04.04.1927
Neðri deild: 46. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

21. mál, fjárlög 1928

Jakob Möller:

Það eru aðallega fáein atriði í ræðu hv. frsm. (TrÞ), sem jeg finn ástæðu til að svara örfáum orðum. Hann spurði, hvort stúdentastyrkirnir ættu að skoðast sem framtíðarstyrkir eða ekki. Jeg held brtt. beri það með sjer. Annars er því til að svara um þessa tvo styrki, sem jeg legg til að verði veittir, að annar er til þess að byrja með nám og því líklegt að veita verði hann áfram, en hinn er lokastyrkur, til þess að hjálpa efnilegum manni en blásnauðum til þess að ljúka námi. Um þetta hefi jeg svo ekki fleira að segja, en vil aðeins endurtaka það, sem jeg sagði á laugardaginn, að mjer finst óheppilegt að binda þessa styrki við ákveðna stúdentatölu á ári. Getur farið svo, að í ár útskrifist enginn, sem sjerstök ástæða sje til að styrkja, og að þeir stundi nám við háskólann hjer. Svo geta komið önnur ár, þar sem margir útskrifast, sem þörf er á að styrkja og því ilt að hafa styrkinn svo takmarkaðan, að ekki sje hægt að sinna rjettmætum kröfum.

Um Valgarð Thoroddsen stendur svo sjerstaklega á, að þar er um nýtt nám að ræða, en kostnaðarsamt, sem getur eflaust komið okkur til góðs, er stundir líða.

Um hinn styrkinn er það að segja, að ekki hefði til þess komið að veita hann, ef ekki stæði svona sjerstaklega á, að maðurinn hefði veikst og föður hans orðið um megn að kosta hann.

Styrkinn til hljómsveitarinnar skildist mjer, að hv. frsm. vildi bíða með að hækka, af því að það væri svo margt annað, sem þyrfti að styrkja, en yrði þó að sleppa, og þó að margir þættust þurfa að fá meira, þá yrði þó að skera fjeð við neglur sjer. Þegar sýnt er, að vantar skólaáhöld eða eitthvað þess háttar, þá er ekki látið bíða þangað til einhverntíma með að kaupa það. Nú stendur svo á, að sveitina vantar hljóðfæri og fleira, sem óhjákvæmilegt er að kaupa; þess vegna er það nauðsynlegt að styrkja hana, svo að hún nái sem mestri fullkomnun og geti fullnægt þeim kröfum, sem verður að gera til hennar, af því að hún er styrkt af opinberu fje.

Um styrkina undir XXVIII. tölulið hefi jeg ekki miklu við að bæta. Þeir miða allir að því sama, að efla leiklist hjer á landi, og eru nauðsynleg ráðstöfun og undirbúningur vegna þjóðleikhússins, sem hlýtur að verða reist bráðum. En út af fyrirspurn hv. frsm. um það, hvort ekki væri ætlast til, að menn, sem styrktir væru til utanfarar og náms í þessu skyni — að læra að leika —, störfuðu síðan hjá Leikfjelaginu, þá virðist mjer slíkt hljóti að liggja í augum uppi, enda mun svo vera að jafnaði. Þó að hlaupi snurða á samvinnu einstakra manna innan Leikfjelagsins í bili, þá raknar úr þræðinum aftur, þegar alt hefir jafnað sig.

Þá virtist mjer hv. frsm. ekki vilja taka XXXIV. brtt. alvarlega og taldi ekki veiðast það mikið af þessum fiski, að ekki væri hægt að selja vöruna hjer innanlands. En jeg vil taka þetta alvarlega, af því að mjer er kunnugt um, að af vöru þessari berst svo mikið á hinn takmarkaða innanlands markað, að erfitt er að koma henni í verð. Annars skírskota jeg til vottorða þeirra, sem umsókninni fylgja. Af þeim má sjá, að hjer er um fulla alvöru að ræða. Þau eru líka gefin af þeim mönnum, sem enginn efast um, að sjeu færir að dæma um þetta, eða að minsta kosti kunnugri þessum málum heldur en við báðir til samans, hv. þm. Str. (TrÞ) og jeg.

Þá vil jeg víkja að XLIII. brtt., um styrkinn til Hans Hannessonar pósts, og vildi jeg þá leyfa mjer að vekja athygli hv. þdm. á því, að það stendur alveg sjerstaklega á með þennan mann, ekki aðeins vegna þess, að hann hefir starfað vel og lengi í þjónustu landsins með framúrskarandi árvekni, dugnaði og samviskusemi, heldur verður að gæta hins, að síðari árin hefir hann haft hlutfallslega meiri kostnað af starfinu en áður, og borið þó minna úr býtum, eftir að bifreiðarnar komu til sögunnar og tóku frá honum flutninginn að mestu leyti.

Jeg vil líka leyfa mjer að vekja athygli á fjárstyrk þeim, sem hv. fjvn. leggur til, að manni þessum verði veittur. Hún miðar styrkinn við þá venju, sem gilt hefir um pósta, þegar þeir hafa látið af starfi. En það er ekki sambærilegt í þessu tilfelli. Þessi styrkur er alt of lítill fyrir mann, sem búsettur er í Reykjavík. Það má ekki eingöngu miða ellistyrk við það, sem hægt er að fleyta sjer á úti í sveitum landsins. Því aðeins getur ellistyrkur komið að þeim notum, sem ætlast er til, að hann sje miðaður við kringumstæðurnar á hverjum stað. En að mæla alla á sama kvarðann og hafa svo alla styrkina jafnháa, er ekki rjett, enda getur úr því orðið mesta misrjetti og ranglæti.

Fleira ætla jeg ekki að segja um brtt. mínar. En þó að hv. frsm. (TrÞ) hafi heldur tekið þeim þunglega, vænti jeg, að hv. þdm. sjái nauðsyn þeirra og greiði þeim því atkv. sitt.