11.04.1927
Neðri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (1102)

21. mál, fjárlög 1928

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Mitt erindi er ekki annað en það, að gera grein fyrir afstöðu fjvn. til brtt. einstakra þingmanna.

Það hafa ekki verið gerðar neinar athugasemdir við brtt. fjvn., sem jeg talaði fyrir í byrjun þessarar umræðu, og get jeg því þakkað hv. deild, hve vel hún hefir tekið í þær.

Jeg get verið fáorður um brtt. hv. þingmanna, því að nefndin leggur á móti þeim flestum, af því að hún telur varhugavert að grípa til eyðslu og fjárútláta úr ríkissjóði, eftir því útliti, er virðist vera fram undan. En viðvíkjandi ýmsum brtt., er horfa til framfara og nytsemdar á annan hátt og nefndin mundi að öðrum kosti ekki hafa látið sjer til hugar koma að leggjast á móti, þá get jeg lýst því yfir fyrir hönd fjvn., að það getur vel komið fyrir, er fjárlögin koma aftur hingað í þessa hv. deild frá Ed., að þá verði að leggja til að fresta eða fella niður ýmsar framkvæmdir, er stjfrv. felur í sjer, ef fylgja á því „principi“ að afgreiða fjárlögin með sem minstum tekjuhalla.

Þá tek jeg fyrir brtt. Vil jeg fyrst geta þess, að láðst hefir að taka fram viðvíkjandi brtt. fjvn. um styrk til augnlæknis á Akureyri — það er þskj. 336, V —, að það er ósk þess augnlæknis, Guðm. Guðfinnssonar, sem nefndin býst við að verði við þeim tilmælum að taka þetta að sjer, ef hann flyttist norður á þessu ári, að þá fengi hann tiltölulegan styrk þann tíma ársins, er eftir yrði. Nefndin hefir ekkert við það að athuga, en vill láta þessa getið, ef hæstv. stjórn tekur ákvörðun um þetta með hliðsjón af áliti nefndarinnar. Hjer er um svo lítið að ræða, að engu munar, hvorki til nje frá, fyrir ríkissjóð.

1. brtt. á þskj. 336 er frá háttv. 4. þm. Reykv. (HjV) og hljóðar um að fella niður skólagjöld við alla ríkisskóla. Fjvn. er ekki sammála hv. þm. um það atriði og leggur á móti samþykt till. Ástæða hennar fyrir því er fyrst og fremst sú, að þetta er þegar orðinn fastur tekjuliður á fjárlögunum og bygt á þessum tekjulið. Önnur ástæðan er sú, að fleiri skólar en ríkisskólar taka upp skólagjöld til þess að geta orðið aðnjótandi ríkissjóðsstyrks, því að styrkurinn er bundinn því skilyrði, að fje komi líka annarsstaðar frá, en eiga hinsvegar ekki völ á fje, nema með skólagjöldum. Það er sýnt, að ef skólagjöld eru á ríkisskólunum, taka aðrir skólar þau upp líka til þess að gera nemendur sína hliðstæða nemendum hinna, en það verður til þess, að meiri líkindi eru á, að ríkið muni frekar en annars styrkja þessa skóla.

Einnig álítur nefndin, að skólagjöldin geti verið heppilegur hemill á aðsókn af nemendum úr Reykjavík. Telur hún það hvorki óþarft nje óholt. Að vísu er það rjett, sem hv. 4. þm. Reykv. tók fram, að það á ekki að vera hægt að hefta framgang góðra námsmanna, enda virðist nefndinni ekki, að það sje gert með skólagjöldunum. Það er kunnugt, að veittar eru undanþágur frá skólagjaldi, ef sjerstaklega efnilegir og gáfaðir námsmenn eiga í hlut. Og það er gert eftir till. skólastjóra. Hitt er og rjett, að talsverð fjárútlát eru það fyrir fátækar fjölskyldur að kosta kannske mörg börn sín á skóla; en þegar aðgætt er aðstaða þeirra gagnvart foreldrum úti um land, sem verða að kosta miklu meira fje til þessa, þá virðist það ekki vera svo erfitt, að rjett sje fyrir þá sök að fella niður þennan lið.

Brtt. II frá háttv. þm. Ak. (BL) og háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) fer skemra, en þó í lækkunarátt á þessum lið, eða færir hann niður um þriðjung. Fjvn. getur heldur ekki aðhylst þessa till., þótt mikill sje munurinn á henni og þeirri fyrri.

Þá er næst. brtt. IV frá fjárhagsnefnd, viðvíkjandi ríkisfjehirði, eða hækkun á mistalningarfje hans. Erindi þess efnis lá fyrir fjvn., og sendi hún það til hv. fjhn., sem hefir svo út frá því borið fram þessa till. Skal jeg því ekki fara frekari orðum um hana, og eru óbundin atkv. nefndarmanna.

