12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1096 í B-deild Alþingistíðinda. (1119)

21. mál, fjárlög 1928

Klemens Jónsson:

Jeg á eina brtt., eða öllu fremur viðaukatill., á þskj. 336, LXXI, um að veita Túbal Magnússyni alt að 3 þús. kr. viðlagasjóðslán til að byggja gistiskála í Múlakoti. Eins og kunnugt er, eru í seinni tíð farnar að tíðkast allmjög ferðir fram í Fljótshlíð og þaðan á Þórsmörk. Hafa þær aukist mjög á síðari árum, eftir því sem akfær vegur hefir lengst, og einkum má búast við mikilli aukningu núna á ferðamannastraumnum, því að í sumar verður sími lagður inn í Hlíðina. Allir þessir menn hyllast til að gista í Múlakoti. Jeg geri ráð fyrir, að allir hv. þdm. kannist við þann bæ, því að hann er löngu orðinn þjóðfrægur. Þar er það ekki aðeins húsbóndinn, sem gerir garðinn frægan, heldur jafnvel enn frekar húsfreyjan. Hjer er um ákaflega litla upphæð að ræða og góð trygging í boði. Hæstv. atvrh. (MG) tók þessu einnig mjög liðlega, svo að jeg þykist hafa ástæðu til að vænta þess, að hv. deild taki till. með vinsemd. Jeg hefi hjer fyrir mjer erindi frá Ólafi Túbals málara um þetta efni. Þar gerir hann grein fyrir því, að nú tíðkist það mjög að gista í Múlakoti. Er tekið eins vel á móti gestum eins og hægt er, en á því eru miklir erfiðleikar, þegar kannske eru 10–20 næturgestir. Því hefir bóndi í hyggju að byggja gestaskála fyrir 8 manns, og er áætlað, að hann kosti um 3 þús. kr. Jeg er ekki að orðlengja þetta frekar. Jeg þykist hafa rjett til að vænta, að þetta fái góðar undirtektir, bæði sakir þess, að þetta er eina brtt., sem jeg er aðalflm. að, og auk þess er hjer aðeins um lítið lán að ræða, sem aldrei getur komið til uppgjafar á.

