12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í B-deild Alþingistíðinda. (1137)

21. mál, fjárlög 1928

Hjeðinn Valdimarsson:

Með þessari brtt. ætlaði jeg aðeins að setja styrkinn til Þórbergs Þórðarsonar í sama horf og áður var, en hæstv. stjórn hefir í frv. sínu til fjárlaga fært hann niður um 200 kr., að því er virðist að ástæðulausu. En úr því, sem komið er, tjáir ekki um að tala.

Háttv. fjvn. hefir fallist á að veita Sjúkrasamlagi Reykjavíkur 1500 kr. styrk. Það álít jeg alt of lítið, og höfum við flm. farið fram á 2000 kr. í aðaltill., en til vara 1500 kr., verði hærri upphæðin ekki samþykt.

Brtt. á þskj. 336, XXXV, um kaup á listaverkum, veldur engum fjárútlátum, heldur er þar aðeins um færslu að ræða. Málverkasafn ríkisins heyrir undir þjóðmenjavörð sem kunnugt er, og því þætti mjer rjett, að hann annaðist einnig kaup á málverkum og öðrum listaverkum, og sje þá fjárveiting í því skyni bundin við Þjóðmenjasafnið. Vænti jeg þess, að brtt. valdi ekki ágreiningi og verði samþykt.