12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

21. mál, fjárlög 1928

Jón Guðnason:

Í gær, þegar jeg gerði grein fyrir till. mínum, var mjer ekki kunnugt um, að það mundi koma fram við þessa umræðu ein till., sem jeg er við riðinn. Það er till. frá mentmn. um 1800 kr. til kenslu í grísku. Svipuð till. um hærri fjárveitingu í þessu skyni var borin fram við 2. umr., en þá feld. Mun það að líkindum hafa stafað að nokkru leyti af misskilningi. Sumir hv. þdm. munu hafa litið svo á, að ekki væri rjett að samþ. þessa upphæð fyr en búið væri að afgreiða frv. um dósentsembætti í grísku. En því er einmitt svo farið, að þessi till. er borin fram með það fyrir augum, að dósentsembættið í grísku verði afnumið. Og jeg get bætt því við, að það mun mega búast við, að afgreiðsla þess frumvarps bíði, þangað til þessi upphæð er komin í fjárlög. Jeg vona því, að þessi till. verði samþ. af hv. deild, einkum þar sem hún fer fram á minni fjárupphæð en við 2. umr.; með því er trygt, að sú stóra fjárupphæð, sem liggur á milli þessarar upphæðar og þeirrar, sem fylgir dósentsembættinu, megi sparast á næstu fjárlögum. Þessi till. er því í eðli sínu ekki fjárveitingartill., heldur fjársparnaðartill. Og með þesskonar till. ætla jeg, að hv. þdm. sje ljúft að greiða atkv. við þessa umr., og leggja þar með inn fyrir einhverju öðru, sem þeir hafa fram að bera.