02.04.1927
Neðri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (1058)

21. mál, fjárlög 1928

Sigurjón Jónsson:

Jeg skal byrja á því að þakka hv. fjvn. fyrir 27. brtt. hennar á þskj. 233, þar sem hún hefir fallist á að veita kvenfjelaginu „Ósk“ á Ísafirði nokkru hærri styrk en upprunalega var í frv. Fjelag þetta sótti um að fá 8000 kr. styrk, en hv. fjvn. hefir lagt til, að hann verði 5000 kr. Fyrir mitt leyti hefi jeg ekki gert ráðstafanir til þess að fá þennan styrk hækkaðan fram úr þessu og læt mjer nægja það, sem hv. fjvn. hefir lagt til, vegna þess að jeg sje góðvilja hennar og viðurkenning á þessu máli í till. hennar. Þessi skóli er okkur Vestfirðingum nauðsynlegur, en það hefi leg skýrt betur áður, svo að jeg skal nú ekki orðlengja um það.

Á þskj. 284 á jeg enn tvær brtt., en þær miða lítið að því að hækka útgjaldahlið fjárlaganna, og önnur þeirra alls ekki neitt. Hin mun, ef samþykt verður, hafa í för með sjer 600–800 króna útgjöld. Það er brtt. undir XXV, þar sem farið er fram á það að veita Leikfjelagi Ísafjarðar styrk, gegn ákveðnu framlagi frá bæjarsjóði Ísafjarðar. Leikfjelagið sendi beiðni um það til Alþingis, að það veitti sjer 1500 kr. styrk, en fjvn. sá sjer ekki fært að taka það upp. Þó er fordæmi fyrir þessu í fjárlögum, þar sem er styrkur til leikfjelagsins á Akureyri. Leikfjelagið á Ísafirði á ekki síður skilið að fá styrk, því að þeir menn og konur, sem halda þar uppi leiklist, vinna jafnan kauplaust, aðeins af áhuga fyrir listinni, og þurfa oft og tíðum að leggja af mörkum þó nokkurt fje úr eigin vasa þar að auki. Því verður ekki neitað, enda hefir Alþingi viðurkent það áður, að leiklistin er til mikils gagns í hverju þjóðfjelagi. Ætti það því ekki að mæta neinni mótspyrnu hjá Alþingi að sýna henni viðurkenningu. Og þar sem hjer er farið fram á mjög lítinn styrk, fel jeg þessa tillögu góðvilja hv. þdm.

Þá á jeg aðra brtt. á sama þskj., undir XIX. lið, þar sem farið er fram á það að veita 7500 kr. af fje því, er unglingaskólunum er ætlað, til unglingaskólans á Ísafirði. Jeg hefi borið hjer fram í þinginu frv. um að stofna gagnfræðaskóla á Ísafirði; það frv. er nú hjá mentmn. og líður víst mjög vel þar. Ekkert hefi jeg heyrt til þess, síðan það fór til þessarar hv. nefndar. Svo mikið er víst, að jeg geri mjer litlar vonir um, að það frv. nái fram að ganga á þessu þingi. Þess vegna hefi jeg leyft mjer að koma fram með þessa brtt. við fjárlögin.

Jeg þarf ekki nú að lýsa þessum skóla, er hjer um ræðir, því að það gerði jeg um leið og jeg lagði fram frv., er jeg mintist á áðan; en þess vil jeg geta, að styrkur sá, sem þessi skóli hefir notið, er miklu lægri en styrkur sá, er aðrir ungmennaskólar í landinu fá, svo sem Eiðaskólinn, Akureyrarskólinn og Flensborgarskólinn. Sje reiknað eftir námsvikum, er hinn opinberi styrkur skólans á Ísafirði sjö sinnum lægri heldur en styrkur skólans á Akureyri, og 10 sinnum minni heldur en styrkur skólans á Eiðum. Styrkur á námsviku hvers nemanda við þessa skóla er eins og hjer segir:

Eiðaskóla kr. 20,86

Flensborg — 9,92

Akureyri — 14,40

Ísafirði — 2,06

En sjeu nú tekin dæmi af hinum alþýðuskólunum, svo sem Laugaskólanum, Núpsskólanum og Hvítárbakkaskólanum, þá verður mismunurinn svipaður. Árið 1926 er námsstyrkur í Laugaskólanum 6,90 kr. á viku, eða þrisvar sinnum meiri en á Ísafirði. Í Hvítárbakkaskólanum er hann miklu hærri, eða 12,60 kr., og á Núpi kr. 19,50 á viku, en það stafar af því, að þar voru fáir nemendur þetta ár. Jeg hefi talað um þetta við fræðslumálastjóra, og er hann mjer sammála um það, að samræma verði styrkgreiðslur ríkissjóðs til ungmennaskólanna.

Jeg var fyrst að hugsa um það að bera fram till. um þessa hækkun við 14. gr. fjárlaganna B. XIV, 2, en þegar jeg sá brtt. hv. fjvn. um að hækka styrk til unglingaskóla úr 38 þús. í 45 þús. kr., þá fjell jeg frá því.

Það má nú ef til vill segja, að það sje stórt stökk hjá mjer að vilja þrefalda þennan styrk, en þótt þetta fengist, þá er þó styrkur þessa skóla lægri heldur en styrkur til hinna ungmennaskólanna. Hjer ber þess að geta, að jeg ætlast alls ekki til þess, að ungmennaskólar í kaupstöðum eigi að njóta eins mikils styrks eins og skólar í sveitum, vegna þess að sveitaskólar verða jafnaðarlega dýrari í rekstri vegna heimavistar og ýmislegs fleira, sem þar kemur til greina. En jeg álít, að skólar í kaupstöðum, svo sem eins og Flensborgarskólinn og skólinn á Ísafirði, eigi að njóta svipaðs styrks úr ríkissjóði.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta, og ekki minnast á neinar aðrar brtt. Þó vil jeg leggja einni þeirra lið. Það er XLVI. brtt. á þskj. 284, um það að veita Jóni Stefánssyni málara alt að 10 þús. kr. lán til þess að reisa hjer í Reykjavík vinnustofu, gegn þeim tryggingum, sem stjórnin tekur gildar. Jeg veit ekki til þess, að þessum manni hafi verið sýndur nokkur sómi opinberlega, og þó má hiklaust telja hann með efnilegustu listamönnum vorum. Í fyrra voru ýmsum listamönnum veittir styrkir, en þá var það felt að veita honum styrk. Nú horfir talsvert öðruvísi við, þar sem hjer er ekki um styrk að ræða, heldur lán, og finst mjer, að Alþingi geti ekki neitað þessum manni um svo litla viðurkenningu, sem í brtt. felst.