12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (1148)

21. mál, fjárlög 1928

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg býst við, að það sje eins dæmi í fjárlagaumræðum, að farið sje að gera mikinn aðsúg að fjvn., eftir eftir að framsögumaðurinn er „dauður“. En það hefir verið gert hjer af hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh), og það af þjósti miklum. Vildi hann með því láta nefndina fallast á tillögur sínar. Út af þessu vil jeg minna þennan unga þingmann á, að hann á að koma sem fyrst fram með athugasemdir sínar, svo að hann hleypi ekki öllu í bál og brand. Hann á að segja til í tíma, eða þegja síðan. En þökk sje háttv. þm. Borgf. (PO) fyrir það, hve myndarlega hann tók í sama strenginn og jeg og gerði grein fyrir afstöðu nefndarinnar, að hún stendur í heild gegn þessum tillögum hv. sjútvn., en ekki jeg einn persónulega.

Ennfremur vil jeg taka það fram, að mjer þykir leitt, að stofnað skuli vera til þess, að farið sje út í meting um fjárveitingar til atvinnuveganna, en það hefir háttv. sjútvn. gert að þessu sinni. Hún hefir ekki aðeins farið út í meting um fjárveitingarnar, heldur gert almennan samanburð. Ef ekki væri komið fram á nótt, þá myndi ekki standa á mjer að fara út í samanburð um það, hvor þessara tveggja aðalatvinnuvega legði meira til þjóðarbúsins. Og jeg er ekki í neinum vafa um, hvernig sá samanburður myndi verða.

Þá vildi hv. þm. (ÓTh) neita því, að við í fjvn. hefðum rjett til að álíta, að till. sjútvn. væru ekki vel hugsaðar. Þessu hefir hv. þm. Borgf. svarað og sýnt fram á hið gagnstæða. Þá vitnaði hann í vitamálastjórann og taldi sjútvn. ekki standa á ótraustum grundvelli, þar sem hún bygði á till. hans. En þar er jeg ekki á sömu skoðun. Jeg tel þann grundvöll ekki svo traustan, að hann geti ekki bifast. Og til dæmis um það, hve traustur grundvöllur vitamálastjórinn er, má geta þess, að þegar hann var spurður um Hornstrandavitann á fundi fjvn., vissi hann einu sinni ekki hvoru megin við Hornbjarg vitinn átti að standa. Ennfremur má geta þess, að vitamálastjórinn átti tal um vitana við fleiri en hv. sjútvn. Hann átti líka tal við fjvn., og munu þeir hafa verið fleiri en jeg, sem kváðu upp þann dóm eftir það samtal, að till. hans um vitamálin yfirleitt væru að minsta kosti ekki í björtu vitaljósi, og þá sjerstaklega að því er snerti radiovitana.

Þá sýndi hv. þm. Borgf. (PO) sömuleiðis fram á það, hversu mjög till. hv. sjútvn. um sendimennina til markaðsleita væru reistar á ótraustum grundvelli, og um þriðja liðinn, sendimanninn til Portúgals, virtist svo, sem hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) væri ekki meira en svo trúaður á hann, því að ekki var hægt að skilja ummæli hans á annan veg en að hann teldi sendimanninn á Spáni geta annast það, sem gera væri í þessum efnum þar.

Að endingu vil jeg vísa því frá fjvn., að hún vilji ekki sinna sanngjörnum kröfum, og jafnframt beina því til hv. sjútvn. að athuga sínar till. betur og helst að taka þær aftur nú og koma með þær síðar. Munu þær þá mæta velvild fjvn., ef sanngjarnar eru og vel undirbúnar. Annars er það hálf óviðkunnanlegt af hálfu hv. formanns sjútvn. að ráðast á fjvn. fyrir það að vilja bæta lífskilyrði þeirra, sem við sjóinn búa. Finst mjer það ekki í samræmi við verk nefndarinnar.

Vil jeg svo endurtaka það, sem jeg sagði fyrst, að mjer finst fullkomlega óviðeigandi og óvanalegt að vera að ráðast á fjvn., þegar framsögumaðurinn er „dauður“.