09.04.1927
Neðri deild: 51. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (1086)

21. mál, fjárlög 1928

Frsm. samgmn. (Klemens Jónsson):

Eins og jeg gat hjer um við 2. umr. þessa máls að verða mundi, þá eru nú komnar fram tillögur samgmn. Viðvíkjandi 13. gr. C. 2. er það að segja, að samgmn. hefir nú gefið út nál. á þskj. 325, og jeg get yfir höfuð að tala látið mjer nægja að vísa til þess, sem þar er tekið fram. Jeg skal þó strax geta þess, að það er ekki rjett hermt, sem segir í nál. um Eyjafjarðarbátinn, að tillagið til hans, að því er póstflutning snertir, eigi nú að teljast á fjárlögunum, í staðinn fyrir að það hefir áður verið greitt beint úr póstsjóði. Það mun að vísu hafa verið tilætlunin, að svo væri nú, en það er víst, að til hans hafa verið veittar 14000 krónur að undanförnu, og mun ekki mega búast við, að það geti lækkað meira en um 1000 krónur, eða niður í 13000 krónur; þar af verða þá 6000 krónur greiddar úr ríkissjóði, en 7000 krónur úr póstsjóði.

Jeg skal þá fyrst viðvíkjandi þeim breytingum, sem stungið er upp á, minnast á Djúpbátinn. þessi bátur hefir um mörg ár annast póstferðir um Ísafjarðardjúp, og eftir því sem reikningar hans bera með sjer, hefir þessi bátur borið sig hálf illa og átt í töluverðum fjárhagsvandræðum. Nú hefir almennur þing- og hjeraðsmálafundur, sem haldinn var í Vestur-Ísafjarðarsýslu á síðastliðnum vetri, farið fram á að fá þennan styrk talsvert aukinn, aðallega til þess að ljetta undir með því, að aukin viðskifti geti komist á milli Djúpmanna og Vestur-Ísfirðinga. Nefndinni hefir þess vegna þótt fullkomin ástæða til þess að hækka þennan styrk, aðallega með það fyrir augum, að báturinn færi nokkrar ferðir, ekki færri en fimm, á helstu staði í Vestur-Ísafjarðarsýslu, Súgandafjörð, Önundarfjörð og Dýrafjörð, og með þeim skilyrðum, sem tekin eru fram í erindinu, að sýslunefnd samþykki bæði tölu ferða, áætlun og farmgjöld. Nefndin leggur því til, að þessi hækkun verði samþykt, og þó sjerstaklega hvað þessa tillögu snertir.

Hvað Flateyjarbátinn snertir, þá hefir hann að undanförnu haft 5500 króna styrk, en nefndin hefir nú lagt til, að hann verði hækkaður um 2500 krónur. Það er af þeirri ástæðu, að Breiðfirðingar hafa nú útvegað sjer bát, um 20 tonn að stærð, og ætla að hafa hann til ferða um allan Breiðafjörð; en allir, sem til þekkja, vita, að Barðstrendingar hafa sama sem enga vegi á landi, en verða að hafa allar sínar samgöngur á sjónum, og þótti nefndinni því rjett, að styrkurinn yrði hækkaður í þetta skifti um 2500 krónur. Það má kannske gera ráð fyrir því, að styrkurinn verði lækkaður síðar, þótt jeg geri ekki ráð fyrir því, vegna þess að altaf heyrast kröfur um hækkaða styrki til samgöngubóta, svo að það er ekki vert að gera sjer of háar hugmyndir um það, að bátastyrkir yfirleitt verði lækkaðir á næstu árum.

Þá vill nefndin taka 100 krónur af Rauðasandsbátnum og leggja þær til Mýrabátsins. Það væri ástæða til að tala um, hvort þetta hefði verið gert með góðu samþykki þessara tveggja þm., hv. þm. Barð. (HK) og hv. þm. Mýr. (PÞ), sem báðir eiga sæti í nefndinni, og jeg vil þá geta þess, að það er með fullu samþykki þessara hv. þm., og hv. þm. Barð. (HK) hefir ekki átt minni þátt í því en hv. þm. Mýr. (PÞ); en þetta sýnir best það ágæta samkomulag, sem er á milli manna í nefndinni.

Hvað Lagarfljótsbátinn snertir, þá skal jeg leyfa mjer að geta þess, að fyrir nefndinni lá erindi frá formanni bátsins og fjelagsins Freysgoða, sem sem heldur uppi ferðum bátsins um fljótið. Í þessu erindi, sem nefndinni hefir borist, segir svo, að nú sje áformað að láta bátinn ganga út eftir fljótinu, svo að þeir, sem búa með fram fljótinu, í Hróarstungu, Hjaltastaðaþinghá og Eiðaþinghá, geti haft not af honum. Þessi bátur hefir 12–14 áætlunarferðir á ári um fljótið, auk þess sem hann fer altaf eftir fljótinu þegar þörf krefur; nefndin taldi þess vegna rjett, að báturinn fengi aukinn styrk, og þar sem ekki er farið fram á meira en 200 krónur, þá get jeg hugsað, að allir telji það mjög hóflega hækkun, einkum þar sem búast má við því, að með því að fara langt út eftir fljótinu geti báturinn gert mjög mikið gagn.