Þá hefi jeg gerst meðflm. að brtt. LXIX ásamt hv. 2. þm. Eyf. (BSt). Hún er um fjárveitingu til Eggerts Stefánssonar símritara á Akureyri, þar til honum verður veitt starf við landssímann með eigi lægri launakjörum en hann hafði áður. Jeg skal leyfa mjer að skýra allítarlega aðdraganda að henni, sakir þess að málið snertir mig allmikið. Á þingi 1925 kom fram beiðni í þessa átt frá Eggert Stefánssyni. Beindi hann þá allþungum ákærum gegn mjer, sem skömmu áður hafði verið atvrh., en jeg fór þess á leit við hv. þd., að skipuð væri nefnd til þess að rannsaka kæruatriðin. Þó varð eigi af því. Nú kom sama beiðnin aftur frá þessum manni fyrir Alþingi í fyrra, en hún kom svo seint, að ekki var hægt að bera fram brtt. um sárabætur til hans fyr en við eina umr. í Nd. Ætlaði jeg þá að vera aðalflm., en til atkvgr. kom ekki, sakir þess að fjárlagafrv. var afgreitt óbreytt frá einni umr. í Nd. Nú hefi jeg gerst meðflm. þessarar brtt., og skal nú færa ástæður fyrir því. — Eggert Stefánsson var settur frá starfi sínu við landssímann á Akureyri 8. apríl 1924, eftir tillögu landssímastjóra í brjefi 31. mars s. á. Þetta gerðist alt skömmu eftir að jeg fór frá sem atvrh. Þegar jeg fór frá, þá lá engin kæra fyrir, en jeg efast samt ekki um, að afsetningin hafi verið bygð á góðum ástæðum. Ástæðan, sem færð er fyrir, er drykkjuskaparóregla, og jeg veit, að þessi maður var mjög drykkfeldur, enda þótt hann gerði oft lofsverðar tilraunir til að losna við þá ástríðu. Ástæða mín til þess að flytja þessa brtt. er því ekki bygð á neinni ásökun til þáverandi landsstjórnar fyrir að setja manninn af að ástæðulausu. Nei, ástæður mínar eru alt aðrar. 1922 losnaði stöðvarstjórastaðan á Borðeyri. Eggert Stefánsson sótti um hana, að hann segir að áeggjan landssímastjóra, en um það er mjer ókunnugt. Hitt er víst, að landssímastjóri lagði eindregið til við stjórnina, að E. St. væri veitt staðan. Jeg var þá á förum til útlanda, og lagði Forberg heitinn mikla áherslu á, að hann fengi útnefningu áður en jeg færi. Mjer datt ekki annað í hug en að fylgja hans till. um þetta, enda kom það sjaldan eða aldrei fyrir, að vikið væri frá till. hans í slíkum efnum. Því var E. St. útnefndur stöðvarstjóri á Borðeyri frá 1. sept. 1922, með brjefi 10. eða 12. ágúst. Samt sem áður tilkynti Forberg honum ekki þessa útnefningu fyr en í miðjum september. Ástæðan var sú, að símamenn tóku þessari útnefningu afarilla. Einkum voru það tveir sýslunarmenn við símann, sem fyrir þessu stóðu, en höfðu að því er virtist alt starfsfólkið að baki sjer. Símamenn gáfu um þetta leyti út símablað, og voru í það ritaðar mjög svæsnar árásargreinar á Forberg, út af þessari útnefningu. Kendu þeir tillögu hans um hana, sem vitanlega var alveg rjett. En þeir fóru, að mínu áliti, altof freklega í sakirnar gagnvart jafnmætum manni. Þegar jeg kom svo heim í lok september mátti heita, að alt stæði í ljósum loga við símann. Auk þess sem annar þeirra manna er jeg gat um áðan, þóttist verða afskiftur við veitinguna, voru gamlar væringjar milli símafólksins, sem þarna rifjuðust upp, og jeg vil ekki rekja þær hjer. Þær voru að mínu áliti hvorugum aðilja til sóma. Þegar jeg kom heim, komu sendimenn símamanna á minn fund og hótuðu blátt áfram verkfalli, ef veitingin væri ekki afturkölluð. Jeg benti þeim á lögin frá 1915 um verkföll opinberra starfsmanna og sagði þeim, að þau væru einmitt sett með sjerstöku tilliti til þeirra. Þeir kváðust þá mundu víkja úr stöðum sínum, og þegar jeg benti þeim á uppsagnarfrestinn, sögðust þeir ekkert mundu hirða um hann, en taka afleiðingum af verkum sínum. Alt þetta ljet jeg ekkert á mig bíta. En þá kom Forberg heitinn landssímastjóri til sögunnar. Hann var þá vissulega farinn að kenna sjúkdóms þess, er nú hefir dregið hann til dauða. Hann tók sjer árásir símamanna ákaflega nærri, kom til mín og bað mig að greiða úr þessari flækju. Þarna stóð hvort gegn öðru: annarsvegar útnefning E. St. og hinsvegar e. t. v. stöðvun á öllu símasambandi í nokkurn tíma. Jeg sá þá ekki annað betra ráð en biðja manninn að sleppa tilkalli sínu til stöðunnar. Það gerði hann eftir beinum tilmælum mínum, en þó áreiðanlega nauðugur.

Þessi saga er aðalástæðan til þess, að jeg ber fram þessa brtt. með hv. 2. þm. Eyf. Svo er önnur aukaástæða frá minni hálfu sjerstaklega. Jeg hefi þekt Eggert Stefánsson frá því að hann var barn að aldri. Hann var ákaflega geðugur unglingur og ávann sjer hylli allra, sem þektu hann. En hann hafði einn löst, að hann gerðist snemma mjög drykkfeldur. Þess vegna vildi jeg veita honum Borðeyri, þar sem honum hefði verið örðugt um að ná í vín. Þar hefði hann sennilega vanist af vínnautn, og jeg er sannfærður um, að þá sæti hann nú sem velmetinn sýslunarmaður og góður húsfaðir; — en þessi frávikning hans varð m. a. til þess, að heimili hans tvístraðist, að minsta kosti um stundarsakir. Þegar frávikning þessa manns er borin saman við frávikningu Petersens símastjóra í Vestmannaeyjum, verð jeg að segja, að hafi nokkur ástæða verið til að bæta Petersen frávikninguna, þá er margfalt meiri ástæða til þess hjer. — Í skjali því, þar sem E. St. er vikið frá, er getið um, að hann hafi verið ljelegur símamaður. Þetta er alls ekki rjett. Þannig vottar t. d. Friðbjörn Aðalsteinsson loftskeytastöðvarstjóri, að hann sje einn með færustu símamönnum, og Björn Magnússon símastjóri á Ísafirði gefur vottorð í mjög svipaða átt. Þessar ásakanir hafa því ekki verið á rökum bygðar á sínum tíma. — Jeg þykist nú hafa rjettlætt það fyllilega, að jeg gerðist meðflm. þessarar till., og vona, að hv. þdm. sýni þá sanngirni að samþ. hana. Annars tel jeg sjálfsagt, að hann fái aftur stöðu við símann, þegar starfi losnar á einhverjum afskektum stað.

