil jeg geta þess, að hjer er ekki um neina ölmusugjöf að ræða til þessa manns. Hjer er aðeins um lán að ræða, og það er ekki aðeins í þágu hlutaðeiganda, heldur margra annara. Hann þarf að fá þennan styrk til þess að geta komið upp hjá sjer sæmilegri byggingu. Og þeir, sem þekkja til og vita, hve marga gesti ber þarna að garði, vegmóða vegfarendur, sem þarfnast gistingar, þeir vita líka, hve brýn þörf er á því að bæta, fremur en gert hefir verið, húsakynnin á Laugarvatni. Hjer er ekki um nein sjerstök útgjöld að ræða, heldur aðeins lán, sem mikil þörf er á að veita, og vona jeg því, að hv. þdm. taki þessari till. vel.

Um brtt. hv. fjvn. ætla jeg ekki að fjölyrða, nje heldur um brtt. einstakra háttv. þm., því að það yrði bara til þess að tefja tímann. Jeg mun sýna það við atkvæðagreiðsluna, hvern hug jeg ber til hverrar tillögu.