12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

21. mál, fjárlög 1928

Jón Ólafsson:

Hv. 1. þm. S.-M. gaf mjer ástæðu til að segja nokkur orð. Auðvitað legg jeg ekki svo mikið upp úr því, sem hann sagði um misskilning minn á þessu atriði hjá hv. sjútvn., því að nefndin hefir ekki skýrt þetta í till. sínum, heldur falið framsögumanni sínum að flytja hugsunina, sem lá á bak við. Jeg skrifaði ýmislegt niður af því, sem hv. frsm. (SvÓ) sagði hjer í gær, og hafði það alveg rjett eftir. Hann sagði það berum orðum, að þetta væri með stuðningi og með tilliti til þess fjelagsskapar, sem stofnaður er nú hjer í bænum, að lagt er til að veita þessar 12 þús. krónur. Mjer þykir gott að heyra, að það er aðeins hv. frsm., sem hefir skilið þetta svona, svo að jeg hefi ekki ástæðu til að fara um það fleiri orðum.

Mjer þykir leiðinlegt, að hv. frsm. hefir ekki heyrt það, sem var aðalatriðið í því, sem jeg sagði, — að mjer hefði þótt hv. sjútvn. búta þetta nokkuð mikið í sundur. Jeg er hræddur um, að það komi ekki að þeim notum, sem nefndin ætlast til. Jeg þarf ekki að leiða mörg rök að þessu. Það er kunnugt, að okkur er gjarnast til að ká í mörgu og gera ekkert til hlítar.

Hv. þm. Ak. talaði einmitt um þennan 2. lið, 10 þús. til að leita fyrir um síldarmarkaði. Jeg tek hans svör góð og gild að því leyti, sem hann gaf hálfgert fyrirheit um, að bak við lægi að mynda fjelagsskap, sem hefði ekki mann í öðrum löndum aðeins til að skrifa um vörurnar, en hefði ekki ráð á að bjóða þær þeim mönnum, sem lesa hans góðu skrif. Jeg tók það frekar sem lofun frá hv. þm. Ak. (BL), að þessi maður væri ekki látinn stranda á sama skerinu og margir aðrir, sem hafa átt að útbreiða ísl. afurðir.

Ekki mintist hv. frsm. á þessi 8 þús., sem hann sagði í framsöguræðu sinni, að ættu að fara til markaðsleitar í Portúgal. Jeg taldi það mega gjarnan bíða, þar sem við höfum reynt þennan markað um mörg ár.

Fleira þarf jeg víst ekki að taka fram viðvíkjandi því, sem hv. frsm. sagði. Hann fór sem sagt heldur undan í þessum atriðum og hefir sennilega ekki talað algerlega fyrir munn nefndarinnar.

Þá mintist hv. þm. líka á fjárveitingu til vegagerðar í Vestmannaeyjum. Honum þótti lítið ræktað þar, — ekki nema 108 hektarar — , og er það rjett. Meira að segja er nokkuð gamalræktað. En það, sem búið er að rækta, það er meðfram þessum vegi, sem er. Er búið að rækta þá skækla upp, en eftir er það 200 hektara svæði, sem vegurinn á að liggja í gegn um. Það er algerlega óaðgengilegt til ræktunar, ef vegur verður ekki þar lagður. Nú vildi hv. þm. meina, að þessi vegur væri ekki eins langur og getið var um, — 6 km. eða rúmlega það. Mjer er sagt, að það liggi fyrir upplýsingar um það frá síðasta þingi, þegar þessi fjárveiting var til umræðu, og jeg get ekki gert ráð fyrir, að það hafi breyst. En það má aðeins athugast, að stykkið, sem hann á að liggja gegnum, er milli Helgafells og Stórhöfða, og verður að vera æði mikill olnbogi á veginum, sem liggur gegnum stykkið niður að sjó austanvert á eynni. Jeg er kunnugur þarna, og jeg tel það áreiðanlega rjett, að styttri megi vegalengdin ekki vera gegnum þetta ræktanlega landsvæði.

Það getur engum dulist, að þótt ræktaðir verði hjer um bil 300 ha. á eynni, þá muni samt sem áður þurfa að flytja inn æði mikinn heyfeng, sem sennilega yrði þá frá meginlandinu; því að jeg geri ekki ráð fyrir, að hv. 1. þm. S.-M. vilji láta flytja inn útlent hey, og er jeg honum þar alveg sammála. Jeg tel vafasamt, að það sje rjett. En það á þá ekki að setja fót fyrir þá, sem vilja rækta landið.

Úr því að hv. þm. kom mjer til að standa upp, og úr því að hv. 2. þm. Reykv. er ekki hjer, vildi jeg minnast ofurlítið á tvær sjálfstæðar brtt., sem hann á hjer á þskj. 336. Og það er þá fyrst brtt. undir tölulið XXX, um 7500 kr. til Verslunarskóla Íslands. Það er kunnugt, að skóli þessi hefir átt erfitt uppdráttar. Hann hefir þurft að lifa á bónbjörgum og leita á náðir þeirra, sem góðfúslega vildu styðja hann. En nú er allhart í ári, og menn horfa í skildinginn, og er því skiljanlegt, að slíkur skóli, sem þannig fær fje sitt hjer og þar, eigi erfitt með að ná í nægilega fjárupphæð til þess að halda sjer uppi. Af þessum ástæðum hefir þetta verið borið fram og í von um, að háttv. Alþingi liti sanngjarnlega á málið.

Þá er önnur brtt. við 16. gr. 35, nýr liður um styrk til Verslunarráðs Íslands upp í kostnað við símskeytasendingar. Hv. fjvn. hefir, að jeg hygg, haft umsókn frá Verslunarráðinu um þetta, og einnig stóð þessi liður í fjárlagafrv. því, er lagt var fyrir þingið. En í meðferð málsins hefir það farið svo, að öðrum manni hefir verið veittur þessi styrkur til þess að kynna sjer fyrirkomulag erlendra kaupþinga. Virðist hv. fjvn. hafa tekið til þeirra ráða að fella niður fjárveitingu, sem staðið hefir undanfarin ár, um styrk til Verslunarráðsins til þess að annast upplýsingar um vöruverð erlendis með símskeytum, og fært hann yfir á þennan mann. Jeg er ekki í vafa um, að kaupmannastjettin og allir þeir, er notað hafa upplýsingar Verslunarráðsins, telji það tjón mikið, að nefndin skuli hafa kipt burt þessum styrk og veitt hann þessum manni til þess að kynna sjer fyrirkomulag kaupþinga. Jeg er í raun og veru hissa á því, að hv. fjvn. skuli hafa gert þetta, því að henni má vera það ljóst, að það er ekki eins mikil þörf á þekkingu þeirri, sem þessi maður á að afla sjer, og á því að útvega áreiðanlegar markaðsfrjettir. En það hefir Verslunarráðið gert. Jeg mundi helst óska, að nefndin sæi sjer fært að sinna báðum póstunum og gæti mælt með því, að Verslunarráðið fengi þessar 2000 kr. til þess að afla upplýsinga í verslunarsökum. — Jeg geri ráð fyrir, að hv. 2. þm. Reykv. (MJ) hafi af þessum ástæðum borið fram þessar brtt. Annars sje jeg ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta. Jeg hefi aðeins skýrt frá því, að það komi sjer bagalega fyrir marga að geta ekki átt von eða heimting á upplýsingum frá Verslunarráðinu um vöruverð o. fl. þar að lútandi.