12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

21. mál, fjárlög 1928

Jakob Möller:

Það er nú ekki til mikils að vera sjerlega margorður um þessar brtt., og er í raun og veru meir fyrir siðasakir, að maður er að tala fyrir slíkum till. hjer, heldur en af því, að það sje að vænta nokkurs árangurs.

Jeg á hjer nokkrar brtt., og er sú fyrsta á þskj. 356 og er brtt. við brtt. XXIV á þskj. 336. Jeg skal taka það fram strax, að þó að jeg hafi sett þessar tvær till. saman, þá er það á engan hátt af því, að jeg sje að fara fram á nein kaup við hv. þm. Borgf. (PO) í þessu máli, og jeg get sagt það, að þótt mín till. verði feld, þá get jeg alveg eins greitt atkv. með till. hv. þm. Borgf. En það er svo ástatt um þessa menn, að þeir lesa ekki aðeins það sama, heldur búa þeir líka saman, svo að mjer finst í raun og veru nokkuð eðlilegt, að þeir fylgist að. Þó skal jeg játa það, að ef nokkuð er, þá er þó líklega hagur Bjarna Sigurðssonar, sem háttv. þm. Borgf. ber fram, öllu lakari en hins. Hv. þm. hefir nú gert ljósa grein fyrir hag þessa stúdents, sem hann flytur styrkbeiðni fyrir, og jeg efast ekki um, að háttv. þdm. sjeu sannfærðir um, að það sje mikil þörf á að styrkja hann, eftir þeim upplýsingum, sem hv. þm. hefir gefið. En jeg get fullvissað hv. þdm. um, að það er full ástæða til að styrkja báða. Annar þeirra hefir orðið fyrir því, fyrir sjerstök mistök, að fá ekki þann árlega námsstyrk, sem vant er að veita þeim stúdentum, sem stunda nám við erlenda háskóla. Um hinn stúdentinn er það að segja, að hann sótti ekki um þann námsstyrk, af því að faðir hans hjelt, að hann mundi geta klofið það að styrkja hann, en síðan hefir faðir hans orðið fyrir þeim áföllum, að hann sjer sjer það ekki fært. Jeg get bætt því við það, sem hv. þm. Borgf. sagði um hag þessara stúdenta, að þeir eiga við ákaflega þröngan kost að búa, svo að það getur ekki haldist við til langframa.

Þá á jeg aðra brtt. á þskj. 336, tölulið XXVI, um námsstyrk til Valgarðs Thoroddsens til háskólanáms, 1000 kr. Jeg flutti við 2. umr. till., sem fjell við mjög lítinn atkvæðamun, og vona jeg því, að háttv. deild geti fallist á þessa tillögu. Jeg verð að líta svo á, að ríkissjóði sje skylt að styrkja þá námsmenn, sem leggja stund á þau fræði, sem ekki fæst kensla í hjer heima. Eftir það, sem gerðist árið 1918, er við tókum við miklum höfuðstól í reiðu fje og þar með við skyldunni til að sjá þessum mönnum fyrir námsstyrk, verð jeg að líta svo á, að illa sæmi, ef ríkið ætlar að bregðast þeirri skyldu sinni og koma sjer undan henni. Eins og kunnugt er, gátu áður fyr allir stúdentar, sem fengu aðra einkunn frá skólanum hjer, stundað nám við háskólann og fjöllistaskólann í Kaupmannahöfn og fengið svo ríflegan styrk, að þeir gátu komist af með hann í fjögur ár. En eftir að sambandslögin komust á, varð breyting á þessu, þó ekki fyrst í stað, því að fyrst var haldið áfram að styrkja þá stúdenta, sem fóru utan til náms; en síðar voru sett lög um það, að ekki skyldu styrktir nema fjórir stúdentar frá hverju ári, og þar með er að því komið, að ríkið bregst þeirri skyldu, sem það tókst á hendur með sambandslögunum, og er það illa farið. Mjer finst, að það hefði ekki átt að fara lengra í því en svo að binda þá styrkveitingu við hærri einkunn en þá, sem áður var, t. d. við 1. einkunn. En að binda styrkinn við ákveðna tölu, það er óþolandi og getur ekki staðist til lengdar.

