04.04.1927
Neðri deild: 46. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í B-deild Alþingistíðinda. (1079)

21. mál, fjárlög 1928

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Eiginlega hefi jeg mjög litla ástæðu til þess að taka til máls. Yfirleitt hafa hv. þdm. vikið mjög lítið að mjer eða fjvn. í ræðum sínum, að undanteknum hv. 1. þm. Reykv. (JakM), hv. þm. Barð. (HK) og hv. þm. Ak. (BL), sem ekki er viðstaddur sem stendur. Hann óð ennþá einu sinni á móti Laugaskólanum með því sama forsi, sem hann er kunnur að í því máli. En hv. þm. S.-Þ. (IngB) hefir nú svarað þessari árás hans, svo að jeg hefi þar litlu við að bæta. Eitt meðal annars, sem hv. þm. Ak. færði Laugaskólanum til lasts, var skipulagsleysi það, er þar ætti að ríkja um alla stjórn skólans. En þetta er ekki á neinum rökum bygt, enda er það kunnugt, að til þessa máls hefir verið betur vandað um allan undirbúning en um mörg önnur mál, sem þó eru talin lýtalaus, og að síðan skólinn tók til starfa hefir rekstur hans gengið ágætlega.

Annars vil jeg í þessu sambandi minna á frv., sem hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) bar hjer fram í fyrra um skipulag unglingaskólanna í landinu. Á þetta frv. lauk hv. þm. Ak. miklu lofsorði, og hefi jeg ekkert við það að athuga. En frv. þetta var samið af þeim í sameiningu skólastjóranum á Laugum og Á. Á. Þess vegna finst mjer, að undarlega stingi í stúf um skipulagsleysið á Laugum, þegar vitað er, að skólastjórinn hefir unnið að samning þessa frv., sem hv. þm. Ak. lofar svo mjög og einmitt fyrir það skipulag, sem þar er bent á.

Hann vitnaði í latneska setningu: Vestigia terrent, sem þýðir: sporin hræða — og vildi heimfæra þetta til Laugaskólans. Jeg kom að Laugum í sumar og undraðist, hve vel er þar frá öllu gengið. Jeg sá að vísu ekki kensluna, en á öllu mínu langa ferðalagi kom jeg ekki á neinn stað, sem mjer leist betur á en einmitt Laugaskólann. Þar er svo vel fyrir öllu sjeð og kostað kapps um að láta hið unga fólk búa við holl skilyrði, bæði líkamlega og andlega. Skólinn hefir nýlega gefið út myndarlegt ársrit, og eru þar meðal annars birtar ritgerðir eftir nemendurna, sem bera það með sjer, að skólann hefir sótt efnilegt gáfnafólk. Jeg segi því ekki: Vestigia terrent! Spor Laugaskólans hræða mig ekki, heldur lít jeg svo á, að skóli þessi geti orðið til fyrirmyndar um heppilegt skipulag unglingaskólanna í framtíðinni.

Þá er það hv. þm. Barð. (HK), sem jeg þarf að svara örfáum orðum. Honum þótti það undarlegt af mjer að vera með því í fyrra að veita hreppi í Strandasýslu eftirgjöf á láni, en leggjast nú á móti sinni brtt. En eins og hann veit, er það fyrir hönd fjvn., sem jeg mæli með eða móti brtt. einstakra þm. Annars verð jeg að segja það, að þarna er ólíku saman að jafna. Það stendur öðruvísi á fyrir hreppum, sem við harðindi og óáran ýmiskonar hafa að búa — og ekkert undarlegt þó að þeir þurfi að fá eftirgjöf — heldur en hreppum, sem betur eru settir af náttúrunni, en hafa til lána sinna stofnað með lítilli fyrirhyggju. Jeg tel rjettara að styrkja þá hreppa, ef kostur er, sem orðið hafa sjerstaklega illa úti vegna harðinda, eða annara óviðráðanlegra orsaka, heldur en hina, sem hafa ráðist í fyrirtæki með litlum hyggindum, en sem vel máttu bíða.

Þá fanst mjer hann fyrstur allra væna nefndina um hlutdrægni í brtt. sínum. Hann sagði meðal annars, að meiri hl. fjvn. væri fylgjandi fjárveitingu til Laugaskólans af pólitískum ástæðum. (HK: Hvað er hv. frsm. að segja?). Jeg er að svara hv. þm. Barð. (HK: Það getur ekki verið). Hv. þm. var að tala um hlutdrægni nefndarinnar í þeim brtt., sem hún flytur. En mjer finst þetta ekki viðeigandi, og enda ómaklegt að bera slíkt á nefndina. En hitt má kannske segja, að fjvn. hafi tilhneigingu til að styðja þau hjeruð að einhverju leyti meira, sem skera sig út úr um allan myndarskap og framtakssemi. Þess vegna leyfi jeg mjer að mótmæla því fast og ákveðið, að fjvn. hafi sýnt nokkra hlutdrægni í till. sínum. Annars vildi jeg óska, að þessi mæti maður vildi færa einhver rök fyrir þessari ásökun sinni, ef honum er það þá alvara að bera slíkt á nefndina.

Út af ræðu hv. 1. þm. Reykv. (JakM) get jeg skilað því frá fjvn., að hún lítur ekki svo á, að ríkissjóður hafi tekið að sjer að styrkja Hljómsveit Reykjavíkur með það fyrir augum að sinna öllum hennar þörfum. Fjvn. lítur ekki svo á, að ríkissjóður hafi komið upp sveitinni og beri ábyrgð á henni, eins og t. d. skólum, sem stofnaðir hafa verið úti um land og styrks njóta úr ríkissjóði.

Sama er og að segja um skilning sama hv. þm. á eftirlaunum. Nefndin getur ekki fallist á röksemdir hans fyrir því, að eftirlaun eigi að vera hærri hjer í Reykjavík en úti um land, og verður því á móti þessari brtt. hans. Þetta ætla jeg að láta mjer nægja, og vænti þá, að senn fari nú að líða sð atkvgr.