12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

21. mál, fjárlög 1928

Pjetur Ottesen:

Jeg skal ekki fara langt út í að ræða fjárlagafrv. Það eru aðeins örfá atriði, sem hjer hefir verið deilt um, og þá sjerstaklega tillögur hv. sjútvn., sem jeg vildi minnast á nokkrum orðum. En jeg skal taka það fram, að það er ekki af hlífð við hv. frsm. fjvn., að jeg geri þetta, heldur af því, að umræðurnar um þessi atriði hafa verið þannig almenns eðlis, að ekki er einum frekar en öðrum í fjárveitinganefnd skylt að svara þeim.

Því hefir verið beint til fjárveitinganefndar af sjávarútvegsnefndarmönnum og raunar fleirum, að fjvn. hafi verið yfirleitt harðleikin gagnvart þeim brtt., sem fram hafa komið, en einkum þó frá sjávarútvegsnefnd. Jeg vil benda hv. þm. á, hvert er hlutverk fjvn. Það er hvorttveggja í senn, að meta gildi hverrar tillögu um fjárframlög úr ríkissjóði og að gæta varúðar um afgreiðslu fjárlaganna, þannig að trygt og örugt sje, að ekki verði halli á ríkisbúskapnum. Sakir standa nú þannig, að tekjuhlið fjárlaganna verður ekki mikið um þokað, síst til hækkunar. Það leiðir því af sjálfu sjer, að þegar önnur eins ógrynni af útgjaldatillögum koma fram eins og nú hefir átt sjer stað að þessu sinni, þó það keyri nú alveg um þvert bak við þessa 3. umr. fjárlagfrv., þá verður nefndin að beita því eina ráði, sem fyrir hendi er, til þess að stuðla að gætilegri afgreiðslu fjárlaganna, sem sje því, að standa svo sem kostur er á móti því, að hlaðið sje útgjöldum í fjárlagafrv. fram yfir það, sem líkur eru til, að tekjur ríkissjóðs muni hrökkva til að greiða á því ári. Það er einmitt með þetta fyrir augum og af þessum ástæðum, sem fjvn. hefir neyðst til að beita sjer á móti ýmsum till., sem færa má allgildar ástæður fyrir, að mættu verða að gagni. Í þessu ljósi verða menn því að skoða afstöðu nefndinnar til ýmsra tillagna.

Hvað snertir till. háttv. sjútvn. um hækkun á framlagi til markaðsleitar, þá hefir því verið haldið fram af hálfu hv. sjútvn., að það væri ekki rjett hjá hv. frsm. fjvn. (TrÞ), að undirbúningur þessa máls væri ekki eins og skyldi. Hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) reyndi að hrekja röksemdir hv. frsm., og skal jeg nú víkja ofurlítið að þessari hlið málsins.

Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem farið er fram á fjárveitingu til markaðsleitar erlendis. Jeg held það hafi verið árið 1922, að Pjetur Ólafsson konsúll var sendur til Suður-Ameríku. För hans kostaði mikið fje. Pjetur Ólafsson lagði fram langar og nákvæmar skýrslur um möguleika fyrir markaði þar suður frá og gerði yfirleitt grein fyrir för sinni, eins og hann hafði best tök á. En jeg hygg nú samt, að nauðalítill eða enginn árangur hafi orðið af þeirri för. Talsvert hefir verið skrifað um þetta, og nokkrum sinnum hafa birst blaðagreinir frá Pjetri Ólafssyni, þar sem hann heldur því fram, að útflytjendur hjer sjeu tómlátir um að færa sjer í nyt þær upplýsingar, sem hann hafi aflað um möguleika fyrir markaði í Suður-Ameríku. Jeg veit ekki um það, hvort Pjetur Ólafsson er sjálfur fiskútflytjandi, en sje svo, þá er mjer ekki kunnugt um, að hann hafi sent fisk á þennan markað í Suður-Ameríku. Fiskútflytjendur halda því aftur á móti fram, að ekki sje nægilegt að senda mann þannig skyndiför, heldur væri nauðsynlegt að hafa mann, sem hefði fast aðsetur þar suður frá og altaf hefði nægar birgðir af saltfiski til sýnis og ljeti einskis ófreistað til að kynna hann fiskneytendum þar. Jeg skal viðurkenna, að það væri sýnu nær, að hægt væri að ná árangri á þessum grundvelli en að senda mann á svipaðan hátt og áður hefir verið gert, og mun það nú vera tilætlun háttv. sjútvn. að stofna til sendiferðar á þessum grundvelli, og skal það þá, fyrst svo er, fullkomlega viðurkent, að að þessu leyti er málið betur undirbúið en þegar Pjetur Ólafsson var sendur.