Þá á jeg næst brtt. undir tölulið XXXVIII á þskj. 336, um hækkun á styrk til Leikfjelags Reykjavíkur frá því, sem er í frv. stjórnarinnar. Styrkurinn hefir eiginlega verið 6000 krónur, en hæstv. stjórn hefir lagt til að lækka hann um þetta. En nú stendur svo á, að Leikfjelagið hefir sent erindi til stjórnarinnar, um að fá endurgreiddan verðtoll af ýmsum hlutum, sem það hefir fengið til leikþarfa. Þessi verðtollur nam eitthvað um 700 kr., sem fjelagið fór fram á að fá endurgreiddar. Þetta erindi fór til hv. fjvn., en jeg átti tal við nefndina um það, jafnframt og jeg ljet þess getið, að vel mundi fara á því, að erindinu væri svarað með því að hækka hinn árlega styrk til fjelagsins, eins og hjer er farið fram á. Jeg get ekki hermt neitt loforð upp á háttv. nefnd í þessu efni, en jeg vona, að hún taki vel í þessi tilmæli mín, og vona jeg jafnframt, að hv. deild samþykki þau. Jeg skal taka það fram, að eins og stendur á Leikfjelagið talsvert erfitt uppdráttar, eins og líka má ráða af því, að þar sem mjög er erfitt í ári, þá verður aðsókn að leikjunum með minna móti, svo að fjárhagur þess er mjög þröngur eins og stendur.

Þá eru hjer nokkrir styrkir til listamanna, og er sá fyrsti undir tölulið XL, til Freymóðs Jóhannssonar málara til að fullnuma sig í leiktjaldamálun, 2000 kr. Jeg flutti nokkru hærri till. við 2. umr., sem þá var feld, og vil jeg nú reyna, hvort hv. deild getur ekki fallist á að veita þessa lægri upphæð. Jeg hefi engu við að bæta um ástæðurnar, þar sem jeg hefi þegar tekið þær fram, og þó sjerstaklega vegna þess, að hv. þm. Ak. (BL), sem er meðflm. minn, hefir minst á till. og tekið fram það, sem ástæða var til.

Þá er till. um styrk til Þórðar Kristleifssonar til söngnáms, 1500 kr., og til Bjargeyjar Pálsdóttur til hljómlistarnáms, 1000 kr. Hv. þm. kannast sjálfsagt við Þórð, son Kristleifs bónda á Kroppi í Borgarfirði. Hann hefir verið nokkur ár við söngnám, og hefir verið deilt töluvert um hæfileika hans, eins og háttv. þdm. sjálfsagt er kunnugt, en jeg vil benda á það, að þótt að vísu ýmsir mætir menn hafi efast um, að hann væri þeim hæfileikum gæddur, sem haldið hefir verið fram, þá hefir þó eitthvert mesta stórmenni okkar á því sviði, söngfræðingurinn prófessor Sveinbjörn Sveinbjörnsson, farið um hann mjög lofsamlegum orðum. Líka hefir hann fengið ágætustu meðmæli frá þeim erlendu kennurum, sem hann hefir numið hjá. Nú hefir hann í mörg ár kostað nám sitt sjálfur með tilstyrk föður síns, en þarf nú að fá þessa litlu hjálp, til þess að geta fullnumað sig í list sinni.

Þá er stúlkan Bjargey Pálsdóttir. Hún hefir stundað nám í Kaupmannahöfn við ágætan orðstír. Þegar hún tók próf frá skólanum, varð hún ein aðnjótandi verðlauna af þeim, sem undir prófið gengu.

