11.04.1927
Neðri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1069 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

21. mál, fjárlög 1928

Jón Guðnason:

Jeg á nokkrar brtt. við þennan kafla fjárlagafrv. Tvær hinar fyrstu eru á þskj. 336,XXXIII, 1. og 2. liður. Hinnar fyrri hefir þegar verið minst nokkuð af hæstv. atvrh., og get jeg þakkað honum undirtektir hans, sem ekki voru óvinsamlegar, enda þótt hann legði ekki beint til, að till. væri samþ. Ástæðurnar fyrir því, að jeg bar fram till., voru aðallega tvær. Hin fyrri er sú, að mjer er persónulega kunnugt, hve erfitt það er prestum að þurfa að greiða svo háa húsaleigu sem þeir verða nú að gera, með þeim launakjörum, er þeir hafa, einkum ef þeir hafa neyðst til að byggja í dýrtíðinni. Því erfiðara hlýtur þetta að vera, þar sem altaf er krafist, að til húsa á prestssetrum sje vandað svo, að þau verði til frambúðar, og því hljóta þau að vera nokkuð dýr. Yfirleitt mun óhætt að fullyrða, að þeir prestar, sem bygt hafa á síðari árum, greiði leigu af dýrara húsnæði en þeir þyrftu sjálfra sín vegna, ef ekki væri tekið tillit til, að þarna er verið að byggja framtíðarhús. Þess vegna er sanngirni í því, að þessi breyting sje gerð, því að mörgum prestum verður ljettara að vinna af sjer húsaleiguna með jarðabótum. — Hin ástæðan til að jeg flutti till. er sú, að það verður að teljast heppilegt, að húsaleigan sje notuð til að auka verðmæti jarðanna, sem eru eign ríkissjóðs. Eins og hv. þdm. er kunnugt, er nú svo háttað um lán til bygginga á prestssetrum, að fyrst er veitt 5 þús. kr. lán, sem endurborgast á 40 árum, en því næst er veittur styrkur í fjárlögum, gegn því að eftirgjald prestssetranna hækki um 4% af styrkupphæðinni. Í brtt. minni er ekki átt við vexti og afborganir af sjálfu láninu, heldur aðeins afgjaldshækkunina vegna styrksins, sem veittur hefir verið í þessu skyni í fjárlögum nokkur undanfarin ár. Það mun hafa verið fyrst árið 1921, að þessi leið var farin til að styrkja presta til húsabóta. Af umr. um málið á þingi það ár er auðsætt, að svo hefir verið litið á af þáverandi fjvn. og einnig af þáverandi fjrh., sem nú er atvrh., að það fje, se.m þannig yrði lagt í prestssetrin, yrði einskonar hluti af jörðinni. Fjvn. vildi, að það væri veitt með litlum eða engum vöxtum, en hæstv. ráðh. (MG) vildi, að vextir væru teknir, því að við næsta mat mundi þetta falla saman við matsverð jarðanna, og þá yrðu prestar að svara vöxtum af því, eins og allri jörðinni. Þennan skilning veit jeg að prestar, sem bygt hafa með þessum styrk, hafa líka haft á styrkveitingunni. í fjárlögum 1922, þar sem þetta er fyrst veitt, og 1924, sem jafnan er vitnað til síðan, er það líka tekið fram, að húsin verði jarðarhús og afgjald jarðanna hækki um 4% af upphæð styrksins. — En nú er kveðið svo á í jarðræktarlögunum, að prestar megi vinna af sjer jarðarafgjaldið með jarðabótum. Því get jeg ekki annað sjeð en að till. mín sje alveg sjálfsögð. Eins og laun presta nú eru lág, — langlægst allra sambærilegra embættismanna, — má telja það ógerning fyrir þá að greiða svo háa húsaleigu sem þeir verða nú að gera. Því hefði verið eðlilegt að fara þá leið, sem hv. fjvn. stakk upp á 1921, að láta þá enga vexti greiða af þessum húsabótastyrk. Jeg hefi þó eigi viljað koma með þá till., heldur þessa, með það fyrir augum, að ríkissjóður skyldi ekki bíða halla. En hann græðir í raun rjettri á þessu fyrirkomulagi, því að verðmæti jarðanna eykst 1/3 meira en sem nemur afgjaldinu; — í jarðræktarlögunum er kveðið svo á, að greiða megi afgjaldið með jarðabótum, þannig að aðeins 2/3 hlutar af matsverði þeirra komi til greina. — Nú í seinni tíð hafa mjög mörg prestssetur, sem áður voru fræg höfuðból, dregist aftur úr ýmsum öðrum jörðum. Liggja til þess margar ástæður, en þó aðallega sú, að prestar hafa ekki haft fjármagn til að bæta jarðir sínar, svo sem þörf var á. Það er auðsætt, að það er ekki ánægjulegt fyrir þjóðina, að því haldi áfram, en á því verður þó naumast ráðin bót, nema með því, að hið opinbera veiti til þess einhverja hjálp. Annars geta prestssetrin ekki tekið eins skjótum framförum og þau þurfa til þess að geta verið áfram það, sem þau áður voru, glæsileg höfuðból. — Hv. þm. Str. (TrÞ) hefir borið fram brtt. við þessa till. mína, og get jeg með því meiri ánægju fallist á hana, sem hún fer lengra í sömu átt og mín till. — Úr því að jeg er að tala um jarðabætur á prestssetrum, sem unnar eru upp í afgjaldið af jörðunum, langar mig til að minnast á eitt atriði, sem mjer datt í hug út af ræðu hæstv. atvrh. Hann sagði, að styrkur sá, sem á síðasta ári var úthlutað samkvæmt jarðræktarlögunum, hafi verið fyrir jarðabætur, sem unnar voru á 2 árum, 1924 og ’25, en hv. þm. Str. leiðrjetti það og sagði, að hann væri aðeins fyrir 11/2 ár. Út af þessu langar mig til að skjóta fram þeirri spurningu, hvort hjer hafi verið gætt samræmis um styrkveitingu til jarðabóta á jarðeignum ríkissjóðs og annara jarða. Mjer vitanlega hefir ekki verið greitt fyrir jarðabætur á þeim jörðum nema fyrir eitt ár, fardagaárið 1925–’26. Ef þetta er svo, virðist svo sem jarðræktarlögin hafi komið seinna til framkvæmda gagnvart leiguliðum ríkissjóðs en öllum öðrum bændum, og er það mikið misrjetti.