Um hina till. hv. sjútvn., um að veita 10 þús. kr. til eftirgrenslunar um síldarmarkað, ætla jeg að færa rök að, að þar skortir mikið á góðan undirbúning af hálfu háttv. sjútvn. (ÓTh: Það skal verða afsannað!). Já, hv. 2. þm. G.-K. segir, að það skuli verða afsannað. Við sjáum hvað setur. Tvisvar hafa verið gerðir út menn á kostnað hins opinbera til þess að kanna síldarmarkaði. Pjetur Ólafsson var sendur til Eystrasaltslandanna fyrir nokkrum árum. Hann gaf út skýrslu um för sína, en eftir henni virðist ekki mega álíta, að þarna hafi verið um neina verulega möguleika að ræða, enda varð árangur enginn. Björn Ólafsson heildsali hjer í bæ var á síðastl. ári síðan sendur á þessar sömu slóðir. Hann hefir líka lagt fram miklar skýrslur um sitt ferðalag, án þess þó að sýnilegt sje, að það ferðalag hafi borið nokkurn minsta árangur. Hvort þetta liggur í því, að svona miklum vandkvæðum sje bundið að finna markaði þarna, eða að ekki sje farin sú rjetta leið til þess að opna markaði á þessum stöðum, skal jeg ekki um dæma að svo stöddu.

Ennþá hefir ekkert komið í ljós af tillögum hv. sjútvn. um, að þessi fyrirhugaða sendiför verði öðruvísi en hinar. Miklu frekar er ástæða til að ætla, að hjer eigi að stofna til sendifarar á sama hátt, og því er ekki hægt að gera sjer neinar vonir um, að slík för nú frekar en áður beri nokkurn minsta árangur. Það er sama fálmið og áður.

Jeg skal ekki leyna því, enda er ekki leynt með það farið af hálfu þeirra, sem í hlut eiga, að ákveðinn maður er hafður í huga, þegar talað er um þessa fyrirhuguðu sendiför. Það er Ottó Tulinius síldarútvegsmaður, nú búsettur í Kaupmannahöfn. Annaðhvort hefir þessi maður, sem undanfarið hefir verið að agitera í þingmönnum, boðið liðsinni sitt til þessarar markaðsleitar, eða þá að einhverjir hafa farið fram á þetta við hann. Mjer er kunnugt um, að hann þóttist upphaflega þurfa að fá 30 þúsund kr. til þessarar markaðsleitar; fyrir minni upphæð bjóst hann ekki við að hægt væri að gera neitt verulegt. En svo var farið að slá af kröfunum. Háttv. sjútvn. hefir upphaflega hugsað sjer, að hann fengi 15 þúsund krónur, og skrifað fjvn. um það. Í brjefinu kemur skýrt fram, að nefndin hefir Ottó Tulinius beinlínis í huga. Þar stendur m. a.:

„Nefndin lýsir því jafnframt yfir, að hún álítur Ottó Tulinius vel til starfans að útfærslu síldarmarkaðsins fallinn“ o. s. frv.

Þetta er fullkomin bending um það, að þó að styrkurinn sje ekki veittur á nafn, þá sje það þessi ákveðni maður, sem eigi að reka þetta erindi og fá styrkinn. Jeg er ekki að lasta þetta út af fyrir sig, því að hv. frsm. sjútvn. (SvÓ) tók það einmitt skýrt fram í dag, að hann áliti þennan mann best til fararinnar fallinn, og jeg geng út frá, að hann hafi þar talað í nafni nefndarinnar. Að minsta kosti ber að líta þannig á, þegar framsömumenn tala í nafni heillar nefndar og láta ekki annars sjerstaklega getið. Jeg ætla, að það megi ráða af fenginni reynslu, að gagnlaust muni reynast með öllu að fara nú að verja fje til að grenslast eftir um síldarmarkaði með sama hætti og áður hefir verið. Þetta mundi því nánast verða einhver styrkur handa þessum ákveðna manni, en á þeim grundvelli vill nefndin ekki veita þessa fjárupphæð, þótt það að nafninu til heiti til markaðsleitar.