Þá kem jeg að manni, sem ekki aðeins allir hv. þdm. þekkja, heldur má heita kunnur um land alt. Það er Ásgrímur Jónsson málari. Það er farið fram á, að ríkið kaupi af honum málverk fyrir 5000 kr., til þess að hann geti komið því í framkvæmd að sýna málverk sín erlendis. Það er svo til ætlast, að hann fái einnig að sýna þau málverk, sem ríkið kaupir af honum, og þetta yrði þá hjálp til þess að gera honum kleift að fá markað fyrir málverk sín í öðrum löndum. Það leikur varla á tveim tungum, að Ásgrímur sje einhver okkar besti málari, og það má skoða hann sem nokkurskonar brautryðjanda í þeirri list og líklegan til þess að verða læriföður í framtíðinni, en hann málar hinsvegar þannig, að hann á ekki svo auðvelt með að selja mikið af verkum sínum, því að hann leggur það aðallega fyrir sig að mála stór málverk, sem verða svo dýr, að þau verða varla meðfæri einstaklinga að kaupa. Hinsvegar er kostnaður hans við þessa málverkagerð svo mikill, að hann verður oft og einatt beinlínis fyrir tjóni af þessu starfi sínu. Hann á nú fyrirliggjandi málverk svo hundruðum skiftir, sem hann fær ekki kaupendur að, þrátt fyrir það, að þau eru með þeim bestu málverkum, sem hjer þekkjast; en hinsvegar er það auðsætt, að ef á að stofna hjer til verulegs málverkasafns, þá væri það illa úr garði gert, ef ekki væri þar mikið úrval af verkum þessa manns. Verður því að telja sjálfsagt, að ríkið kaupi eitthvað af þeim. Það er í raun og veru ekki farið fram á neina gjöf, þegar mælst er til þess, að ríkið kaupi eitthvað eftir þennan málara, því að það þykir aðeins fara betur á því, að þetta verði gert á meðan maðurinn er á lífi og getur haft gagn af því heldur en að fyrst sje farið að kaupa að honum látnum, sem alls ekki er neinn vafi á, að verður gert að öðrum kosti.

Þá á jeg hjer till. um að veita Hrafnkatli Einarssyni 2000 kr. styrk til þess að semja doktorsritgerð við háskólann í Vín. Hrafnkell Einarsson er einn með allra færustu stúdentum, sem hafa útskrifast frá skólanum hjer; hann hefir að vísu notið námsstyrks hjeðan í 4 ár, jeg hygg, að það muni vera síðasta árið hans núna, en til þess að ljúka námi sínu þarf hann að fá styrk eitt ár enn. Hann hefir stundað nám við háskólann í Kiel og nú síðast í Vínarborg. Hann hefir lesið hagfræði og ætlar nú að skrifa doktorsritgerð um íslenskar fiskveiðar, og í erindi sínu til þingsins gerir hann glögga grein fyrir því, hvernig hann hugsar sjer þessa ritgerð, og má ætla, að það verði merkilegt vísindaverk. Fiskveiðar hafa ekki verið rannsakaðar enn nje um þær skrifað, eins og aðra aðalatvinnuvegi þjóðanna, og það er enginn vafi á því, að það yrði Íslandi til sóma, að Íslendingur yrði fyrstur til að skrifa vísindarit um það efni. Og það er alveg áreiðanlegt, að Hrafnkell verður þjóð sinni til sóma, og þarf engan að iðra þess að hafa lagt honum styrk til hjálpar á þeirri braut, sem hann hefir valið sjer. Jeg þarf ekki að taka það fram, að hann er sonur Einars skrifstofustjóra Þorkelssonar, sem nú er, eins og kunnugt er, þrotinn að heilsu og lifir við þröngan kost, og getur ekki á nokkurn hátt hjálpað syni sínum.

Þá hefi jeg að nýju flutt styrkveitingu til Einars Ó. Sveinssonar til að ljúka námi í norrænu við Kaupmannahafnarháskóla. Jeg bar þessa tillögu fram við 2. umr., en þá vildi svo ólánlega til, að hún var feld, þrátt fyrir það, að samskonar styrkur var samþyktur til annars manns, sem stendur betur að vígi; því að þessi maður hefir verið veikur af berklaveiki, og faðir hans hefir mist sjónina og er því ófær til að vinna fyrir sjer sjálfur, hvað þá til að styrkja son sinn.

