12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í B-deild Alþingistíðinda. (1141)

21. mál, fjárlög 1928

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg þarf að segja nokkur orð enn, út af skeytum, sem beint hefir verið til fjvn. síðan jeg talaði síðast.

Var þar fyrstur hv. þm. Ak. (BL), og voru það tvö atriði, sem hann beindi til nefndarinnar út af húsmæðraskóla í Eyjafirði. Hv. þm. játaði, að staðurinn væri ekki ákveðinn og engin áætlun til, og sýnir þetta, að málið er ekki fullundirbúið. Hinsvegar hjelt háttv. þm. því fram, að það væri ekki Alþingi samboðið að standa ekki við gefin loforð í þessu efni. Þetta er alveg rjett, en ef Alþingi og fjvn. eiga að efna sín loforð, þá eiga hlutaðeigendur að koma til fjvn. með sín gögn, en þeir hafa ekki talað eitt orð við fjvn. um málið. Hv. þm. kom þá fyrst fram með þetta, er það kom til orða að stofna húsmæðradeild við skóla í öðru bygðarlagi.

Hv. þm. sagði, að meðan verið var að reisa heilsuhælið, hefðu konur nyrðra orðið ásáttar um að láta skólann bíða. Í sambandi við það vil jeg geta þess, að fjárveitingum til þess er ekki enn lokið, og nú ætlast fjvn. til, að veittar verði enn 56 þús. kr. til hælisins. — Vitanlega er það rjett, að þetta hæli er ekki eingöngu fyrir Eyjafjörð, heldur alt Norðurland.

Þá hafa fallið hjer orð um það, að fjvn. hafi ekki tekið fult tillit til hv. sjútvn. og sýnt þar hlutdrægni.

Jeg verð að segja það, að ef mjer fyndust þessar ásakanir á rökum bygðar, þá þætti mjer mikið fyrir, einkum vegna þess, að hv. þm. Ísaf. og hv. þm. Ak. beindu því að mjer og öðrum í fjvn., að við hefðum verið kröfuharðir fyrir landbúnaðinn, en ekki viljað sinna sjálfsögðum kröfum hv. sjútvn. fyrir sjávarútveginn.

En jeg hygg, að við höfum allir haft fylsta vilja á því að sinna rökstuddum kröfum frá sjútvn., einkum á þeim krepputímum sjávarútvegsins, sem nú standa yfir. En það, hvernig fjvn. hefir snúist við sumum till. hv. sjútvn., stafar af því, að henni hefir ekki þótt svo vel frá þeim gengið, sem skyldi. — Jeg gat ekki skilið hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) öðruvísi en svo, að hann legði á móti till. sjútvn. og kallaði þær fálm og vetlingatök. Ef jeg hefi misskilið ræðu hans, þá bið jeg afsökunar, en það voru fleiri en jeg, sem ekki gátu skilið hann öðruvísi en svo, að það andaði kalt frá honum í garð sjútvn. Jeg vil benda á það til dæmis, í sambandi við 2. liðinn í till. sjútvn. um markað fyrir síld, að það er ekki til að mæla með. Fyrst var það þannig flutt fyrir fjvn., að ekki dygði minna en 30 þús. kr., það væri ekkert gagn í minna, en við þá mótspyrnu, sem það mætti, var undir eins búið að slá þessu niður í 10 þús. kr., og eftir orðum hv. 3. þm. Reykv. um árangur slíkra ferða, gat jeg ekki gert mjer nema litla von um árangur.

Það er því ekki sprottið af neinum kala hjá fjvn. til sjútvn., að hún hefir ekki getað fallist á þessa till., heldur er ástæðan sú, að sjútvn. hefir ekki getað sannfært fjvn. um nauðsyn eða gagnsemi slíkrar fjárveitingar.

En fjárlagafrv. á eftir að koma aftur hingað til þessarar hv. deildar, að því er telja má víst, og takist hv. sjútvn. að sannfæra fjvn. um, að hjer sje um rökstudda nauðsynjatill. að ræða, þá mun fjvn. geta fallist á hana.

Jeg vil geta þess, út af ræðu háttv. þm. Ísaf., þar sem hann hjelt því fram, að sjávarútvegurinn væri hornreka fjvn., að einn maður í fjvn. hefir hripað upp þá pósta í fjárlagafrv., sem eru til sjávarútvegsins, og nema þeir 1/2 milj. kr.

Auk þess má benda á fleira, sem beint eða óbeint styður sjávarútveginn. T. d. liggur nú fyrir hv. Ed. frv. um 100 þús. kr. fjárveitingu til hafnarbóta í einum kaupstað landsins.

Jeg vil lýsa því yfir fyrir hönd fjvn., að hún vill alls ekki stofna til neins slíks metings milli atvinnuveganna, sem hjer virðist vera á ferðinni.

Hv. 3. þm. Reykv. vjek aftur stuttlega að till. um fjárveitingu til Verslunarráðsins. Í sambandi við hana vil jeg minna á það, að ef Verslunarráðið hefði heldur viljað till. hv. þm. en þá, sem samþ. var við 2. umr., þá hefði það haft nógan tíma til að segja til um það áður en atkvæði gengu við 2. umr.

Að lokum vil jeg segja það, út af því, sem hv. þm. Ísaf. dró fram um hug fjvn., að henni væri kærara að veita fje til landbúnaðar en sjávarútvegs, að fjvn. hefir tekið vel till. hins elsta útgerðarmanns þessarar háttv. deildar, hv. 3. þm. Reykv., um styrk til fjelagsins „Landnáms“. Fjelagið „Landnám“ starfar einmitt ekki úti um land, heldur í kauptúnum við sjávarsíðuna, einmitt til þess að hjálpa sjómönnum, skapa þeim aðstöðu til þess að hafa landbúnað við hliðina og stuðla að því, að þeir geti haft farsælli aðstöðu í lífsbaráttunni.

Hv. þm. Dal. (JG) var óánægður með það, að fjvn. hefði dauðadæmt allar till. einstakra deildarmanna, en hinsvegar hefðu deildarmenn tekið vol í allar till. fjvn.

Þetta er ekki nema eðlilegt, því að það er nú svo, að það, sem gengur í gegnum sigti fjvn., það á að jafnaði mestan rjett á sjer. Það er því ekki nema eðlilegt, að meira sje samþykt af till. fjvn. en einstakra deildarmanna.

Hv. þm. Mýr. (PÞ) vó í sama knjerunn og áður um Vestmannaeyjaveginn. Það lá fyrir áætlun um veginn í fyrra, sem vegamálastjóri hafði gert, og þá áætlun er ekki ástæða til að vjefengja.