12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (1126)

21. mál, fjárlög 1928

Sveinn Ólafsson:

Það voru örfá orð, sem jeg vildi víkja að háttv. 3. þm. Reykv. (JÓl). Hann lagði, að því er mjer skildist, fremur á móti till. sjútvn. á þskj. 336, tölulið LV. Mjer kom það reyndar á óvart, því að jeg þóttist eiga þar hauk í horni, sem hann var, og þannig mun nefndin yfirleitt hafa litið á. Mjer er ekki grunlaust um, að einhver misskilningur hafi komist að hjá honum í þessu efni. Að minsta kosti tók jeg eftir því, að hann vitnaði ekki rjett í fyrsta staflið till., þar sem hann mintist á, að nefndin vildi veita til markaðsleitar í Suður- Ameríku 12 þús. kr. Till. er alls ekki þannig orðuð, enda er búið að leita markaðs þarna áður, af útlendum og innlendum mönnum, og það er vitað, að hann er þar til. í till. stendur: Til fisksölutilrauna. Nefndin vill einmitt með þessu koma í verk fiskflutningi til S.-Ameríku, á markað þann, sem þektur er þar, vill, að reynt sje að styðja fyrstu ákveðnu tilraunina í því efni.

Hv. sami þm. (JÓI) virtist einnig hafa það sjerstaklega að athuga við till., að ætlað væri útlendum mönnum að njóta þessa fjár og fara vestur um haf. Það hefir ekki komið neitt frá nefndarinnar hendi um þetta, og henni hefir vissulega ekki til hugar komið neinn sjerstakur maður, innlendur eða útlendur, sem til þess yrði valinn. En hins var getið í framsöguræðu, að fyrir augum væri haft fiskútflutningsfjelag það, sem nú nýlega er stofnað hjer í bænum af mörgum útvegsmönnum og togaraeigendum og hefir farið fram á að mig minnir 25 þús. kr. fjárveitingu til fyrstu tilraunar. Öll fjárupphæðin, sem lagt er til að veitt verði eftir þessari till., er þess vegna óbundin og til umráða fyrir stjórnina. Þótt þetta fjelag hafi verið haft sjerstaklega fyrir augum, af því að fyrir lágu bæði umsókn og skýrslur um fyrirhugaðar athafnir þess við sölutilraunir, þá bindum við ekki á nokkurn hátt fjárveitinguna við það, ef aðrir kunna að þykja líklegri til framkvæmda. Aðalatriðið fyrir sjútvn. er það, að eitthvað verði þó gert til að rýmka um afurðasöluna, og að fjeð notist einmitt við það, sem kynni að verða gert til þess að færa markaðinn út. Öllum er það ljóst orðið, þeim sem hafa fylgst með atburðum síðustu áranna, að það kreppir verulega að með sölu afurðanna. Afurðirnar falla í verði ár frá ári, og það er kunnugt, að einmitt takmörkuð markaðssvæði og harðvítug samkepni eru aðalorsakirnar.

Jeg heyrði ekki, hvað háttv. þm. hafði að athuga við b-lið till., um síldarsölutilraunir. Jeg ætla þess vegna að sleppa að svara því og láta við það sitja, sem jeg hefi áður sagt um þetta. Og yfirleitt ætla jeg ekki að svara þessum hv. þm. fleiru út af aðfinslum hans. Jeg hefi áður tekið fram, að einhver misskilningur hjá háttv. þm. muni hafa legið að baki athugasemdunum.

En á þessu sama þingskjali er önnur till. frá mjer, sem hann mæltist til, að jeg tæki aftur. Það er till. undir LI. lið, sem jeg flyt ásamt hv. 1. þm. N.-M. (HStef), um að fella niður 20 þús. kr. fjárveitingu til vegar í Vestmannaeyjum. Hann sagði, að í Vestmannaeyjum væri ræktað land sem svaraði 108 hektörum, en hinsvegar væri þar til ræktað og ræktanlegt land sem svaraði alls 264 hektörum; m. ö. o., að fullur helmingur af þessu landi væri óræktað enn. Jeg dreg ekki í efa, að þetta muni vera rjett. En í sjálfu sjer sannar það ekkert um nauðsyn stórrar fjárveitingar til vegarins, þótt svona mikið land sje til ræktanlegt. Það er í raun og veru þó aldrei nema 800 dagsláttur alt í alt; og það getur ekki talist ýkjastórt svæði. Það samsvarar hjer um bil 10–12 vænum túnum í sveit, Og alt land í Vestmannaeyjum er, eins og jeg hefi tekið fram áður, ekki stærra en sem svarar landi meðaljarðar í sveit. Víðáttan er ekki mikil. Háttv. þm. segir, að vegurinn fyrirhugaði muni vera um 6 km. með því, sem búið er að leggja. En slík vegalengd fæst ekki á eynni, nema vegurinn liggi að mestu leyti hringinn í kring um þetta svæði, sem ræktað er og ræktanlegt.

Eins og jeg hefi tekið fram áður, er það vegalengdin úr kaupstaðnum og suður fyrir Helgafell, sem hjer ræðir um; en sú vegalengd er ekki meiri en sem svarar venjulegri stekkjargötu. Það er fráleitt meira en 2 km. Hinsvegar má auðvitað leggja vegi í sveigum og bugðum, eða frá einu býli til annars, svo að nemi 6 km. alls á eynni. — En það skilst mjer ekki nauðsynlegt og síst ástæða til þess, þegar jafnerfiðlega gengur að afla fjárins og uppfylla brýnustu þarfir eins og nú. Það er tæpast forsvaranlegt að láta slíka vegalagningu sem þessa sitja í fyrirrúmi fyrir öllum öðrum, og það á þann veg, að þrefaldaður sje venjulegur vegakostnaður, eins og þarna virðist eiga að vera. Jeg get þess vegna ekki orðið við ósk hv. þm. um að taka till. aftur. Hún verður að sæta þeim örlögum, sem hennar bíða við atkvgr. Jeg hlýt að fylgja henni, af því að jeg tel hana rjettmæta. Að öðru leyti skal jeg ekki tefja fyrir atkvgr. og þeim, sem eiga eftir að tala, og býst ekki við, að jeg þurfi aftur að biðja um orðið.