Þá á jeg brtt. undir tölulið LVII, um styrk til Fjelags íslenskra hjúkrunarkvenna til að standast kostnað af heimsókn fulltrúa frá hjúkrunarkvennafjelögum á Norðurlöndum, 1200 kr., og til vara 800 kr. Fjelag íslenskra hjúkrunarkvenna hefir sent þinginu erindi um þennan styrk, og það er þannig ástatt, að fjelagið, sem áður hefir verið í heimsókn hjá hjúkrunarkvennafjelögum á Norðurlöndum, á nú von á fulltrúum frá þessum fjelögum til sín. Það leiðir af sjálfu sjer, að það er mikilsvert fyrir hjúkrunarkonurnar íslensku að vera í slíku sambandi við starfssystur sínar á Norðurlöndum, og að þær geta haft margt gott af því, en af því leiðir aftur það, að þegar þær verða aðnjótandi hlunninda frá þeim, verða þær að einhverju leyti að geta svarað á sömu leið, t. d. með því að bjóða þeim heim til sín einstöku sinnum. Það er svo sem auðvitað, að það verður ekki eins oft að tiltölu, en við og við verður það þó að vera; en þar sem fjelagið er svo ungt, að það hefir ekki nein efni til að standast kostnað af slíkri heimsókn, þá er eina ráðið fyrir fjelagið að leita til ríkissjóðs um einhvern lítilsháttar styrk í þessu skyni.

Þá er till. frá mjer undir tölulið LIX. Hver einstakur þdm. hefir fengið skriflegt erindi um þetta og þar með allar upplýsingar, og jeg hefi aðeins orðið til þess að koma þessari tillögu á framfæri.

Þá er jeg kominn að till. um styrk eða framlag til sundlaugar í Reykjavík, sem jeg flyt ásamt öðrum þm. Reykv. Nauðsyn þessa máls þarf ekki að ræða mikið, hún er í sjálfu sjer viðurkend áður af þinginu, þar sem það hefir samþykt lög um heimild til þess að gera sund að skyldunámsgrein, eða heimild til að lögleiða sundnámsskyldu, og þó það sje aðeins heimild enn sem komið er, þarf ekki að efa það, að áður en langt um líður verður því breytt í það horf, að það verði ákveðin sundnámsskylda, en vitanlega er ekki til neins að lögleiða sundnámsskyldu að svo stöddu, meðan tæki eru ekki til þess að halda náminu uppi. En það þurfa fyrst og fremst að vera sundlaugar til, þar sem hægt sje að kenna sund, og þá fyrst og fremst hjer í Reykjavík, þar sem skólarnir eru flestir og þörfin því brýnust á því að koma upp fullkominni sundlaug.

Nú er það kunnugt, að í ráði er að leiða heita vatnið úr laugunum hjer innan við bæinn til upphitunar á stórhýsum hjer, eða þá að leiða vatn, sem hitað væri við laugahitann, sem kemur væntanlega í sama stað niður. Og jafnframt er í sambandi við þetta, þá er vatnið hefir verið leitt og notað til þess að hita upp þessar byggingar, landsspítalann og barnaskólann tilvonandi, ráðgert að byggja sundlaug til þess að taka við volgu vatninu, og hagnýta það svo til hlítar. Væri æskilegast, að þetta hvorttveggja yrði gert samtímis og lokið fyrir 1930. Það væri sannarlega ánægjulegt fyrir okkar litlu íslensku þjóð að vera á því ári búin að koma upp þessu tvennu, allfullkomnum landsspítala og sundhöll í Reykjavík. Fátt mundi þjóðin geta gert, er metið yrði út á við meira en þetta tvent, merki þess, að þjóðin er menningarþjóð á rjettri leið. Því að hvorttveggja þetta miðar að því að efla heilbrigði og þrótt landsins barna, lækna sjúkdóma og bæta böl þeirra, sem þegar eru sjúkir orðnir; vernda og styrkja heilsu hinna, er ósjúkir eiga að heita.

Það er enginn vafi á því, að íþróttir eru þær öflugustu sjúkdómavarnir, sem hægt er að framkvæma, og þó sund ekki síst. Það er álitið, að landsspítalinn sje of lítill, og gengið út frá því, að þurfi að stækka hann með tímanum, enda var í upphafi gert ráð fyrir honum miklu stærri en hann er nú bygður. En því meir sem íþróttir eru efldar, því seinna rekur að því, að þurfi að stækka hann.

