02.04.1927
Neðri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

21. mál, fjárlög 1928

Jón Guðnason:

Þótt jeg sje vanur að sitja nokkuð fast hjer á fundum, varð mjer þó á að ganga burtu áðan, en þegar jeg kom aftur, var hv. þm. Barð. (HK) að tala fyrir sínum till. Hv. þm. mintist að nokkru á mínar brtt., og fanst mjer, að að minsta kosti sumar þeirra stæðu nokkuð öfugt í höfði hans. Þessi till., sem hv. þm. var einkum að amast við, er XXXII. till. á þskj. 284. Hann vildi ekki kannast við, að þessi maður fengist við dýralækningar, og taldi sig mundu hafa vitað um það, ef svo hefði verið, þar sem Eggert hefði eitt sinn verið búsettur í Barðastrandarsýslu. En milli hans og hv. þm. var svo langt, að þess er tæplega að vænta, að hv. þm. sje kunnugt um starf hans. Það ber sjaldan mikið á þeim störfum, sem unnin eru í kyrþey, enda mun hv. þm. sjaldan hafa farið þar um, sem þessi maður bjó, líklega helst á vorum, þegar hann hefir haldið leiðarþing. Hinsvegar mun mörgum í kjördæmi háttv. þm. kunnugt, hve laginn og heppinn þessi maður hefir reynst við að hjálpa. skepnum. Nú hefir hann fullkomnað sig í starfi sínu með því að læra hjá dýralækninum í Reykjavík. Dýralæknirinn í Stykkishólmi hefir á engan hátt amast við honum, þótt hann væri í hans hjeraði og gæti skoðast sem keppinautur hans. Þvert á móti hefir hann gefið honum bestu meðmæli. Jeg skal taka það fram, að meiningin með þessum styrk er meðfram sú, að þessi maður geti aflað sjer nauðsynlegra áhalda til þess að geta hjálpað skepnum. Það var fyrir eindregin tilmæli manna vestra, að þessi maður lagði út í þann kostnað að afla sjer meiri þekkingar í þessum efnum.

Jeg veit, að hv. þm. Barð. lætur sjer mjög ant um allan hag kjósenda sinna, og þar sem gera má ráð fyrir, að starf þessa manns nái inn í hans kjördæmi, vil jeg vænta þess, að hann greiði atkvæði með þessari till. minni.

Mjer kom það ekki á óvart, sem sami hv. þm. sagði um Staðarfellsskólann; jeg skil það vel, að hann vill fá hann til sín. En jeg vona þó, að hv. þm. verði mjer sammála um það, að úr því að skólinn er kominn á stofn, þá sje rjett að búa svo að honum, að hann eigi hægt með að ná tilgangi sínum. Og svo skamt er á milli Staðarfells og Barðastrandarsýslu, að jeg efast ekki um, að skólinn muni þarna, í vestanverðri Dalasýslu, verka til menningarbóta fyrir kjördæmi háttv. þm., og vænti jeg því fastlega, að hann fylgi einnig þessari till. minni, enda þótt aðrir en kjósendur hans njóti einnig góðs af þessum skóla.