11.04.1927
Neðri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1062 í B-deild Alþingistíðinda. (1111)

21. mál, fjárlög 1928

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það eru fáar brtt., sem jeg þarf að minnast á. Fyrst vil jeg geta brtt. XXII á þskj. 336, frá hv. þm. Dal. (JG), og í sambandi við hana brtt. frá hv. þm. Str. (TrÞ), á þskj. 345. Jeg vil leiða athygli háttv. deildar að því, að hjer er í raun og veru verið að auka þann útgjaldalið, sem felst í 14. gr. A. b. 4, framlag til prestlaunasjóðs. Því minna sem kemur í hann, því meiri verður hallinn á honum. Út af brtt. hv. þm. Str. sjerstaklega vil jeg geta þess, að á sumum prestssetrum kemur inn svo mikið fje í varpi, að það stappar nærri prestslaununum sjálfum, og finst mjer fullmikið að leggja svo mikið fje til jarðabóta. Annars hafa prestssetrin þetta 200–300 kr. til þess að vinna af sjer.

Þá er brtt. frá hv. 4. þm. Reykv. (HjV), um það að færa liðinn um kaup á listaverkum undir þjóðmenjasafnið. Það var nú svo áður, en var fært til í fyrra eða hittiðfyrra. Mjer er alveg sama, hvernig þetta verður haft nú, það er að sumu leyti betra fyrir stjórnina að vera laus við þann vanda að velja listaverkin. En annars vil jeg geta þess, að álits þjóðmenjavarðar hefir oft verið leitað, þegar um þessi kaup hefir verið að ræða.

Þá kem jeg að XLIV. brtt. á þskj. 336, frá mjer, þess efnis að veita Björgu Þorláksson 3000 kr. styrk til ritstarfa. Svo stendur á þessu, að jeg hafði lagt til að hafa þennan lið, í mínu uppkasti að 15. gr. fjárlagafrv., en hæstv. forsrh. (JÞ) strikaði hann út, líklega vegna þess, að þessi kona er systir hans. Honum hefir fundist erfitt fyrir sig að leggja fram frv. með fjárveitingu til systur sinnar. En jeg vil nú ekki láta þessa konu gjalda þess, að hún er systir hans, og hefi jeg því borið fram þessa brtt., til þess að hv. deild geti látið í ljós álit sitt. Eins og mönnum mun kunnugt, er frú Björg stórgáfuð kona og hefir leyst af sendi þá þrekraun, sem engin íslensk kona hefir áður gert, að verja doktorsritgerð við franskan háskóla. Mjer er kunnugt um, að hún er fátæk, en hefir mikla löngun til þess að halda áfram ritstörfum og rannsóknum á hinu sama efni, sem doktorsritgerð hennar fjallar um.

Þá er L. brtt. á sama þskj., frá hv. fjvn., um að hækka gjöldin samkvæmt II. kafla jarðræktarlaganna um 100 þús. kr. Mjer skilst, að þessi brtt. sje flutt eftir minni beiðni, því að jeg kom á fund hjá nefndinni og óskaði eftir svona brtt. En mjer er sagt, að háttv. frsm. hafi talað um, að hjer væri ónákvæm og ill áætlun hjá stjórninni. Jeg vil nú benda á, að það var ekki gott að gera nákvæma áætlun um þetta, þegar fjárlagafrv. var samið, þar sem þetta er annað árið, sem styrkur þessi er borgaður út, en í fyrra voru það 130 þús. kr., en það var í raun og veru styrkur fyrir tvö ár. Auk þess er þess að gæta, að það var hámarksupphæð, sem greidd var í fyrra. En þessi brtt. á að sýna, að það er ekki tilgangur stjórnarinnar að fara lægra 1928 í þessu efni.

Þá verður næst fyrir mjer brtt. LXV. á þskj. 336, frá háttv. 1. þm. Reykv. (JakM), um eftirlaun handa ekkju Bjarna heitins frá Vogi. Jeg veit vel, að þessar till., sem hann ber hjer fram, fara lengra en venja er til með ekkjur, en jeg mun samt greiða atkvæði með hærri brtt., því að jeg lít svo á, að hjer eigi í hlut ekkja manns, sem alt gott eigi skilið. Þessum látna manni var annað betur lagið en að safna fje, svo að ekkjan á ekkert til. En hún á efnilega sonu, sem hún er að kosta til náms, en nú hefir það legið við borð, að hún yrði að láta elsta son sinn hætta námi sökum fjárskorts. En þessi piltur er einstaklega efnilegur námsmaður, svo að það er skaði, að hann þurfi að hætta. Þó jeg sjái, að þetta sje brot á reglum, sem farið hefir verið eftir í þessu efni, þá tel jeg vel forsvaranlegt, undir þessum kringumstæðum, að vera með þessu. Það stendur svo sjerstaklega á um ekkju þessa merkismanns, að hjer þarf ekki að skapast neitt fordæmi. Jeg vil mæla sem allra best með því, að þessi brtt. verði samþykt. Mjer þykir það ekki ólíklegt, að þeir muni margir vera hjer inni, sem telja sjer fært að fara að þessu sinni út fyrir þann ramma, sem þeir annars hefðu sniðið sjer.