Þá langar mig til að minnast nokkuð á brtt. LXVIII, frá hv. fjvn., um smáfjárveitingu til fröken Henriette Kjær yfirhjúkrunarkonu á Laugarnesi. Hefði jeg vitað, að frk. Kjær ætlaði svo fljótt að hverfa frá starfi sínu, hefði það staðið mjer næst að bera fram þessa brtt. Má því nærri geta, að jeg styð hana með mikilli gleði. Jeg hefi í nokkur ár verið formaður í stjórnarnefnd Laugarnesspítala og hefi oft komið þangað. Þannig hefi jeg haft tækifæri til að kynnast viðmóti þessarar ágætu konu við sjúklingana. Það veit hamingjan, að það getur ekki verið skemtilegt verk að hjúkra þessum aumingjum, og það er ekki gaman að umgangast þetta fólk, eins og margt af því er útlits. Holdsveikin fer þannig með vesalings fólkið, að manni stendur næstum viðbjóður af að sjá það. Samt hefi jeg aldrei komið svo að Laugarnesi, að jeg hafi ekki sjeð fröken Kjær fara mjúkum höndum um sumar af hinum gömlu konum, og þá oft og einatt þá hluta af líkama þeirra, sem veikin hefir farið verst með. Auk þess er þetta hámentuð kona, og hefir hún haft mikil og holl andleg áhrif á sjúklingana. Hún hefir kent mörgum þeirra danska tungu og fengið þeim góðar bækur til að lesa. Það var hún, sem tók fyrst eftir Sigurði Kr. Pjeturssyni, og meðan hann lifði, voru þau altaf góðir vinir. Og mjer er óhætt að segja, að þau höfðu mjög mikil og holl áhrif hvort á annað. Þessi kona ætlar nú, eftir því sem hv. frsm. upplýsti, að setjast að í sínu föðurlandi. Hún er nú búin að vera hjer í 25 ár, nema hvað hún hefir stundum á sumrum skroppið til Danmerkur, en nú ætlar hún að dvelja þar eftirleiðis. Satt að segja virðist mjer þessi upphæð, sem háttv. fjvn. hefir stungið upp á, vera í lægsta lagi. Jeg myndi fullkomlega hafa getað greitt atkvæði með því, þótt þessi styrkur hefði verið hafður nokkru hærri; en það má vel vera, að hægt verði að laga þetta í hv. Ed., eða þá hjer í deildinni síðarmeir. En eftir þeim upplýsingum, sem komið hafa um þessa konu, þá vona jeg, að enginn hafi neitt á móti þessu lítilræði.

Þá vildi jeg fara nokkrum orðum um brtt. á þskj. 345, undir tölulið V. um styrk til Nikulásar Þórðarsonar, 300 krónur, og til vara 200 krónur. Jeg býst nú við, að hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) muni skýra nánar frá því, hvernig á þessari fjárveitingu stendur, en get upplýst, að þessi maður hefir verið barnakennari í liðug 40 ár, góður barnakennari og notið mikils álits. Hann er er nú roskinn maður og tæpt staddur fjárhagslega. En það mun öllum koma saman um, að kennarar hafa ekki verið svo launaðir, að þeim hafi gefist nokkur tækifæri til að leggja fje fyrir. En þar sem hv. flm. (ÁÁ) hefir komið með varatill., 200 kr., þá verð jeg að segja, að jeg tel það varla sæmilegt að sjá svo lítinn styrk í fjárlögunum, svo að jeg vona, að öllum komi saman um það, að ef á annað borð ber að styrkja gamlan mann, sem lengi hefir verið í þjónustu landsins, þá komi hv. þdm. líka saman um það að taka hærri upphæðina.

Jeg hefði í sjálfu sjer löngun til að minnast á fleiri tillögur, en af því að margir hv. þdm. eiga eftir að tala fyrir þeim, og allir óska, að málinu verði lokið í nótt, þá ætla jeg ekki að fara að ræða þær, og vona jeg þá, að aðrir hv. þm. fylgi þar í mín fótspor og reyni að verða sem stuttorðastir.