Þá mintist hv. 2. þm. G.-K. á aðra tillögu sjútvn., sem liggur ekki hjer fyrir, sem sje till. um radiovitana. Hann áfeldi fjvn. mikið fyrir, hvernig hún hefði tekið í þá tillögu, og sagði, að hún hefði verið lögð þannig fyrir nefndina, að enginn vafi þyrfti að leika á því, að hún væri vel undirbúin. Síðan las hann nokkur orð úr skjali frá vitamálastjóra. Jeg vil benda á, að í fjárlagafrv. stjórnarinnar er ekki gert ráð fyrir neinu fjárframlagi til radiovita. Annaðhvort hefir tillaga um fjárframlag til radiovita ekki verið lögð fyrir hæstv. stjórn, eða að hún hefir ekki viljað sinna þeirri tillögu. En hafi tillaga þessa efnis verið lögð fyrir hæstv. stjórn og hún ekki viljað sinna henni, er það af því, að hún álítur málið ekki nægilega undirbúið. Úr því að á annað borð er farið að vitna í skrif og skjöl frá vitamálastjóra, má einnig vitna í samtal við hann. Fjvn. átti sem sje tal við hann um þetta. Þar sem hjer var um nýmæli að ræða, fanst nefndinni það viðeigandi, en af því samtali varð nefndin þess vísari um þessa radiovita, að þeir væru alveg á frumstigi, og því fullkomin ástæða til þess að gana ekki út í miklar framkvæmdir, sem svo gætu orðið ónýtar við skyndilega breytingu, það er nýjar umbætur, eins og oft á sjer stað, ekki síst á þessu sviði. Að þessu athuguðu var það, að fjvn. sá sjer ekki fært, — og bygði hún það meðal annars á ummælum vitamálastjóra —, að ganga eins langt og sjútvn. lagði til, að veita fje til 3 slíkra vita.

Einnig höfðu ýmsir nefndarmenn talað um þetta við mikilsmetna skipstjóra hjer, og álit þeirra var á þann veg, að engan veginn væri fyrirsjeð, áð þessi nýjung tæki ekki svo miklum breytingum, að það, sem nú væri framkvæmt, gæti innan skamms orðið að litlu liði eða jafnvel engu. Þessir menn höfðu orð á því, að þeir álitu rjettast að fara ekki lengra í sakirnar en svo, að reisa nú einn eða í hæsta lagi 2 slíka vita. Auk þess er það, að til þess að hafa not af þessum vitum, verða skipin að hafa alldýr áhöld, en slík áhöld eru ekki enn nema í einu eða tveimur skipum af íslenska flotanum. Þetta eru því ástæður fjvn. gegn því að ráðast nú í það að reisa 3 radiovita. Hinsvegar hefir nefndin nú hækkað fjárframlagið til vitabygginga og gengið þannig í áttina til samkomulags við sjávarútvegsnefndina, en fjvn. lætur það óbundið, hvort þessu fje skuli að einhverju leyti varið til byggingar radiovita, eða því verði varið til venjulegra vitabygginga.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. En jeg held, að ástæðulaust sje að bera hjer fram meting um það, hvor aðalatvinnuvegur landsins njóti meiri styrks af opinberu fje; slíkt er áreiðanlega ekki hyggilegt. Það er alkunna, að sjávarútvegurinn hefir tekið skjótari framförum en landbúnaðurinn og stendur því betur að vígi í baráttunni en hann, sem býr enn að miklu leyti við úreltara fyrirkomulag. En þó er það viðurkent, að landbúnaðurinn sje sá hyrningarsteinn, sem þjóðfjelagið hvílir á, enda þótt á þann hátt sje ekki ausið upp jafnmiklu gulli úr skauti náttúrunnar árlega eins og með sjávarútveginum. Þegar því talað er um fjárveitingar til þessara atvinnuvega, verður að líta með fullum skilningi á aðstöðu þeirra. Það dugir ekki að vitna í það eingöngu, hvað hvor þessara atvinnuvega leggur mikið í ríkisfjárhirsluna. Það, sem mjer finst sambærilegast með þessum tveim atvinnuvegum, er ræktun landsins annarsvegar og verndun landhelginnar hinsvegar. Með ræktuninni er verið að auka verðmæti landsins og tryggja afkomu landbúnaðar, en með landhelgisvörnunum er verið að vernda fiskiveiðarnar bæði í nútíð og framtíð. Og það verður ekki með sanni sagt, að fjárveitinganefnd, eins og líka Alþingi alt, hafi ekki sýnt fullan skilning á þörfum beggja atvinnuveganna hvað þetta snertir og viðleitni til þess að verða þeim að liði í þessum mikilsverðu atriðum.