12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1134 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

21. mál, fjárlög 1928

Ólafur Thors:

Jeg á eina brtt. við þennan kafla fjárlagafrv. Stendur hún undir tölulið LXXIV á þskj. 336 og er um það að veita Gerðahreppi uppgjöf vaxta 1927–1928 og greiðslufrest afborgana 1926–1928. Mjer höfðu borist mörg tilmæli um flutning brtt., en jeg varð illa við öllum slíkum beiðnum nema þessari og hefi þó skamtað hjer smátt, því að farið var fram á algera uppgjöf á hallærisláninu, 40 þús. kr. Jeg sá mjer ekki fært að fara fram á það við háttv. Alþingi, en hefi flutt brtt. eins og hún liggur fyrir, af brýnni nauðsyn. Hreppur þessi er mjög illa stæður fjárhagslega. Stafar það meðal annars af því, að þegar skift var hinum svokallaða Rosmhvalaneshreppi, þá varð Gerðahreppur útundan og var skilinn eftir hafnlaus. Af því leiddi, að sá atvinnurekstur, sem aðallega er bundinn við hafnirnar, fjell hinum hluta hreppsins að mestu leyti. Svo er ástatt í Gerðahreppi, að þar eru 206 menn á aldrinum frá 16 til 60 ára, en af þeim eru aðeins 93 vinnandi karlmenn. Ómegðin er mikil, 175 börn og 65 gamalmenni, auk 22 barna og 3 gamalmenna, sem hreppurinn verður að leggja með annarsstaðar. Við þetta bætist svo mikið aflaleysi undanfarin ár. Jeg vænti því þess, að hv. þdm. skilji, að aðstaða hreppsins er hin erfiðasta. Það er í raun og veru svo, að jeg, sem er allkunnugur hreppsbúum, geri mjer litlar vonir um að hreppurinn geti nokkurntíma staðið í skilum. Þó skal jeg ekki fullyrða það, enda hefi jeg ekki talið það tímabært að fara fram á algera uppgjöf. Það má heita svo, að ekki flytjist til Gerðahrepps nokkur maður, en aftur hafa margir flust þaðan, t. d. fluttust þaðan síðasta ár gjaldendur, sem greitt höfðu á 3. þús. kr. í árlegt útsvar. Einnig má benda á það, að víða annarsstaðar suður með sjó hafa menn sjeð sjer hag í því að rækta landið vegna mjólkursölunnar, en í Gerðahreppi hefir ekki verið unnið eitt dagsverk í seinni tíð, vegna þess hve útsvörin eru þung og skattar og skyldur miklar. Jeg hefi sjeð síðasta efnahagsreikning hreppsins, og eru eignir hans taldar þar 19 þúsund krónur, þar með eru talin tvö barnaskólahús, en skuldirnar aftur á móti 45 þúsund krónur. Ef við tökum efnahag allra hreppsbúa, þá eru eignirnar um 500 þús. kr., en skuldir á 4. hundrað þús. Er þetta óvenju ljelegur efnahagur, og sjerstaklega þegar tekið er tillit til þess, að eignirnar eru reiknaðar út eftir síðasta jarðamati, en ef til sölu kæmi, mundu þær alls ekki ná því matsverði. Jeg vænti svo þess og treysti því, að hv. þdm. sjeu svo sanngjarnir að sjá þessa brýnu þörf og verði við hinni hógværu bón hreppsbúa í þessu efni. Til þess að sýna, hve slæmt ástandið er, skal jeg að endingu geta þess, að hreppurinn hefir verið að stritast við að greiða vexti, og nú síðast í haust, er vextirnir voru greiddir, varð oddvitinn að taka þá peninga úr sínum eigin vasa.

Jeg ætla ekki að gera að umtalsefni margar af þeim brtt., sem hjer liggja fyrir. Jeg sá, mjer til mikillar ánægju, að háttv. 1. þm. Reykv. (JakM) hefir tekið upp till. um styrk til Hrafnkels Einarssonar stúdents. Jeg hefi leitað mjer umsagna um þennan mann og veit, að hann er hinn efnilegasti maður og því vel að styrk kominn. Vona jeg því, að háttv. þm. ljái þessari þörfu fjárveiting atkv. sitt.

Um till. sjútvn., sem háttv. form. nefndarinnar (SvÓ) hefir talað fyrir, skal jeg geta þess, að það var ekki sameiginlegt álit nefndarmanna, að fjenu skyldi varið á þann hátt, sem skilja mátti á ræðu hans. Hann gat þess, að ef samþyktur yrði 12 þús. kr. styrkur til sölutilrauna í Suður-Ameríku, þá væri tilgangurinn sá, að fje þetta gengi til hins nýstofnaða fjelags togaraeigenda. En nefndin var þó ekki samhuga um það. Meiri hluti hennar vildi leggja þetta á vald atvinnumálaráðherra. Sama er að segja um 10 þús. kr. styrkinn til síldarsölutilrauna í Mið-Evrópu. Nefndin hefir auðvitað bent á einn ákveðinn mann, en þó er ekkert því til fyrirstöðu, að öðrum jafnhæfum eða kannske hæfari manni, sem um þetta kynni að sækja, yrði veitt það. Jeg sje ástæðu til þess að geta þessa, ef það eru einhverjir hv. þm., sem vilja veita styrki þessa, en ekki þeim aðiljum, er háttv. form. sjútvn. gat um. Þeim til leiðbeiningar vil jeg geta þess, að meiri hluti sjútvn. telur rjett, að atvrh. hafi úrskurðarvaldið í þessu efni.