02.04.1927
Neðri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (1064)

21. mál, fjárlög 1928

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg þarf að geta hjer nokkurra till. á þskj. 284, sem jeg ásamt öðrum er flutningsmaður að. Skal jeg fyrst nefna styrk til Ríkarðs Jónssonar til að kynnast þjóðlegri húsgagnalist í Noregi og Svíþjóð. Ríkarður er vafalaust manna best fallinn til þess að fást við þessi efni, því að hann er manna kunnugastur íslenskri húsagerðarlist og trjeskurðarlist og er því mjög vel undir þetta starf búinn. Í Noregi og Svíþjóð er að ryðja sjer til rúms þjóðlegur og svipmikill stíll í húsgagnalist, og nú er einmitt rjettur tími til að vekja slíka hreyfingu hjer, því að húsagerð er hjer mikil og að nokkru leyti með nýju sniði. En í gömlu húsunum eru engin húsgögn, sem hægt er að flytja í nýju húsin, og því er einmitt nú sjerstök þörf á nýjum leiðbeiningum í þessu efni, til þess að hægt sje að koma menningarblæ á íslensku heimilin. Á fyrsta þinginu, sem jeg sat á, bar jeg fram till. um, að veitt yrðu verðlaun fyrir tillögur um híbýlaprýði, en sú tillaga var feld, og bar nokkuð á, að menn kölluðu slíkt munað. En það er alls ekki rjett, því að það er mál, sem miklu skiftir, að íslensku heimilin geti fengið þjóðlegan og stílhreinan menningarblæ, en húsgögnin setja svip á heimilin. Jeg vona, að hv. deild fallist á að veita nokkurt fje manni, sem gerast vill brautryðjandi í þessu efni og hefir bæði áhuga og hæfileika í þessa átt. Jeg held, að þessi styrkveiting sje ein hin þarfasta, sem farið er fram á, ef menn annars vilja fallast á, að menningarblær á heimilunum sje nokkurs virði.

Þá skal jeg minnast á styrk til Þorsteins M. Jónssonar á Akureyri til hinnar ágætu bókaútgáfu hans, sem „Lýðmentun“ kallast. Hjer er farið óvenjulega vel af stað og útlit fyrir, að þetta verði eitt hið besta alþýðubókasafn, sem Íslendingar hafa eignast. Þarna rita ágætir fræðimenn um mikilvæg efni, og ef hægt verður að selja bækurnar lágu verði, má búast við, að þær nái mikilli útbreiðslu. En það getur varla orðið nema ríkið veiti nokkurn styrk til útgáfunnar, miðaðan við arkafjölda. Hjer er um að ræða styrk til alþýðufræðslunnar í landinu. Svona fyrirtæki getur orðið nokkurskonar alþýðuháskóli í formi góðra bóka, sem dreift er út um landið fyrir lítið verð.

Þá hefi jeg borið fram tillögu um styrk handa Guðmundi Guðjónssyni, sem bráðlega lýkur námi í húsgerðarlist við þýskan háskóla. Jeg flutti þessa styrkbeiðni á síðasta þingi, og fjekk hún þá fylgi ýmsra mætra manna, sem kunnugt er um dugnað og elju þessa unga manns. En hann hefir hlotið ýmsar viðurkenningar í skólanum fyrir hæfileika og iðni. Í fjárlögunum er ekki ákveðinn neinn slíkur almennur styrkur, og er eftirsjón að því. Það varð því að flytja sjerstaka till. um þetta, og þar sem hjer er um lokanám að ræða, vænti jeg þess, að varatill. a. m. k. verði samþykt.

Þá á jeg þátt í till. um lán handa Jóni Stefánssyni listmálara. Tillaga um styrk handa þessum ágæta listamanni var feld hjer í fyrra, og er hann víst sá eini af hinum meiri háttar listamönnum okkar, sem aldrei hefir fengið styrk frá þinginu. Jeg vænti þess nú, þegar hann biður um lán gegn tryggingu, að honum verði veitt áheyrn. List Jóns Stefánssonar er þung, alvörumikil og sjerkennileg. Það er skiljanlegt, að slíkur listamaður sem Jón þurfi að hafa góða vinnustofu til þess að njóta sín. Slík vinnustofa er ekki til hjer, og verður hann því að reisa hana sjálfur. Nú er farið fram á, að greitt sje fyrir honum með láni, svo að hann geti komið sjer upp vinnustofu, og væri ómaklegt að synja honum um þetta, þar sem hann hefir ekki enn verið styrktur að neinu leyti.

