11.04.1927
Neðri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í B-deild Alþingistíðinda. (1096)

21. mál, fjárlög 1928

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg hefi borið fram eina hækkunartill. við þennan kafla fjárlagafrv., undir I á þskj. 345, fyrra lið. Hún er um að hækka fjárveitingu til nýrra símalagninga um 11 þús. kr. Jeg ber þessa brtt. ekki fram vegna míns eigin kjördæmis, heldur eftir ósk nágranna míns, hv. þm. A.-Húnv. (GÓ), sem sæti á í hv. Ed. Tilgangurinn er sá, að þessi fjárveiting verði notuð til að gera nýja línu frá Hnausum um Hnjúk að Ási í Vatnsdal. Þessi lína er ákveðin í símalögum, og fjvn. barst erindi frá háttv. þm. A.-Húnv., um að taka fjárveitingu til hennar upp í fjárlög. Þetta erindi barst svo seint, að fjvn. gat ekki tekið neina ákvörðun um það fyrir 2. umr., og síðan gleymdist að bera það upp á fundi fyrir 3. umr. Nefndin hefir þannig ekki lýst neinni afstöðu til brtt., en hv. þm. A.-Húnv. hefir fengið landssímastjóra hana til umsagnar. Hann treysti sjer ekki til að mæla með henni að svo stöddu, en hinsvegar liggur fyrir áætlun hans um kostnað við að leggja línuna. Í fyrra áætlaði hann, að línan mundi kosta 12 þús. kr., en nú hyggur hann, að það verði nokkru minna, eða ekki yfir 11 þús. Jeg vil taka fram, að þarna er eitt hið blómlegasta landbúnaðarhjerað landsins, svo að óhætt mun að fullyrða, að línan borgi sig sæmilega vel, eins og aðrar slíkar línur. Mjer mun einnig óhætt að geta þess af hálfu hv. þm. A.- Húnv., að hjeraðið mun fáanlegt til að leggja fram meira en aðeins flutninginn á efni, til þess að fá símann þegar í stað. En aðalástæðan fyrir því, að þessi brtt. er nú fram borin, er sú, að þarna stendur alveg sjerstaklega á. Ef það ferst fyrir að leggja línuna sumarið 1928, er þess ekki að vænta, að hún geti komið á næstu árum. Því að einmitt það sumar á að endurbæta og gera við línuna frá Borðeyri áð Blönduósi, svo að símamenn verða á þessum slóðum hvort sem er. Liggur í augum uppi, að það borgar sig best fyrir ríkissjóð að leggja línuna um leið og viðgerðir eru framkvæmdar á næstu grösum; en línuna verður að leggja fyr eða síðar, sakir þess að hún er í símalögum. — Fleira þarf jeg ekki að taka fram út af þessari einu hækkunartill. minni við þennan kafla.

Úr því að jeg er staðinn upp, vil jeg gera eina aths. við þennan kafla fjárlagafrv., eða þær fullyrðingar, sem fram hafa komið i umræðum. par með dettur mjer alls ekki í hug að fara inn á verksvið hv. frsm. (Þórj); jeg veit, að hann er fullkomlega maður til að standa fyrir sínu máli. Jeg vil aðeins leyfa mjer að mótmæla þeim staðhæfingum, sem fram hafa verið bornar af sumum háttv. sjútvn.- mönnum, að alt það fje, sem inn kemur í vitagjöldum, eigi að fara í byggingu nýrra vita. Mjer virðist sú skoðun ekki hafa við neitt að styðjast og svífa algerlega í lausu lofti. Skal jeg í því sambandi minna á hverjir það eru, sem borga vitagjöldin. Það eru fyrst og fremst hin íslensku fiskiskip, og þá einkum togararnir, sem borga gjaldið einu sinni á ári eftir samningum og áreiðanlega fá allmikla ívilnun; — dettur mjer engan veginn í hug að finna að því; það væri mjög bagalegt fyrir þau skip að þurfa að greiða vitagjald í hvert sinn, er þau koma í höfn. — Þá eru það millilandaskip og flutningaskip, sem einna mest af gjaldinu mun tekið af. En þeirra vegna kemur engan veginn til mála að heimta, að nýir vitar sjeu bygðir fyrir fjeð, sem inn kemur. Útgerðarfjelög þessara skipa hækka vitanlega farmgjöldin sem svarar vitagjaldinu, og kaupmenn þeir, er vörur fá með skipunum, ná gjaldinu loks af öllum almenningi. Er því ljóst, að þau skip eiga engar kröfur til nýrra vitabygginga hjer við land fyrir þetta fje. — Þriðji flokkur skipa, sem nokkurt vitagjald borgar, eru hin útlendu fiskiskip, sem hingað koma til að nota íslensk fiskimið og hafa vitanlega gagn af íslenskum vitum, oft og einatt til þess að veiða í landhelgi. Þegar þessi skip leita einhverra hluta í höfn hjer við land, eru tekin af þeim vitagjöld. Og það er alveg sjálfsagt, að þau borgi há vitagjöld, því að það er engin ástæða til annars en að þeir, sem hafa svo mikið gagn af íslenskum vitum, greiði eitthvað fyrir það. Það liggur líka í augum uppi, að engin skylda liggur á landsmönnum að byggja nýja vita fyrir það gjald, sem fæst af þessum skipum. — Í stuttu máli liggur engin skylda á Alþingi að verja vitagjöldum frekar á einn hátt en annan, og fjárveitingavaldið hefir fullan rjett til að nota þau í sínar þarfir.

