11.04.1927
Neðri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (1097)

21. mál, fjárlög 1928

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Það lá nú að, að úr því að ekki varð af eldhúsdagsumræðum af hálfu hv. þm. Str. (TrÞ) á þeim tíma, sem þingið ætlast til þess, þá mundi hann þó ekki geta setið svo út þingið, að hann tæki sjer ekki sjálfur ofurlitla stund til þess að skreppa í eldhúsið. Þegar tími er ætlaður til þess, við framhald 1. umr., lýsti háttv. þm. Str. því yfir, að af því að fram væri komin tillaga um vantraust, ætlaði hann að geyma sjer sínar aðfinslur við gerðir stjórnarinnar, þangað til sú tillaga kæmi til umr. (TrÞ: Það er ekki rjett! Það var ekki svo orðað). Jeg get ekki haft orðin rjett eftir, af því að jeg var ekki inni í deildinni, þegar hv. þm. talaði þau, en mjer var hermt efni þeirra á þessa leið af svo mörgum mönnum, að jeg veit, að þetta fer ekki á milli mála. — Svo kom vantraustið til umræðu, en þá var hv. þm. Str. látinn þegja, eftir því sem hægt var, að ráðstöfun síns flokks. Er því engin furða, þótt ofurlítið komi upp hjá honum nú. Hann er hjer sem frsm. meiri hl. (TrÞ: Nei, alls ekki!) fyrir 2. kafla fjárlaganna, sem liggja til umræðu samkv. þingsköpum, — þ. e. a. s. nú á að ræða þær brtt. við fjárlögin, sem fram eru komnar við í frv. í heild. En mjer skildist þó, að það, sem hann sagði nú um misfellur á undirbúningi fjárlaganna frá stjórnarinnar hendi, gæti hann þó ekki borið fram sem frsm. nefndarinnar, heldur vildi hann láta sjer nægja að staðhæfa það fyrir eiginn reikning. Hann ámælti stjórninni fyrir að hafa ekki farið nógu varlega í tekjuáætlunum fjárlaganna. Jeg verð að segja, að hv. fjvn. hefir ekki fundið mikið að athuga við tekjuáætlun stjfrv., sem nemur rúmum 10 milj. króna, þar sem hún hefir ekki fundið ástæðu til að gera uppástungur um nema einn einasta tekjulið, að færa hann niður um 50 þús. kr. Og þetta hefir nefndin gert eftir bendingu frá mjer, þegar við 1. umr. fjárlagafrv., þar sem jeg ljet í ljós, að ef vitneskja hefði verið fengin um tekjur af áfengisverslun árið 1926, þegar stjfrv. var samið, þá myndi stjórnin tæpast hafa þorað að áætla tekjurnar af henni eins hátt og gert var í frv.

Jeg verð að segja, að það er ósanngjarnt, eftir því sem nú stendur á, að átelja stjórnina fyrir það, þótt fram kæmu einhverjar nýjar upplýsingar, sem hafa í för með sjer breytingu annaðhvort á gjaldaliðum eða tekjuliðum, frá því að stjfrv. var samið í nóvember árið áður og þangað til meðferð fjárlaganna í þinginu er lokið í apríl eða maí. Það er alveg ósanngjarnt að gera þá kröfu til stjórnarinnar í nóvember, að hún sjái svo fram í tímann, að engar nýjar upplýsingar geti komið fram, er geri einhverja breytingu á hennar tillögum. Þetta með áfengisverslunina er þannig alveg eðlilegt. Það eru nýjar upplýsingar, sem ekki lágu fyrir stjórninni í nóvember, sem urðu þess valdandi, að fjvn. gerði brtt. um þennan tekjulið.

Hvað snertir varlega tekjuáætlun alment, þá verð jeg að segja, að hv. þm. Str. er ekki kjörinn hjer til þess að standa upp og ámæla í einu eða neinu fyrir ógætni á því sviði. Því að hafi nokkurn tíma komið fram ógætni um tekjuáætlun fjárlaganna, þá er það beinlínis af hvötum háttv. þm. Str. sem fjárveitinganefndarmanns og aðalfyrirsvara síns flokks innan nefndarinnar. Hann má muna þær hækkanir, sem gerðar voru á tekjuáætlun á síðasta þingi, — í það eina skifti, sem orkaði tvímælis um, hvort tekjuáætlun væri ekki of hátt sett. Hann ætti því á þessu sviði að reyna að betrast sjálfur og draga dálítinn skugga yfir sína fortíð áður en hann fer að koma með ósanngjörn ummæli í garð annara.

