12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í B-deild Alþingistíðinda. (1146)

21. mál, fjárlög 1928

Ingólfur Bjarnarson:

* Jeg vildi aðeins mótmæla rakalausum áburði hv. þm. Ak. (BL) viðvíkjandi undirbúningi húsmæðraskólans. Hann sagði, að undirbúningur væri ónógur og yfirleitt væri óheilt málið. Það er búið að skýra það áður, en jeg vil benda á það að nýju, að fyrir hv. deild liggur glögg áætlun um kostnaðinn og uppdráttur af húsinu. Auk þess er fje til, sumpart handbært og sumpart í loforðum. Jeg held því, að það megi telja á engum rökum bygt, sem háttv. þm. Ak. kastaði fram.

Háttv. þm. mintist á, að hann áliti samvinnu vera milli kvenna í Þingeyjarsýslu og Eyjafjarðarsýslu um húsmæðraskólann. Það er alveg rjett, að upphaflega var samvinna milli þessara kvenna. Eins og jeg hefi getið um, hafa konur í Þingeyjarsýslu í síðustu 20 árin verið að undirbúa þetta mál, framan af í samvinnu við konur í Eyjafjarðarsýslu. En þegar því fjekst ekki framgengt, að skólinn væri hafður í sveit, slitnaði upp úr þeirri samvinnu. Þingeyskar konur voru því ekkert mótfallnar að hafa skólann í Eyjafirði, ef hann væri í sveit, en á Akureyri vildu þær ekki hafa hann. Þessum deilum lauk þannig, að skóli skyldi reistur í útjaðri Akureyrarbæjar, í landareign bæjarins, og þess vegna urðu þingeyskar konur að hverfa frá allri samvinnu við konur í Eyjafirði og hefja undirbúning málsins heima í sínu eigin hjeraði.

Þetta vildi jeg upplýsa og um leið mótmæla dylgjum hv. þm. Ak., bæði um þetta mál og Laugaskólann.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.