Næsta brtt., VI, er frá hv. þm. Barð. (HK) um styrk til Magnúsar Pjeturssonar bæjarlæknis til utanfarar. Nefndin hefir ekki getað aðhylst þessa till. Bæði þykir henni upphæðin of há, er hún er borin saman við utanfararstyrk lækna, sem ekki er áætlaður hærri en 2000 kr., og auk þess telur nefndin hægt að ná þessu marki á annan hátt, enda ekki svo mikill misbrestur á heilbrigðisráðstöfunum í þessu efni, að sjerstök nauðsyn beri til slíkrar utanfarar. Þó er nefndin ekki óskift um að leggja á móti þessum styrk.

Brtt. VII, frá háttv. 2. þm. Árn. (JörB), og VIII, frá háttv. þm. N.-M. (HStef og ÁJ), lætur nefndin af sinni hálfu afskiftalausar, og hafa nefndarmenn þar óbundin atkvæði.

þá er frá hv. þm. Barð. (HK) brtt. X, um styrk til byggingar sjúkraskýlis í Flatey á Breiðafirði. Fyrir nefndinni lá ekki neitt, sem venjulegt er í slíkum tilfellum sem þessu, og gat hún því ekki bygt á neinu. Er þetta lítil upphæð, ef koma ætti upp sæmilegu sjúkraskýli, eftir því sem gerist venjulega. Þá má og taka það fram, að slíkur styrkur fæst ekki útborgaður, nema fjeð sje til reiðu frá öðrum hlutaðeigendum. En hjer fylgja engar upplýsingar nje áætlanir, hvort reisa eigi nýtt hús eða kaupa hús, (jeg býst við, að það sje öllu líklegra), og þá hvort þurfi að breyta því, gera við það o. s. frv. Að svo komnu máli getur fjvn. ekki lagt til, að þessi brtt. verði samþykt.

Þá er næst XI. brtt. á sama þskj. frá hv. 2. þm. Arn. (JörB), um uppbót til Halldórs Arnórssonar. Hjer er um smáhækkun að ræða, sem vitanlega skiftir ekki miklu máli, en nefndin sjer þó ekki ástæðu til að leggja með þessari brtt.

Næst er XII. brtt., frá hv. 1. þm. Reykv. (JakM), um styrk til Halldórs Briems til að leita sjer lækninga og styrk til Steindórs Gunnarssonar vegna útgáfu bókar. Nefndin getur hvoruga þessa till. aðhylst. Um fyrri lið till. má segja það, að auðvitað væri gott, ef ríkið gæti altaf hlaupið undir baggann með þeim mönnum, sem þurfa að leita sjer læknishjálpar erlendis. En slíkar fjárveitingar draga jafnan óþægilegan dilk á eftir sjer, því að margir hafa þörf fyrir þesskonar styrk. Viðvíkjandi manni þeim, sem hjer er um að ræða, má líka geta þess, að eftir þeim gögnum, sem fyrir nefndinni lágu, er enginn vissa fyrir því, að hann geti fengið bata, þó að hann ætti kost á að fara utan. — Útgáfustyrknum, sem síðari liður till. fer fram á, virðist nefndinni ekki ástæða til að sinna. Útgefandi gat ekki miðað verð bókarinnar við það, að styrkur fengist til útgáfunnar eftir á. Hjer er heldur ekki um svo háa upphæð að ræða, að líklegt sje, að það hefði spilt sölu bókarinnar, þó að hún hefði verið því dýrari, sem þeirri upphæð nemur.

Þá er brtt. frá hv. 1. þm. N.-M. (HStef), um að styrkja menn til þess að fá sjer gerfilimi. Þó að nefndin játi, að gott væri að geta styrkt menn, sem á slíku þurfa að halda, treystir hún sjer ekki að mæla með þessari till. Þó að einhverjir væru styrktir í þessu skyni, mundu aðrir verða útundan, og því óvíst, að svona styrkur kæmi rjettlátlega niður.

Næst er brtt. XIV, frá hv. þm. N.-Þ. (BSv), um uppbót til Friðriks pósts á Helgastöðum vegna heilsubilunar, er hann hafi hlotið vegna ofreynslu í póstferðum. Nefndin hefir ekki getað lagt með því, að þessi uppbót yrði veitt. Af þeim skjölum, sem fyrir liggja, verður ekki sjeð, hvort heilsubilun þessa manns stafar af ofreynslu í póstferðum. Auðvitað getur því verið um að kenna, því að það er kunnugt, að póstferðalög eru mjög erfið. En þegar litið er á þetta mál í sambandi við umsögn aðalpóstmeistara, sem hefir fylgst með og er þessum málum kunnugur, er minni ástæða fyrir nefndina að mæla með þessari styrkveitingu. Þar kemur það fram, að ekki er rjett að veita styrk á þessum grundvelli. Það er rjett að vísu, að póstar hafa allir mjög lág laun, og það er alveg óviðeigandi að beita þeirri aðferð, sem höfð hefir verið, að bjóða störfin upp þegar þau losna. Sú aðferð hefir þrýst laununum svo mjög niður, að póstar hafa ekki getað tekið sjer fylgdarmann í erfiðar ferðir, nema sjer í skaða. Af því hefir leitt, að þeir hafa orðið að ferðast fylgdarmannslausir, en víða hagar svo til, að það er þeim ofraun. En þarna er svo mikið í húfi fyrir póstsjóðinn, að mesta nauðsyn er á, að úr þessu verði bætt. Mjer er kunnugt um, að pósturinn, sem gengur á milli Staðar og Hrútafirði og Akureyrar, hefir svo lág laun, að hann getur ekki haft með sjer fylgdarmann. En þær ferðir eru algerlega ofraun einum manni. Jeg vissi til þess í vetur, að hann var í eitt skifti 6 daga milli Akureyrar og Blönduóss, og í þeirri ferð varð hann að ganga frá öllum hestum sínum. Af tilviljun hafði hann samferðamann í þessari ferð. Annars er óvíst hvernig farið hefði. Nefndin lítur svo á, að í stað þess að taka til greina allar beiðnir um styrk eins og þá, sem hjer er um að ræða, eigi að launa póstana svo vel, að þeir þurfi ekki að hætta heilsu sinni í þessum erfiðu ferðum.