Þá nefndi háttv. þm. tvo liði sem dæmi um slæman undirbúning. Jarðræktarstyrkurinn er áætlaður 50 þús. kr., eins og hefir verið undanfarin ár. Þegar stjfrv. var samið, lágu ekki fyrir neinar upplýsingar í þá átt, að hækka þyrfti þennan styrk. Að vísu gat maður búist við uppástungu um hækkun frá 50 þús. kr., sökum þess að liðurinn er ekki lögbundinn. Það er samkvæmt umtali — að jeg hygg — milli stjórnarinnar og háttv. fjvn., eftir hvaða taxta er farið um greiðslu jarðabótastyrksins. Á síðasta þingi ætla jeg að kæmu ummæli í þá átt, að æskilegast væri, að þessum taxta yrði haldið. Samkvæmt þeim ummælum hefir nú fyrir yfirstandandi ár verið greiddur jarðabótastyrkur eftir sömu reglu eins og hefir verið fylgt árið áður; en upphæðin er miklu hærri, vegna þess að það hafa komið meiri jarðabætur fram á skýrslum; nemur hún nú rúmum 170 þús. kr. Mjer vitanlega lá engin vitneskja fyrir um þetta í stjórnarráðinu, þegar fjárlagafrv. var samið, en sú vitneskja hefði átt að koma frá Búnaðarfjelagi Íslands; það er samkvæmt hlutarins eðli. Og þá er aðgangurinn að formanni þeirrar stofnunar um þetta, hafi stjórninni yfirsjest á þessum lið, vegna þess að hana vantaði upplýsingar. Mjer finst það sitja síst á háttv. þm. Str. (TrÞ), sem sjálfur er formaður Búnaðarfjelagsins og ber því skyldu til að láta stjórninni í tje allar nauðsynlegar upplýsingar á þessu sviði, að koma nú á eftir og átelja stjórnina fyrir að hafa ekki tekið til greina þær upplýsingar frá honum, sem hann ekki sendi. (TrÞ: Alt misskilningur hjá hæstv. ráðherra!). Getur verið, að hv. þm. þyki ekki skemtilegt að hlusta á sannleikann, en misskilningurinn er enginn; það er engra upplýsinga að vænta um þetta annarsstaðar en frá Búnaðarfjelagi Íslands.

Það er nú svo, að hv. fjvn. hefir borið fram till. um að hækka þennan lið úr 50 þús. upp í 150 þús. kr. En með því skilst mjer nefndin beri í raun og veru fram till. um það, að þessi styrkur sje borgaður út eftir svipuðum reglum og hefir verið gert nú. Þótt það verði nú ekki vitað, hverja upphæð muni þurfa, þykir mjer fyrir mitt leyti ekki ósennilegt, að nefndin sje nálægt því rjetta, eftir reynslunni í því efni á þessu ári.

Þá kom hv. þm. (TrÞ) að því, að tekjuáætlunin væri ekki reist á grundvelli gildandi laga. Þetta er ekkert nýtt. Það hefir viðgengist nú síðustu árin og þótt alveg sjálfsagt, að stjórnir hafi búið út fjárlagafrv. sín á grundvelli þeirra laga, sem hafa gilt, með þeim framlengingum, sem til hefir þurft. Það er ekki einungis núverandi stjórn, heldur líka næsta stjórn á undan, að minsta kosti, sem hefir fylgt þessari reglu. Fjárlagafrv. byggist á því, að það verði einnig heimilt að innheimta gengisviðaukann á næsta ári. Sú eina átylla, sem hv. þm. Str. getur fengið nú í þessu máli, er það, að stjfrv. um framlengingu gengisviðaukans kom seinna fram en hin stjfrv. En það er komið fram á reglulegan hátt og hefir verið vísað til fjárhagsnefndar. Jeg verð að álíta, að það hafi komið nógu snemma, af því að þessi nefnd er ekki ennþá búin að skila frá sjer nál. um þau stjfrv., sem vísað var til hennar í þingbyrjun, nema einu, að jeg ætla. Hin eru ókomin ennþá, svo að nefndin getur ekki kvartað um, að þetta mál sje of seint til hennar komið. Enda hefir hv. þm. Str. ekkert umboð til þess fyrir nefndarinnar hönd. En það má háttv. þm. vita, að þótt það sje regla vegna okkar sjerstöku kringumstæðna, að allur þorri stjfrv. sje lagður fyrir í þingbyrjun, þá er það svo annarsstaðar, þar sem hægra er um, að stjfrv. eru lögð fyrir þingið á hvaða tíma sem er. Og það þarf ekki neitt að tefja þingstörfin, þótt svo sje í einstökum tilfellum, meðan sjeð er um, að hlutaðeigandi nefndir hafi nóg að gera. — Jeg hefi þess vegna ekki týnt neinu skattafrv., eins og sjeð er og sannanlegt með því, að það stjfrv., sem þurfti á þessu sviði, hefir verið borið fram. (TrÞ: Eftir 2 mánuði!). Þetta frv. er nú ekki svo flókið, að það ætti á nokkurn hátt að vera erfitt að veita því sómasamlega afgreiðslu, það sem eftir er þingtímans.

Þá held jeg, að jeg hafi tínt upp það, sem hv. þm. sagði; því að þegar hann kom með það, að raunverulegur tekjuhalli á stjfrv. væri yfir 600 þús. kr., þá er það náttúrlega staðleysa algerð, sem auðvitað er rjett að mótmæla, úr því að hún er sett fram, svo að það verði ekki efnið í næstu ræðunni, að því hafi ekki verið mótmælt. Fjárlagafrumvarp stjórnarinnar sýndi tekjuafgang 100 þús. kr.; og ef Alþingi hefði viljað afgreiða frv. með þeim tekjuafgangi óskertum, þá var það að vísu innan handar, en til þess hefði þurft að taka öðruvísi á ýmsum efnum heldur en í anda hv. þm. Str.