12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

21. mál, fjárlög 1928

1122Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg þarf ekki að tala langt mál um brtt. á þskj. 336 XXXI, um unglingaskóla, því að bæði hefir hv. frsm. (TrÞ) skýrt hana nokkuð við fyrri umr., og eins hefi jeg minst á hana í sambandi við samskólann.

Aðra litla till. á jeg á þskj. 345, V, þar sem jeg fer fram á 300 krónur handa Nikulási Þórðarsyni, en til vara 200 krónur. Nikulás pórðarson er búinn að starfa í 30 ár í Fljótshlíðinni sem barnakennari, en þrátt fyrir það stendur svo sjerstaklega á, að hann hefir ekki rjett til styrks úr lífeyrissjóði barnakennara. Jeg vona, að hv. deild láti þennan mann njóta síns mikla starfs. Jeg skal játa, að varatill. nægir til þess að bæta honum upp það tjón, sem hann hefir orðið fyrir vegna þess, að hann hefir ekki rjett til styrks úr lífeyrissjóðnum. En aðaltill. er borin fram samkvæmt umsókn hans til þingsins um viðurkenningu fyrir lækningastarfsemi.

En það var einkum tillagan á þskj. 336, LXII, sem jeg vildi gera grein fyrir. Ostagerðarfjelag Önfirðinga fór mjög myndarlega af stað. Það kom upp góðu húsi og vönduðum áhöldum, og var ætlun þess að gera tilraun með gráðaostagerð. Bændur hjeraðsins lögðu fram alla þá sauðamjólk, sem þeir gátu, 50 þúsund lítra yfir sumarið, og þetta fluttu þeir fyrir eiginn reikning. Nú var fjelagið svo óheppið, að einmitt á þessum tíma fjell frankinn í verði, en franskur gráðaostur var aðalkeppinauturinn, og hinn íslenski var því lítt seljanlegur í Englandi, þegar svona var komið. Við þetta bættist, að verkun ostsins mishepnaðist, svo að ekki varð nema nokkur hluti hans fyrsta flokks vara. Salan mistókst sem sagt alveg, og árangur þessarar merkilegu tilraunar varð sá, að bændur töpuðu stórfje. þessi tillaga er fram borin fyrir eindregin tilmæli fjelagsins. Ef það fær þá eftirgjöf, sem tillagan fer fram á, er líklegt, að það geti borið aðrar skuldir sínar og reist við aftur.

Ef þessi tillaga fellur, mun jeg bera fram varatill., sem jeg þá vænti, að verði samþykt. En jeg býst við, að svo fari fyr eða síðar, að Alþingi verði að taka á sig nokkurn hluta af þessu mikla tapi. Þar sem hjer er um einkafjelag að ræða, sem í er fjöldinn allur af bændum úr heilu hjeraði, og þar sem hjer er um að ræða virðingarverða tilraun, sem mishepnaðist af óviðráðanlegum ástæðum, vona jeg, að háttv. deild taki vel í þessa till. Það hefir þegar verið gefið fordæmi, og væri ekki sanngjarnt að láta ekki þessa menn njóta jafnrjettis við þá, sem á undan eru komnir.