12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í B-deild Alþingistíðinda. (1145)

21. mál, fjárlög 1928

Halldór Stefánsson:

Jeg skal stuttlega víkja að andmælum háttv. frsm. gegn till. okkar hv. 1. þm. S.-M., um að fella niður framlag til vegagerðar í Vestmannaeyjum. Hann talaði um það af miklum fjálgleik, hve öll skilyrði væru þar upplögð til lands og sjávar. Ef draga má ályktanir á þá leið, að því betri sem skilyrðin eru, því fremur beri að veita fje, þá er sjálfsagt að veita þetta. En það skýtur bara dálítið skökku við það, sem venjulega er talið fram sem ástæður, þegar ákveðin eru framlög úr ríkissjóði. Að öðru leyti skal jeg ekki fjölyrða um þetta, því að hv. 1. þm. S.-M. hefir þegar svarað.

Þá skal jeg víkja að Öðru atriði. Hv. þm. Ak. og hv. þm. Ísaf. hafa farið í samanburð og meting út af fjárframlögum úr ríkissjóði til landbúnaðar og sjávarútvegs. Hv. frsm. svaraði og benti á, að ekki óverulegar upphæðir hefðu farið til sjávarútvegsins, og nefndi tölur því til sönnunar. Jeg skal ekki fara út í neinn tölusamanburð nje heldur ræðu hv. þm. Ísaf. En hv. þm. Ak. komst svo að orði, að fje væri ausið í bœndur, svo að skifti hundruðum þúsunda, og nefndi þar til framlagið eftir jarðræktarlögunum, en alt væri talið eftir til sjávarútvegsins, hvað lítið sem væri.

Það hefir áður verið bent á, að í raun og veru er ekki lítið lagt fram til sjávarútvegsins, en um það ætla jeg ekki að metast. En orðalag hv. þm. þykir mjer einkennilegt. Hann ber saman stjett og atvinnuveg. Jeg hygg, að ef Alþingi hefði hugsað á sama hátt og hv. þm., þá hefði það sjálfsagt aldrei verið jafnörlátt í fjárframlögum til landbúnaðar og raun er á. Nei, Alþingi er víðsýnna en hv. þm. Það lítur ekki á framlög til landbúnaðarins eins og persónulegan styrk eða stjettarstyrk, heldur sem framlag til annars aðalatvinnuvegar þjóðarinnar til þess að efla hann og halda við jafnvægi í þjóðlífi voru. Alþingi skilur og veit sem er, að atvinnuvegirnir eru fjöregg þjóðarinnar, sem viðheldur hennar lífi.

Að lokum vil jeg taka það fram, að ef Alþingi vill fallast á hugsanagang hv. þm. Ak. (BL) og lítur á framlög til landbúnaðarins eins og persónulega styrki eða stjettarstyrk, þá krefst jeg þess, að hver einasta fjárveiting til landbúnaðarins verði feld niður.