Á þskj. 233,21 er lagt til að fella niður styrk handa Markúsi Kristjánssyni. Hjer er um stúdentsstyrk að ræða, sem veittur var á síðasta þingi, af því að þessi maður hafði tekið próf við danskan skóla og gat því ekki fengið styrk af því fje, sem ætlað er íslenskum stúdentum við erlenda háskóla. Þótti rjettara að veita svona einstakan styrk heldur en að breyta lögunum um stúdentastyrkinn. Þetta er því ekki sambærilegt við þá stúdenta, sem sótt hafa um styrk hjer heima, en ekki fengið. En þegar stúdent er veittur svona styrkur, ber honum að njóta hans í 4 ár, ef hann sýnir vottorð um elju og ástundun. Jeg hefi hjer í höndum vottorð um, að Markús Kristjánsson stundi nám sitt af elju og sje ágætum hæfileikum búinn til hljómlistarnáms, en það nám stundar hann. Er hann fyrsti Íslendingurinn, sem fer háskólaleiðina í þessu efni. Það væri brigðmælgi gagnvart þessum manni að fella styrkinn niður, enda hefir stjórnin litið svo á, að hann ætti að standa. Það væri æskilegt, að hv. fjvn. tæki þessa till. aftur, enda hefir hún væntanlega ekki athugað, að styrkurinn var bundinn við 4 ár. En það er nú stundum svo, að menn eru tregir á að taka aftur það, sem þeir hafa sagt eða gert, og ef svo fer um hv. fjvn., vænti jeg þess, að deildin láti ekki þennan mann gjalda athugaleysis hennar.

Út af till. hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) um að áskilja unglingaskólanum á Ísafirði 7500 krónur af fje því, sem veitt er til unglingaskóla, vildi jeg segja það, að jeg teldi æskilegt, að hv. þm. vildi taka þá till. aftur. Ekki af því, að skólinn sje ekki alls góðs maklegur, heldur af því, að ef einn skóli er tekinn þannig út úr, raskast þau hlutföll, sem lögð eru til grundvallar fyrir útdeilingunni. Væri hætt við, að fleiri skólar kæmu á eftir, og gæti þá vel farið svo, að úthlutunin yrði ekki eins rjettlát og vera bæri. En till. mín um 50 þús. kr. styrk til unglingaskóla er bygð á því, að unglingaskólinn á Ísafirði fái sinn styrk hækkaðan upp í 5000 kr. Jeg viðurkenni, að þessi skóli er alls góðs maklegur, og jeg teldi æskilegt, að háttv. þm. (SigurjJ) bæri fram till. um nokkra hækkun á liðnum til unglingafræðslunnar, með sjerstöku tilliti til Ísafjarðarskólans. Væri skólanum þá vel borgið fyrir hans tilstilli. Jeg tel ekki óeðlilegt, þó till. um hækkun á styrk til unglingaskólans á Ísafirði komi fram, því að þetta er einhver myndarlegasti unglingaskólinn í kaupstöðum landsins, þó að hann hafi ekki fengið að njóta vaxtar síns og viðgangs um styrk úr ríkissjóði. Það hefir atvikast svo, að sveitaskólarnir hafa fengið bróðurpartinn af þessum styrk. Nemendafjöldi og lengd skólatímans ráða miklu um úthlutunina, en tilkostnaður og venjur ráða og nokkru. Það hefir ekki þótt eiga við að lækka styrk til skóla, sem ekki hefir farið hnignandi, en af því hefir hitt leitt, að skólar í vexti hafa ekki fengið að njóta vaxtar síns. Þetta hefir ekki síst komið niður á unglingaskólanum á Ísafirði. En það má ekki dragast lengi, að styrkurinn til hans tvöfaldist, eða jafnvel þrefaldist, og tryggasta leiðin til þess er að hækka upphæðina, sem ætluð er til unglingafræðslu. Önnur leið er ekki til í því efni.