Þá er brtt. frá hv. 2. þm. Eyf. (BSt) og hv. 1. þm. Rang. (KIJ), um biðlaun til Eggerts Stefánssonar. Jeg mun nú fylgja sömu reglu og áður, að draga þetta mál ekki mikið inn í umræðurnar. En af því að mjer skildist á hv. 2. þm. Eyf., að þessum manni hefði verið vikið að ósekju úr stöðu sinni, þá nægir mjer að vísa til þess, sem áður hefir komið fram í þessu máli. Að öðru leyti fer jeg ekkert út í það.

Þá eru brtt. frá hv. þm. Mýr. (PÞ), hv. þm. Ak. (BL) og hv. 1. þm. Rang. (KIJ), um lán úr viðlagasjóði. Jeg hefi altaf verið frjálslyndur gagnvart svona till. Jeg sje ekki ástæðu til þess að vera á móti þessu, en það verður um leið að undirstrika það, að með þessu er ekki slegið föstu, að lánin fáist. Það fer eftir því, hvort fje er til í viðlagasjóði eða ekki.

Þá er brtt. frá mjer þess efnis að hækka styrk þann, sem stjórninni er heimilt að greiða Eimskipafjelagi Íslands samkv. 23. gr. Þessi styrkur var upphaflega hugsaður sem endurgreiðsla til fjelagsins á því, sem það greiðir í vitagjöld og skipagjöld. Það hefir þótt sanngjarnt að styrkja fjelagið á þennan hátt. En nú hefir Nielsen framkvæmdarstjóri snúið sjer til stjórnarinnar og farið fram á hækkun á þessum styrk vegna hins nýja skips, sem nú hefir bæst við, „Brúarfoss“. Mjer hefir fundist rjett að verða við þessu og halda áfram í sama stíl og byrjað hefir verið. Þetta skip verður alt árið á ferðum, bæði í strandferðum og landa á milli, og borgar því mikið bæði í skipagjöld og vitagjald, því að vitagjaldið er greitt í hvert skifti, sem skipin koma frá útlöndum. Því er ekki að leyna, að Nielsen er töluvert áhyggjufullur um það, að erfitt muni vera að standa straum af þessu skipi, og mjer var kunnugt um, að hann var altaf hikandi við að byggja þetta nýja kæliskip. Við þetta bætist, að skip þetta bætir mikið úr strandferðunum, svo að mjer finst ekki ósanngjarnt, að ríkissjóður beri dálítinn hluta af þeim bagga, sem þetta nýja skip kann að verða.

Þá er brtt. frá háttv. fjvn., um að veita stjórninni heimild til þess að greiða halla þann, sem kann að verða af tilraunum Sambands íslenskra samvinnufjelaga á því að senda frosið kjöt á erlendan markað haustið 1927. Það er rjett, sem hv. frsm. (TrÞ) sagði, að þessi heimild er í núgildandi fjárlögum, en jeg hafði ímyndað mjer, að ekki þyrfti að taka þessa heimild upp aftur, eftir að við hefðum fengið hið nýja kæliskip. En af því að þetta er fyrsta árið, sem skipið starfar, og af því, að hv. frsm. lýsti yfir því, að ekki væri meiningin að hafa þennan lið áfram, þá mun jeg ekki verða á móti því að þessu sinni. En jeg vona, að ekki komi til þess að halli verði, því að ef svo reyndist, þá hefir það sennilega verið misráðið að kaupa þetta nýja kæliskip. En jeg ætla að vona, að til þessa komi ekki.

Þá er að síðustu brtt. frá mjer, að keypt verði hús sýslumannsins á Sauðárkróki fyrir 27 þús. kr. Þar af á ríkissjóður að greiða 7000 kr. um leið og kaup fara fram, en að öðru leyti á kaupverðið að greiðast með því, að ríkissjóður taki að sjer áhvílandi 20 þús. kr. skuld við sparisjóð Sauðárkróks, en sýslumaður taki húsið á leigu með þeim skilmálum, að hann ávaxti og afborgi áhvílandi skuld, haldi húsinu við og greiði af því alla skatta og skyldur. Þegar þetta er greitt að fullu, þá hefir ríkissjóður eignast húsið fyrir 7000 kr., auk vaxta og vaxtavaxta. En sýslumaðurinn er fátækur maður og getur ekki borgað þessar 7000 kr., og mjer er kunnugt um það, að hann hefir ekki getað fengið annað sæmilegt húsnæði. Jeg veit, að hjer er gengið inn á nýja braut, en jeg býst ekki við, að hægt sje að sporna við því, að þar sem sýslumannssetur eru fastákveðin, þar eignist ríkissjóður bústaðina. Ríkissjóður hefir mikið hjálpað læknum og prestum í þessu efni, og jeg býst við, að svo verði líka að vera með sýslumennina. Það er erfitt fyrir fátæka kandidata að þurfa að kaupa hús eða byggja á stöðum, þar sem þeir koma óþektir og allslausir.