Tillagið til Eyjafjarðarbátsins hefi jeg minst á áður, en þær upplýsingar, sem þá lágu fyrir nefndinni, reyndust ekki ábyggilegar, en jeg geri ráð fyrir, að þetta saki ekki, því að annar þm. Eyfirðinga, sem á sæti í Ed., er einmitt þar í fjárveitinganefnd. Með þeim góðu samgöngum, sem eru um Eyjafjörð, ættu 6000 kr. að nægja, en fyrir póstflutninginn greiðir póstsjóður auðvitað það, sem þurfa þykir, til þess að póstflutningar verði sem bestir.

Þá hefir loks borist erindi frá Austur-Skaftfellingum um alveg nýja upphæð í viðbót við það, sem áður hefir verið veitt. Hv. þm. A.-Sk. (Þorlj) hefir farið fram á það, að samgmn. legði til, að 3000 kr. styrkur væri veittur til vjelbátaferða með ströndum Austur-Skaftafellssýslu auk þess, sem veitt er til Hornafjarðarbáts. Hv. þm. hefir upplýst, að mótorbátar hafi verið hafðir til flutninga frá Hornafirði í Lón, ennfremur til Papóss og víðar, og þá hefir líka verið tekið fram, að mikil þörf væri að koma á bátaferðum milli Hornafjarðar og Suðursveitar, og hafa þangað verið farnar fimm ferðir og sjö í Lón síðasta ár. Auk þess segir hv. þm., að Öræfingar hafi í hyggju að fara að slátra fje sínu heima hjá sjer og fá bát á Hornafirði til þess að sækja kjötið, ef veður leyfir, og þess vegna er beðið um svo háan styrk. Nefndin gat því miður ekki orðið við þessu að öllu leyti, heldur leggur hún til, að veittar verði 2000 krónur til bátaferða þar eystra, og að þar af gangi 600 krónur til bátaferða til Öræfinga. Jeg veit, að jeg þarfekki að tala frekar fyrir þessari brtt., því að það er öllum kunnugt, hve erfitt er um ferðir þar eystra, bæði á sjó og landi. Öræfingar eiga sjerstaklega erfitt með að koma af sjer afurðum sínum, og sláturfje sitt verða þeir að reka annaðhvort austur á Hornafjörð eða vestur að Vík, bæði langa og erfiða leið. Það væri þeim því miklu betra, ef þeir gætu skorið fje sitt heima hjá sjer á haustin og haft slátrin heima í bú sín, en gætu komið kjötinu sjóveg austur á Hornafjörð. Jeg vænti því fyrir hönd samgmn., að hv. deild taki vel þessari till. hennar og samþykki hana.

Eftir því sem getið er um í nál., átti raunveruleg hækkun ekki að vera hærri en 4500 krónur, en eftir því sem nú er upplýst er hún 9500 krónur, en þetta er ekki mikið, þegar tekið er tillit til þess, hve mikil þörf er á bættum samgöngum á sjó, og að hve miklu gagni þær koma.

Um aðra liði hefi jeg enga ástæðu til að fjölyrða neitt sjerstaklega. Það var ekki hægt að þoka þeim niður, þótt nefndin hefði fullan vilja til þess, og jeg get sjerstaklega sagt það fyrir nefndarinnar hönd, að henni þótti styrkurinn til Borgarnessbátsins altof hár, en það er ekki hægt að semja við neitt annað fjelag en það, sem gerir út e s. Suðurland, svo að það getur algerlega sett stjórninni stólinn fyrir dyrnar. Flestallir hinir liðirnir, sem jeg hefi ekki minst á, eru heldur smáir og flestir þeir sömu og áður, og þótt sumir þeirra hafi verið hækkaðir á síðasta þingi, þá er líka á það að líta, að það er mikið gagn að þeim. Vil jeg þar sjerstaklega nefna Hvalfjarðarbátinn; hann gerir þeim hjeruðum mikið gagn, og sú upphæð, sem til hans er veitt, er alls ekki of há. Sama er að segja um Grímseyjarbátinn, Rauðasandsbátinn, og þó einkanlega um Mýrabátinn.

Hvað viðvíkur Eyjafjarðarbátnum, þá skal jeg sjerstaklega geta þess, að nefndin vildi ekki veita hærri styrk til hans en hjer er farið fram á, og var sú ástæða til þess meðal annars, að henni hafa ekki borist neinar skýrslur um þennan bát, en nefndin átti von á því, að það mundu koma skýrslur og upplýsingar um ferðir þessa báts og viðkomustaði og hvert gagn væri að honum. Nefndinni er nú orðið það kunnugt, að það er í fyrsta skifti á þessu ári, sem báturinn hefir notið svona mikils styrks, og þess vegna nokkur vorkunn, þó engar skýrslur hafi komið.