04.04.1927
Neðri deild: 46. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (1076)

21. mál, fjárlög 1928

Pjetur Þórðarson:

Mjer skildist hv. frsm. fjvn. helst koma með þá mótbáru gegn till. minni II. 3 á þskj. 294, að það yrði að taka fyrir lán úr viðlagasjóði til hreppsfjelaga, vegna þess að það kæmu altaf fram á eftir óskir um að fá slík lán eftirgefin. En það er nú búið að ganga svo langt á þessari braut, að það er varla hægt að stemma stigu fyrir því nú eða í framtíðinni. Það væri fólgið í því hið mesta misrjetti, að taka nú upp þann sið að neita vegna þessa, ef að öðru leyti eru ástæður fyrir hendi til slíkra lánveitinga. Þótt ekki liggi hjer fyrir skýrsla um hag viðkomandi hreppsfjelags, þá vænti jeg þess, að hv. deildarmenn geti trúað því, sem jeg segi um það. Þessi lánbeiðni er alveg við hæfi efnahags þessa hreppsfjelags, og er því síður en svo, að það reisi sjer hurðarás um öxl með henni. Þetta sveitarfjelag er betur statt en mörg önnur, og á ekki við þá dutlunga að búa, sem komið geta fyrir í kaupstöðum þeim, sem algerlega eru háðir afkomu sjávarútvegsins. Hjer er því ekki um annað en lán að ræða, og það lán, sem sveitarfjelagið hefir bæði vilja og getu til þess að endurgreiða, svo að hjer mun ekki verða farið fram á eftirgjöf.

Annars vildi jeg geta þess í sambandi við þá hræðslu, sem bólar á hjá sumum, hv. þdm., að um lán þessi sje vanalega sótt með það fyrir augum að fá þau síðar eftirgefin, og þess vegna eigi að hætta að veita þau, að jeg hygg, að þessi skoðun sje ekki rjett. Þá er rjettara og sanngjarnara að taka alveg fyrir að gefa lánin eftir heldur en að hætta að veita þau.

Jeg held því, að engin hætta sje að lána þessu sveitarfjelagi, og þar sem ekki er um hærri upphæð að ræða, vænti jeg að hv. þdm. geti fallist á það. Með hliðsjón af öllum öðrum lánbeiðnum, sem fyrir hv. fjvn. hafa legið, þá held jeg, að þessi lánveiting, sem jeg er hjer að mæla fyrir, standi mörgum öðrum framar að sanngirni og rjettlætiskröfum.