Næst er brtt. frá hv. þm. Dal. (JG), um framlag til Vesturlandsvegar. Þessi till. lá einnig fyrir við 2. umr., og jeg þarf ekki annað um hana að segja en jeg tók fram þá, nefnilega að þessi framkvæmd væri ekki tímabær að áliti vegamálastjóra. En jeg get lýst því yfir, að atkv. nefndarinnar eru nú óbundin um þennan lið.

Þá kemur brtt. frá hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), um 9000 kr. til vegar á Hólmahálsi. Nefndin hefir ekki getað fengið neinar upplýsingar eða álit vegamálastjóra um þennan veg. Hefir hún því ekki tekið afstöðu til þessa liðs og hefir um hann óbundin atkv.

Hv. þm. Mýr. (PÞ) hefir tekið sína brtt. aftur, og þarf því ekkert um hana að segja.

Þá er XVIII. brtt. frá samgmn.

Nefndin hefir ekki tekið afstöðu til hennar og hefir þar óbundin atkv.

Næst er till. frá hv. 1. þm. Reykv. (JakM), um styrk til Odds Valentínussonar til að kaupa vjelbát. Nefndinni fanst ekki rjett, eins og sakir standa, að ganga inn á þessa till., því að margir gætu á eftir komið.

Þá er brtt. á þskj. 345 frá hv. þm. Str. (TrÞ), um símalagningu. Þetta mál lá fyrir fjvn. og var sent landssímastjóra, en hann hefir lagt á móti því. Jeg get látið þess getið, að jeg fór þess á leit við landssímastjóra, að lagður væri línuspotti í mínu kjördæmi, en fjekk sama svar. Það getur verið, að jeg beri fram till. um þetta, ef þessi till. nær samþykki. En nefndin hefir um hana óbundin atkvæði.

Þá kem jeg að síðustu brtt. við þennan kafla, sem er till. frá hv. sjútvn. um 60 þús. kr. til radiovita. Það varð nokkurt umtal um þetta atriði við 2. umr. Jeg gat þess þá, að þar sem nefndin flytti till. sama efnis, gæti hún ekki fallist á þessa till., og mæltist til samkomulags við hv. sjútvn. Hv. sjútvn. vildi þá ekki taka sína till. aftur og hafði það á móti till. fjvn., að þar væri veitt fjárupphæð, án þess að ákveðið væri til hvaða vita hún gengi. Það kom fram, að 35 þús. kr. tillag var miðað við byggingu tveggja radiovita. Nefndin áleit þá, eins og nú, ráðlegra að fara ekki lengra fyr en reynsla væri fengin með þessa 2, því að hægt mundi að nota loftskeytastöðina fyrir þriðja miðunarstað. Nefndin gat ekki fengið neina ábyggilega áætlun um, hvað hver viti mundi kosta, hvorki hjá sjútvn. nje vitamálastjóra. Fyrst var giskað á 25–30 þús kr., en nú er ekki gert ráð fyrir nema 20 þús. kr., eða 60 þús. til þriggja vita. Nefndin getur ekki gert það að kappsmáli, hvað vitarnir kosta, og mun ekki gera það að ágreiningsatriði. — Það er hjer till. frá nefndinni viðvíkjandi niðurfellingu hljóðdufls á Valhúsgrunni, en jeg tók fram, að verið gæti að nefndin tæki þá till. aftur, og jeg býst við, að hún geri það, ef hv. sjútvn. tekur aftur till. sína og fer að ósk hæstv. atvrh. (MG), sem vildi, að hún fjellist á till. fjvn. og fjvn. tæki þá aftur þessa niðurfellingu. En eins og jeg tók fram í byrjun, hefi jeg ekki leyfi til að taka till. aftur af hendi fjvn. og geri það því ekki að svo stöddu. Jeg vænti þess enn, að samkomulag geti orðið um þennan lið milli sjútvn. og fjvn.

Jeg held jeg þurfi ekki að taka fleira fram og get því lokið máli mínu.