Þá er að síðustu ein aths. almenns efnis, sem mig langar til að gera um fjárlagafrv. Jeg vil geta þess, að frá mínu sjónarmiði er undirbúningur frv. ekki svo vel af hendi leystur, sem æskilegt væri. En góður undirbúningur er aðalundirstaðan undir því, að meðferð frv. geti orðið góð hjá Alþingi. Jeg álít, að sjerstaklega á svo erfiðum tímum sem þessum, verði að gera þá kröfu til hæstv. stjórnar, að hún fari mjög varlega, þegar hún er að undirbúa fjárlagafrv., og að hún að sínu leyti gangi frá því eins ráðdeildarlega og hægt er, hvernig hún leggur fjárlagafrv. fyrir Alþingi; því að það er grundvöllurinn undir því, hvernig það afgreiðir fjárlögin.

Um þetta er það að segja að þessu sinni, að jeg álít, að hæstv. stjórn hafi alls ekki í sínum tekjuáætlunum fyrir það fyrsta farið nógu varlega. Það hefir meðal annars sýnt sig í því, að fjvn. hefir gert það, sem óvanalegt er, en það er að lækka tekjuáætlun stjórnarinnar um 50 þús. kr. Hitt er miklu tíðara að hækka hana. Þótt þetta hafi verið gert, þá held jeg að þurfi að lækka hana ennþá meira til þess að gera hana fullkomlega örugga. Og þó að tekjuáætlunin sje að mínu áliti svona óvarleg, þá er svo mikill ruglingur á gjaldamegin, að tekjuafgangur er samkv. stjfrv. ekki nema rúmar 100 þús. kr. Samkvæmt því, sem upplýstist í fyrra, er það vitanlegt, að einn liður í fjárlögunum er langsamlega of lágt áætlaður; það er jarðabótastyrkurinn, sem ríkið á að greiða samkvæmt lögum. Fjvn. telur sig knúða til þess að leggja til, að sá liður verði hækkaður.

Þetta tvent, lækkun fjvn. á tekjum og hækkun hennar á þessum lið, nemur með öðrum orðum nokkrum þúsundum króna meira en tekjuafgangur stjfrv., svo að ef maður hjeldi sig eingöngu við áætlun, þá hefir frv. hæstv. stjórnar í raun og veru verið með tekjuhalla upp á nokkra tugi þúsunda.

En við þetta bætist nú eitt, sem nú er kunnugt orðið. Það er vitanlegt, að tekjuáætlun stjórnarinnar má ekki vera öðruvísi en reist á grundvelli gildandi laga. En sú tekjuáætlun, sem hæstv. ríkisstjórn hefir borið fram, er ekki reist á grundvelli gildandi laga. Hæstv. stjórn hefir gert ráð fyrir áframhaldandi tekjum af gengisviðaukanum, en það hefir komið í ljós, að það þarf að framlengja þau lög, til þess að þau gildi fyrir árið 1928. Samkvæmt tekjuáætlun fyrir 1928 eru þau helstu gjöld, sem gengisviðauki er greiddur af, áætluð um 3 milj. kr. Það er vitagjald 300 þús. kr., áfengistollur 650 þús., tóbakstollu. 800 þús., kaffi- og sykurtollur 1 milj., og annað aðflutningsgjald 150 þús. Skipagjöld eru 100 þús. kr. af þessu, gengisviðaukinn, er þá 600 þús. kr. Samkvæmt gildandi lögum er m. ö. o. fjárlagafrv., eins og það kemur frá stjórnarinnar hendi, raunverulega með tekjuhalla yfir 600 þús. kr.

Nú dettur mjer ekki í hug að segja, að hæstv. stjórn hafi gert þetta vísvitandi. Jeg þykist vita, að hún hafi blátt áfram gleymt því, — enda er komið fram frv. frá stjórninni um að laga þetta. Það hefir sem sje komið fyrir hæstv. stjórn, að hún hefir týnt einu skattafrv., og verð jeg að telja það mjög leiðinlegt, að annað eins hendi nokkra stjórn. Sjerstaklega álít jeg þetta mjög leitt fyrir hæstv. núverandi fjrh. (JÞ), af því að það hefir nú verið hans hrósunarefni, að hann raðaði öllu skipulega um tekjur og gjöld og væri góður að glöggva sig á tölum, — gerði góða grein fyrir því reikningslega og skipulagslega, — að honum skuli hafa á slíku sviði skjöplast svona sorglega.

Jeg vildi sem sagt láta koma fram í þinginu rödd um það, að afgreiðsla hæstv. stjórnar hefir alls ekki verið eins varleg og eins ábyggileg og hún hefði átt að vera. Sjerstaklega verð jeg að lýsa minni sorg yfir því, að hæstv. stjórn skuli hafa orðið á þessi mistök, sem jeg síðast hefi lýst.