Það má að vísu finna að þessu máli, að það sje ekki svo undirbúið sem skyldi. Áætlun um sundhöll í Reykjavík, gerð af húsameistara, hljóðar upp á 250 þús. kr. En síðan hefir verðlag lækkað, svo að kostnaðurinn verður ekki meiri en 200 þús. kr. Kostnaður á að skiftast jafnt milli ríkissjóðs og bæjarsjóðs Reykjavíkur, og er gert ráð fyrir, að hvor aðili um sig leggi fram 50 þús. kr. á ári í 2 ár.

Hinsvegar hvað framtíðina snertir, þá er það athugandi, að rekstrarkostnaður verður ákaflega lítill. Í öðrum löndum er nú á síðari árum mikið tíðkað að reisa slíkar sundhallir, ekki aðeins í stórborgunum, heldur líka í þeim smærri. En víðast er við þá erfiðleika að etja, að vatnið fæst ekki nema kalt frá náttúrunnar hendi, og verður því að kosta til að hita það upp með kolum. Við stöndum betur að vígi. Við höfum heitt vatn við hendina ókeypis. Rekstrarkostnaður verður því ekki annar en umsjón með lauginni. En hinsvegar er gert ráð fyrir því, að sundmenn, er laugina nota, greiði lítilsháttar gjald, sem mundi vega mikið til á móti kostnaðinum.

Þó að þröngur sje fjárhagurinn sem stendur, þá vænti jeg þess, að háttv. þdm. láti sjer ekki í augum vaxa ekki stærri upphæð, þar sem hjer er um ótvírætt menningarmál að ræða. Það ætti svo að vera, að allir Íslendingar væru syndir, og að því marki, að sundið sem íþrótt verði almennara en nú er, eigum við að stefna sem fyrst. Verði þessi fjárveiting samþykt, og komist sundhöllin upp, er stigið stórt spor í þá átt.

Jeg á svo á þessu sama þskj. eina brtt. enn, LXV, sem fer fram á að hækka eftirlaun ekkju Bjarna sáluga Jónssonar frá Vogi upp í 2000 kr. Jeg þakka hæstv. atvrh. fyrir þau orð, er hann ljet falla um till., einnig háttv. þm. Dal. (JG). Hefi jeg engu við að bæta það, er þeir sögðu um þetta. En jeg vil taka það fram, að fyrir mjer er þetta ekki neitt fordæmi. Jeg álít, að hjer sje svo sjerstaklega ástatt, að hv. þingdeildarmenn þurfi ekkert að kveinka sjer, þótt þessi upphæð verði hærri en aðrar á þessum lið fjárlaganna. Bjarni frá Vogi látinn er að minni hyggju svo mikils metinn af þjóðinni, ekki aðeins af þeim, er fylgdu honum að málum í lifanda lífi, heldur og jafnvel af andstæðingum, að jeg efast ekki um, að landsmenn nálega undantekningarlaust sjá ekki eftir að leggja börnum hans þennan styrk til framfærslu. Jeg býst ekki við, að margir geti komið á eftir og krafist hækkunar á sínum eftirlaunum hlutfallslega; þjóðin mundi ekki telja sjer skylt að sinna slíku. Það er svo alment viðurkent, að ekki verður dregið í efa, að Bjarni frá Vogi var sómi Íslands í hvívetna, sverð þess og skjöldur í starfi sínu. Og þótt ýmsa mæta menn hafi greint á við hann, þá er það svo jafnan, að menn verða aldrei á eitt sáttir, og forgöngumenn mæta æ andstöðu úr einhverri átt. En yfir það jafnast er frá líður. — Jeg mælist því eindregið til þess, að háttv. deild samþykki hærri till. Því að minni má upphæðin ekki vera, þar sem hjer á í hlut kona, sem á fyrir þremur börnum að sjá, á barnsaldri og skólagöngualdri. Hún getur ekki komist af með minni upphæð til þess að ala þau upp og kosta til náms.