11.04.1927
Neðri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

21. mál, fjárlög 1928

Hjeðinn Valdimarsson:

Hv. frsm. (ÞórJ) gat þess, að hv. fjvn. vildi ekki fallast á brtt. mína, að skólagjöld fjellu niður, og sjerstaklega af því, að þessi gjöld væru þegar orðin fastur tekjuliður. Mjer finst það lítil ástæða, þó að þetta hafi tíðkast örfá ár. Hjer er um þá nýbreytni að ræða að skattleggja fróðleiksfýsn ungra manna, og hefir það rjettilega mætt mótspyrnu. Hv. frsm. gat þess, að afnám skólagjalda gerði prívatskólum erfitt fyrir, en mjer finst hv. fjvn. ætti ekki að harma það, þó að þeir settu niður skólagjöld sín. Það ætti að kappkosta eftir mætti, að sem flestir unglingar gætu fengið ókeypis skólanám. Þá gat hv. frsm. þess, að skólagjöldin væru nokkur hemill á Reykvíkinga í skólasókn. Þetta er rjett. En jeg get ekki fallist á, að það sje rjettmætt að setja á þá slíkan hemil. Það hefir yfirleitt þótt fremur bresta á kunnáttu og þroska hjá ungu fólki hjer í bænum, svo að ekki sýnist ástæða til að setja sjerstaka löggjöf til að hindra það frá skólagöngu. Hv. frsm. gat þess, að það væri ójöfn aðstaða fyrir þá, sem ættu heima utan Reykjavíkur og hina, sem væru búsettir í bænum. Það kann að vera stundum. En þess vegna er þó ekki næg ástæða til að gera svona upp á milli þeirra. Sumir sveitapiltar utan af landi eiga hjer hæga aðstöðu, og það liggur í augum uppi, að það er órjett að láta syni efnamanna úti á landi sleppa við að greiða skólagjald, en heimta það hinsvegar af fátækum piltum, sem heima eiga í Reykjavík. Frsm. gat þess, að veita mætti eftirgjöf á skólagjaldi, en til þess þarf nemandi að vera sjerstaklega efnilegur og foreldrar sjerstaklega fátækir. Það segir sig sjálft, að skólagjaldið eins og það er ákveðið hjer, 150 kr. á ungling, muni geta orðið tilfinnanlegur baggi á foreldra, jafnvel þótt þeir sjeu ekki bláfátækir, sem vildu kannske kosta 2 eða 3 börn sín á skóla. — Jeg skal ekki fara um þetta fleiri orðum. En jeg get lýst því yfir um leið, að ef þessi till. mín verður feld, mun jeg greiða atkvæði með till. þeirra hv. þm. Ak. og hv. þm. V.-Ísf., þó að mjer þyki þeir fara fram á of litla lækkun.

Þá vildi jeg segja örfá orð um radiovitana. Það, sem sjútvn. byggir till. sína á, er álit vitamálastjóra, en eftir því eiga að nægja 20 þús. kr. til hvers vita. Það virðist ekki vera ástæða til að fresta þessum framkvæmdum. Allmikil reynsla er þegar fengin erlendis um gagnsemi þessara vita, og eru þeir taldir ómissandi. Ef reistir verða þrír vitar, er ætlast til, að með aðstoð loftskeytastöðvanna hjer og í Vestmannaeyjum verði hægt að ná til skipa frá Húnaflóa, suður fyrir land og norður að Langanesi, þ. e. a. s. frá öllu Vestur- Suður- og Austurlandi. Sjútvn. leggur nokkurt kapp á, að þessi till. nái fram að ganga, því að hún álítur miklu skifta að fá fremur 3 vita en 2, þar sem radiovitakerfið nær svo langt, er 3 vitar eru bygðir, að flest skip mundu sjá sjer hag í því að fá sjer miðunartæki, sem miklu óvissara væri, ef vitarnir væru aðeins tveir.

