09.04.1927
Neðri deild: 51. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

21. mál, fjárlög 1928

Jörundur Brynjólfsson:

Það mun ekki vera vinsælt að mæla með till. til útgjaldaauka, að þessu sinni. Jeg flyt heldur ekki nema tvær brtt., og eru þær báðar við þennan kafla fjárlagafrv., sem nú er til umr. Það er þá fyrst till. um að veita Símoni Jónssyni 1000 kr. styrk, til þess að leita sjer lækninga á heilsuhæli erlendis. Sjúkdómi þessa manns er þannig háttað, að hann verður að geta dvalið á sjúkrahúsi, ef nokkur von á að vera um bata. — En kostnaðinn við veru sína þar getur hann ekki greitt af eigin rammleik. Efnahagur hans er nú svo þröngur, að hann getur ekki lengur staðið straum af sínu eigin heimili. Þessi maður hefir nú um hríð dvalið á heilsuhæli, og gefa læknar þar honum góða von um bata, ef hann getur verið kyr á hælinu, en það er honum algerlega ókleyft af eigin rammleik, eins og jeg sagði áðan.

Jeg hefi því ekki sjeð önnur úrræði en að leita til hins háa Alþingis um styrk. — Að vísu mundi það erfitt fyrir þingið að sinna þeim öllum, sem til þess kynnu að leita í þessum erindum, en þó er öðru máli að gegna, þegar alveg sjerstaklega stendur á. — Þessi maður er alveg sjerstakur atorkumaður, um það get jeg vitnað, og háttv. samþm. minn (MT) og fleiri, sem til hans þekkja, vita það vel. Og verði hann sökum fjárskorts að fara af hælinu og hverfa heim má segja, að batavon hans sje úti. Þessi litli fjárstyrkur er aðeins ætlaður til hælisdvalar. Jeg vona, að góðir menn sjái um heimili hans á meðan. Jeg verð að segja það, að það tæki mig mjög sárt, ef Alþingi sæi sjer ekki fært að sinna þessari styrkbeiðni og vísaði þeim manni frá sem óverðugum, sem leitar nú loks hjálpar eftir langt og mikið starf, þegar kraftarnir hafa þrotið. Jeg vil leyfa mjer að benda á það, að með því að veita þennan styrk er ekki skapað neitt nýtt fordæmi. Slíkir styrkir hafa verið veittir áður, og mun þörfin tæplega nokkru sinni hafa verið eins brýn eins og hún er í þessu tilfelli. Stundum hafa meira að segja verið veittir styrkir til hálaunaðra embættismanna til stuttrar dvalar erlendis, og þeir þó haldið embætti sími og ekki haft mikinn kostnað af því, á meðan þeir dvöldu erlendis. En sumir svona styrkir hafa auðvitað verið veittir án þess jeg láti mjer detta í hug, að ekki hafi verið full þörf fyrir þá. Jeg ætla svo ekki að fjölyrða meira um þessa till. mína, en treysti á drengskap allra hv. þm., að þeir taki þessari styrkbeiðni vel, og jeg er þess fullviss, að ef þessi maður fær heilsuna aftur, mun hann margendurgreiða þjóð sinni styrkinn.

Þá á jeg aðra till. við 12. gr., um að hækka styrk til Halldórs Arnórssonar umbúðasmiðs úr 2200 kr., sem hann er í fjárlagafrv., og upp í 2400 kr. Hæstv. stjórn hefir fært styrkinn niður um 200 kr., en jeg tel, að full þörf hefði verið á, að hann fengi að haldast óbreyttur. Þessi maður á nú við svo þröngan kost að búa, að hann hefir orðið að segja upp húsnæði því, er hann hafði, og selja af áhöldum sínum. Jeg sje, að fram eru komnar brtt. um styrk handa þeim, sem þurfa umbúðir, og það sýnir, að það er full þörf fyrir, að þessari sýslan verði haldið uppi. Jeg held því, að það hefði verið rjettara að gera manninum betur kleyft að stunda iðn sína, sem svo mikil þörf er fyrir hjer, en hinsvegar er enginn gróðavegur, heldur en að sneiða af þessum styrk, sem þegar áður var af skornum skamti. Jeg vænti, að hv. deild samþ. þessa till. Það er aðeins 200 kr. hækkun, sem farið er fram á, svo að hann geti notið sama styrks og hann hafði áður.

Einstakar brtt. annara hv. þm. ætla jeg ekki að gera að umtalsefni að þessu sinni.