Þá er síðari liður þessarar sömu brtt., um 1000 kr. til íslenskrar safnaðarstarfsemi í Kaupmannahöfn. Þessi fjárbeiðni hefir verið hjer áður á ferð, en aldrei náð að komast í fjárlög. Þetta er þó mjög merkileg starfsemi, að reyna að sameina Íslendinga í Kaupmannahöfn til guðsþjónustuhalds. En vitanlega hlýtur hún að eiga mjög erfitt uppdráttar, meðan hún er ekki styrkt af hinu opinbera. Á þessa starfsemi má líta frá tvennu sjónarmiði; fyrst og fremst sem viðleitni í þá átt að efla kristnihald meðal Íslendinga í Kaupmannahöfn, og einnig frá því sjónarmiði, hverja þýðingu þetta getur haft fyrir íslenskt þjóðerni í Kaupmannahöfn. Það er alkunna, að hliðstæð starfsemi í Vesturheimi hefir verið eitt máttugasta aflið til að viðhalda þjóðerni Íslendinga þar, í hafi hinna enskumælandi þjóða. Og margir hinna bestu manna gera sjer vonir um, að íslenskt þjóðerni varðveitist þar lengi enn, einkum með hjálp þessarar starfsemi. Svipaða þýðingu ætti hliðstæð starfsemi að geta haft í Kaupmannahöfn. Finst mjer því skylt að veita þessa litlu upphæð.

Næsta brtt. mín er á sama þskj., undir XXVII, og er um styrk til Sigurkarls Stefánssonar til háskólanáms. Jeg bar fram svipaða till., en nokkru hærri, við 2. umr., ásamt lægri varatill. Aðaltill. var þá feld, en fjekk allmörg atkv., svo að jeg tók varatill. aftur. Nú ber jeg till. fram aftur, og er aðaltill. mín um 1800 kr., en varatill. um 1200 kr. Vona jeg, að hin hærri upphæð nái samþykki hv. þd. Jeg vil aðeins minna á, að þessi stúdent stundar stærðfræði og hefir lokið miðhluta prófs síns með mjög hárri I. einkunn. Auk þess hefir hann ágæt meðmæli frá kennurum sínum í Kaupmannahöfn og dr. Ólafi Daníelssyni, sem telur hann meðal efnilegustu stærðfræðinga, sem hann hafi kent. Auk þess er hann bæði ötull og reglusamur. Íslendingar þurfa á næstunni að fá góðan mann í þessari grein. Því hefi jeg borið fram brtt., og skal jeg taka fram, að mjög tvísýnt er um það, hvort þessi maður getur lokið námi, nema hann fái styrk til þess.

