09.04.1927
Neðri deild: 51. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

21. mál, fjárlög 1928

Halldór Stefánsson:

Jeg vildi aðeins benda á og gera grein fyrir tveim brtt., sem jeg flyt ásamt öðrum. Sú fyrri, sem jeg flyt með hv. samþm. mínum (ÁJ), er undir VIII. tölulið á þskj. 336, um að Evu Hjálmarsdóttur verði veittar 1500 krónur, en til vara 1000 krónur, til framhaldsdvalar á heilsuhæli fyrir krampaveikt fólk í Danmörku. Málsástæður eru kunnar síðan í fyrra. Þá voru veittar 1000 krónur í þessu skyni, enda mun það hafa verið venjan, þegar líkt hefir staðið á og hjer, að um sjúkdóm er að ræða, sem ekki er hægt að leita lækninga á hjer á landi, að ríkið hafi hlaupið undir bagga. Þetta er ung stúlka, algerlega efnalaus. Sömuleiðis eru foreldrar hennar alveg efnalausir. Fósturforeldrar hennar eru nú mjög hnigin að aldri, komin á áttræðisaldur og mjög þrotin að fje og kröftum, og hafa m. a. varið kröftum sínum og fje til þess að leita þessari fósturdóttur sinni læknishjálpar.

Í vetur fyrir áramótin fór stúlka þessi til Danmerkur, í Colonial Institution hælið, og hefir dvalið þar síðan.

Til fararinnar notaði hún styrk þann, er Alþingi veitti henni í fyrra, en hann mun ekki duga henni þar lengur en misseristíma. Auk þessa styrks fjekk hún dálítið fje, sem safnað var með samskotum eystra. Mun hún því geta dvalið ca. hluta árs á hælinu fyrir það fje, sem hún hefir nú yfir að ráða.

Það er álitið, að eftir svona stuttan tíma sje ekki hægt að segja um, hvort hún getur fengið bata eða ekki, og er ófært, að hún þurfi að fara heim áður en það er fullreynt. Þess vegna er farið fram á þennan viðbótarstyrk nú.

Jeg hefi borið þetta undir landlækni og hefir hann mælt með, að stúlkunni verði veittur 1000 kr. styrkur í þetta sinn, og telur hann, að þegar sá tími verði liðinn, sem hún getur dvalið á hælinu fyrir það fje, er hún hefir nú, og þúsund krónur að auki, muni fengin full vissa fyrir því, hvort henni getur batnað þar eða ekki. Jeg vænti því, að háttv. þm. verði vel við þessari till. og samþykki hana. Það er vitanlega rjett, að þeir eru margir, sem styrks beiðast af meiri og minni nauðsyn, — um það skal jeg ekki metast eða nefna neinar sjerstakar styrkbeiðnir, — en sjaldan finst mjer jafnmikil nauðsyn að hjálpa, eins og þegar sjúklingar, fátækir og umkomulitlir eiga í hlut.

Þá er XIII. brtt. á þskj. 336, um styrk handa mönnum til þess að fá sjer gerfilimi. Um till. þessa þarf fátt að segja. hún skýrir sig sjálf. Eins og öllum er kunnugt eru þeir margir, sem verða fyrir því óláni að missa útlimi, höndur eða fætur, og verða þá lítt færir eða ekki til vinnu. Slíkt tjón verður mönnum vitanlega aldrei bætt að fullu, en þó best með því, að þeir geti fengið gerfilimi. Geta þeir þá unnið ýms störf, og þeir sjálfir og þjóðfjelagið á þann hátt haft betri not krafta þeirra en ella. En sem að líkindum ræður eru margir þeirra ekki svo efnum búnir, að þeir geti af eigin rammleik keypt sjer þessa gerfilimi, og til þess að bæta úr því, er farið fram á þennan styrk. Vænti jeg svo fastlega, að háttv. deildarmenn fallist á ástæðurnar fyrir þessari tillögu og samþykki þá að minsta kosti varatillöguna.