26.02.1927
Efri deild: 15. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (109)

1. mál, sveitarstjórnarlög

Einar Árnason:

Það eru nokkur orð út af því, sem jeg hreyfði hjer áðan, að hætt væri við að leggja fram hreppsreikningana í 10 daga. Mjer skilst, að bæði hæstv. ráðh. (MG) og hv. frsm. (GÓ) muni kannske geta fallist á það. Þætti mjer gott, ef hv. frsm. (GÓ) vildi hreyfa þessu máli í nefndinni, ef hún svo vildi koma með brtt. í þessa átt til næstu umr. Annars myndi jeg gera það, ef nefndin vildi ekki sinna því.

En svo var það, að hv. frsm. (GÓ) þóttu ástæður mínar fyrir því að vera á móti tvöfalda atkvæðinu lítils virði. En mjer dettur í hug, að hv. frsm. (GÓ) ætli að fara eitthvað að bæta úr því, sem hann gerði í fyrra, með því að hann var einn af helstu hvatamönnum þess að undiroka konur, þannig, að þær gætu ekki losnað við að vera í hreppsnefnd. Má vera, að hann vilji nú bæta úr þessu, með því að hækka laun oddvita sem mest, með það fyrir augum, að oddvitastörfin lendi fljótlega á konum. Þá gæti jeg vel skilið hann og gæti vel verið með því, að þær fengju jafnvel hærri laun sem oddvitar en karlmenn, því jeg efast ekki um, að þau störf verði þeim erfiðari yfirleitt en karlmönnum. Finst mjer það vel farið, að þeir, sem sóttu fastast þetta mál í fyrra, fari þarna að bæta ráð sitt.

Um þetta tvöfalda atkvæði oddvita má altaf deila. En þar sem engin brtt. liggur fyrir um það, þá sje jeg ekki, að það þýði nokkuð við þessa umræðu að halda áfram umræðum um það.