04.04.1927
Neðri deild: 46. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í B-deild Alþingistíðinda. (1071)

21. mál, fjárlög 1928

Ingólfur Bjarnarson:

Jeg vildi mega segja nokkur orð til þess eindregið að mótmæla dylgjum hv. þm. Ak. (BL) um það, að alþýðuskólinn á Laugum væri í fjárhagslegu Öngþveiti. Eftir því sem mjer skildist á skrafi hv. þm., átti að geta verið hætta á því, að skólahúsið yrði tekið upp í skuldir, af því að það væri veðsett. Einnig væri sýslusjóður þingeyinga illa stæður og í mikilli hættu staddur vegna ábyrgðar fyrir skólann. Út af þessu vil jeg upplýsa, að skólinn hefir að vísu fengið 25 þús. kr. söfnunarsjóðslán, — sem afborgast á 20 árum, — gegn ábyrgð sýslusjóðsins. En þetta tel jeg aðeins formsatriði, því að sýslusjóðurinn hefir ábyrgð 20 hjeraðsmanna fyrir því, að honum stafi engin hætta af þessari ábyrgð. Jeg get nú hugsað mjer, að hv. þm. (BL) geri nú lítið úr ábyrgð þessara 20 manna. En jeg leyfi mjer að fullyrða, að þótt þeir sjeu, hver um sig, sjálfsagt ekki jafnmiklir burgeisar og hv. þm. sjálfur, þá sjeu þeir margfaldlega ábyrgir fyrir láninu, svo að hvorki þurfi sýslusjóðurinn að bíða halla vegna ábyrgðarinnar, nje því síður, að skólahúsið geti verið í nokkurri hættu statt. En svo skal jeg benda á það, að eins og skóli þessi hefir farið af stað, þá má fastlega vona, að hann verði fullkomlega fær um að sjá fjármálum sínum borgið, þar með vitanlega talið að standa í fullum skilum með greiðslu vaxta og afborgana af skuld sinni. Til þessa hjálpar bæði mikil aðsókn og ágæt aðstaða.

Jeg endurtek það því, að hjer er um óhróðursdylgjur einar að ræða hjá hv. þm. Ak., sem ekki eru á neinum rökum reistar, og vil skjóta því í allri vinsemd til hv. þm., hvort hann álíti ekki, að ástæða geti verið til þess að bera meiri áhyggjur út af ýmsum öðrum skuldum en þessari, sem honum þykir svo skelfileg.

Þá vil jeg einnig mótmæla því, sem skilja mátti á hv. þm., að sýslusjóður S.-Þingeyjarsýslu sje illa stæður. Jeg lít miklu fremur svo á, að hann megi eftir öllum atvikum telja vel stæðan. Er því mjög óviðkunnanlegt, að hv. þm. skuli vera að reyna að vekja grun um hið gagnstæða hjer á hv. Alþingi. Sannast hjer hið fornkveðna, að „heggur sá, er hlífa skyldi“. Jeg vil benda þeim þm., sem ef til vill hafa tekið mark á ummælum hv. þm. Ak., á það, að jeg hefi í höndum síðasta efnahagsreikning sýslusjóðs S.-Þing., og geta þeir, sem það vilja, fengið að sjá hvernig hagur sýslusjóðsins er.

Þá var hv. þm. með dylgjur í garð skólans viðvíkjandi ljelegri kenslu og slæmu andrúmslofti þar yfir höfuð. Jeg lít svo á, að þetta sje ekki svara vert með öðru en því að benda á það, sem alkunnugt er, að skólinn á bestu vinsældum að fagna í hjeraðinu og nýtur almenns trausts. Sannast það best á hinni miklu aðsókn. Nú eru þar yfir 60 nemendur og svo áskipað sem mögulegt er. Og nú eru þegar komnar umsóknir um inntöku í skólann fyrir næsta vetur svo miklar, að langt er fram yfir það, sem hægt er að sinna. Jeg held, að ummæli háttv. þm. Ak. hljóti að vera komin fram af einhverri óskiljanlegri löngun til þess að sverta og óvirða menn og málefni heima í sínu eigin hjeraði. Hefir það komið fram í ræðum hans hjer á Alþingi áður. En jeg tel ekki rjett að ganga langt í því að draga þetta inn í umr. hjer, og mun því ekki taka frekari þátt í þeim umr., þó svo fari, að hv. þm. haldi áfram að kasta auri að skólanum á Laugum og aðstandendum hans.