Þá á jeg enn brtt. á sama þskj., XLV, um styrk til Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara til Rómaferðar. Þetta er áreiðanlega einn af bestu listamönnum okkar og sá, sem listfróðir menn byggja einna mestar framavonir á. Má því telja skylt að veita honum styrk til þess að komast þangað, sem kallað er hið fyrirheitna land allra listamanna.

Þá kem jeg að síðustu brtt., sem er sú LIV. í röðinni á sama þskj. Hún fer fram á að hækka styrkinn til bryggjugerða og lendingabóta um 2 þús. kr., og að þessari upphæð — 2 þús. kr. — sje varið til þess að gera bryggju við Salthólma á Gilsfirði. Það hefir ekki verið hægt að leggja fram kostnaðaráætlun um bryggju þessa, af því að enn hefir ekki tekist að ná í verkfróðan mann til þess að framkvæma nauðsynlegustu mælingar á staðnum. En af því að jeg er þarna kunnugur, þá ætla jeg að leyfa mjer að skýra fyrir hv. þdm., hvernig hagar þarna til.

Við Salthólmavík er útfiri mikið, svo að sæta verður sjávarföllum um afgreiðslu skipa. Kemur oft fyrir, að skip verða að bíða alt að 6 stundum svo, að ekkert er hægt að vinna að afgreiðslu þeirra. En þarna úti á firðinum er Salthólmi, og þó að fjari út undir hann, er þó altaf nóg dýpi við sjálfan hólmann, og því hægt að lenda við hann, þegar bryggja er komin, hvernig sem stendur á sjó. Nú er það hugsun manna, sem þarna eiga hlut að máli, að byggja bryggju við hólmann. Er það einkum kaupfjelagið, sem hefir forgöngu um þetta. En af því að gera má ráð fyrir, að bryggja þessi kosti allmikið fje, og hinsvegar óumflýjanlegt að reisa samhliða henni hús í hólmanum til vörugeymslu, þá sjer kaupfjelagið sjer ekki fært að kosta að öllu leyti þessi mannvirki, og þess vegna er það, að farið er fram á þennan styrk til þess að ljetta undir með fjelaginu. Jeg held, að þessi styrkveiting mundi margborga sig fyrir ríkissjóð, og kæmi það fram í sparnaði á rekstrarkostnaði strandferðaskipanna, sem oft hafa orðið að liggja þarna tímum saman og bíða eftir afgreiðslu. Það mun hugmyndin, að bryggja þessi verði gerð úr steinsteypu, enda er efnið nærri og fljóttekið.

Jeg geng út frá því sem sjálfsögðu, að upphæð þessi verði ekki borguð út fyr en ráðuneytið hefir samþykt kostnaðaráætlun sjerfræðings, sem þetta verður látinn rannsaka og mæla. En það hefir allmikla þýðingu fyrir viðkomandi kaupfjelag, að þessi styrkur verði veittur nú, því að þá mundi þegar í sumar hafist handa á verkinu. Hirði jeg svo ekki um að hafa þessi orð fleiri, en vænti, að hv. deild sjái sjer fært að samþykkja þessa fjárveitingu.

Jeg á svo ekki fleiri brtt. við þennan síðari kafla fjárlagafrv., en út í brtt. annara háttv. þdm. sje jeg ekki ástæðu til að fara. Þó vil jeg, áður en jeg sest niður, minnast örfáum orðum á LXV. brtt., sem háttv. 1. þm. Reykv. (JakM) flytur og er um 2000 króna styrk til ekkju Bjarna heitins Jónssonar frá Vogi. Jeg vil fyrir mitt leyti mæla sem best með því, að brtt. þessi nái fram að ganga. Og jeg er viss um, að þótt mikið veður stæði oft og einatt um Bjarna sál., á meðan hann var á lífi, þá mundi það hvarvetna mælast vel fyrir, yrði styrkur þessi veittur. Vona jeg því, að háttv. deild sjái sjer fært að samþ. till. hv. 1. þm. Reykv.