Þá vil jeg ekki láta hjá líða að mótmæla því, sem hv. þm. Str. (TrÞ) sagði um vitagjöldin. Hann vildi mótmæla því, að vitagjöldin ættu að renna til byggingar og rekstrar vita eingöngu. Þetta væri venjulegur tekjustofn og útgjöld til vita venjuleg útgjöld. Nafnið á gjaldinu, vitagjald, segir nú sjálft til, að þessi gjöld muni lögð á skipin í einhverju sambandi við vitana, en ekki sem almenn tekjulind. Hann gat þess, að togarar greiddu gjaldið einu sinni á ári, en vöruflutningaskip legðu á vörurnar, sem síðan kæmi á landsmenn alla. Útlend skip ættu aftur að greiða hátt gjald. Um þetta mætti nú ýmislegt segja. Meiri hlutinn af útlendu fiskiskipunum greiðir ekki neitt gjald, þótt þau njóti vitanna, er þau koma ekki í höfn hjer. íslenskir togarar og vöruflutningaskip greiða gjaldið, og legst það á framleiðsluna og innfluttu vörurnar, en í móti kemur aftur hagnaðurinn af betri vitum og minni sjótjónum, sem leiðir af sjer lægri vátryggingargjöld, og nemur það til lengdar því, að vitagjaldið hækki ekki kostnaðinn við vörurnar, þegar því er varið til vita, nýbygginga og rekstrar. Þá er vitagjaldið ekki álögur á almenning, heldur gjald fyrir nýja vita, gleggri og áhættuminni sjóleið. Því virðast engin rök liggja að því, að vitagjaldið renni í ríkissjóð.

Þegar litið er í þingtíðindin frá fyrri árum og athugað, hvernig lög þessi eru til komin, þá sjest, að 1877 kemur mál þetta fyrst til umræðu og er flutt af Halldóri Kr. Friðrikssyni til að byggja fyrir vita. En 1879 er gjaldinu breytt aftur, af því að þá þykir það orðið of hátt í samanburði við kostnaðinn af vitunum, og þá er það Tryggvi Gunnarsson, sem beitir sjer fyrir því. Honum farast svo orð: „Nú er ekki enn fullreynt, hve mikið komi til vitans, en á að giska mun það vera yfir 6000 kr. á ári, og er það óþarflega hátt gjald vitanum til viðurhalds“. En hann kvaðst samdóma því, að ríkissjóður ætti að fá kostnað sinn fullborgaðan án þess að græða. Þetta er sú regla, sem síðan hefir verið fylgt með vitagjaldið. 1911 er það svo hækkað enn á ný, og þá af þeirri ástæðu, að útgjöld landssjóðs til vitanna hafa hækkað.

Nú stendur málið svo, að ríkissjóður hefir á undanförnum árum samtals lagt fram á 2. hundrað þúsund krónur meira til vitanna heldur en vitagjaldinu nemur, en hefir í aðra hönd fengið vitana að eign, sem eru um 1100 þús. kr. virði, þótt sú eign gefi ekki beinan arð.

Það getur undir engum kringumstæðum komið til mála að ganga lengra en svo, að ríkissjóður fái endurgreitt af vitagjaldinu þetta á 2. hundrað þús. kr. og haldi vitunum sem eign, en síðan standist á vitagjald og kostnaður af vitunum og nýbyggingar.

En hv. fjvn. virðist ætla að ganga lengra, þar sem hún vill taka á einu ári 85 þús. kr. af vitagjaldinu umfram það, sem til vitanna gengur. Það virðist því alt benda til þess, að hv. fjvn. vilji fara að gera vitagjöldin að sjerstökum tekjustofni. Hæstv. landsstjórn fór út á þessa hálu braut með fjárlagafrv., þar sem vitagjöldin eru 55 þús. kr. meiri en kostnaðurinn af vitunum, en háttv. fjvn. gengur þó enn lengra. Jeg vænti því, að háttv. deild athugi þetta og fallist á till. sjútvn. og sje jafnframt sammála um, að það sje háskaleg braut að fara að gera vitagjöldin að almennum tekjustofni.