01.03.1927
Efri deild: 17. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

1. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Allshn. hefir nú komið fram með nokkrar breytingar við 25. gr. frv. Við 2. umr. kom það í ljós, að sumum hv. þdm. þótti einna lakast, hvað frestir þeir, er frvgr. ræðir um, væru stuttir. Nefndinni var ljóst, að þeir væru í stysta lagi, og ljet þess þá getið. Hefir hún nú hallast að því, sem hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) benti á, að nokkuð mætti rýmka til með því að hætta við það skilyrði, að reikningarnir lægju frammi vissan tíma, hreppsbúum til sýnis. Þessi brtt. nefndarinnar á þskj. 71 fer fram á þá breytingu.

Þá vill nefndin gera þá breytingu, að í stað þess að hreppsnefnd hefir nú kosið mann annaðhvort innan nefndar eða utan til þess að endurskoða reikningana, þá sje sá maður kosinn af hreppsbúum á hausthreppaskilum. Það er þægilegast að kjósa manninn á einhverjum þeim fundi, sem haldinn er hvort sem er.

Ef þessar till. nefndarinnar verða samþ., þá vinst það, að fresturinn, sem endurskoðendur hafa til þess að athuga reikningana, lengist um 5 daga, eftir b.-lið brtt., og sömuleiðis hinn fresturinn, að í staðinn fyrir að senda oddvita sýslunefndar reikningana fyrir 15. febr., verði það 10. febr. Svo að hvor þessara fresta lengist um 5 daga. Og það finst mjer nægileg rýmkun.

Jeg hygg jeg hafi getið um það við síðustu umr., að jeg teldi engu verulegu slept, þótt allir hreppsbúar ættu ekki aðgang að reikningunum. Þótt einstöku maður líti á þá, er það samt mjög óalment. Mjer finst ,það gæti komið í þess stað, að allir hreppsbúar kysu endurskoðanda. Tækju þeir að sjálfsögðu þann mann, sem þeir treystu vel til að sjá, ef eitthvað væri athugavert við reikningana eða meðferð nefndarinnar á fjármálum sveitarinnar.

Svo eru komnar brtt. frá hv. 1. þm. S.-M. (IP). Fyrri till. miðar að því að fella niður það ákvæði, að atkvæði oddvita ráði, ef atkv. eru jöfn. Þetta ákvæði, sem lengi er búið að standa, ætlar háttv. þm. (IP) að fella niður, en ætlar hinsvegar ekki að meinast við því, að samskonar ákvæði komist inn í lögin um sýslunefndaroddvita. Jeg býst við, að nefndin haldi sig við sína skoðun, að vilja láta þetta ákvæði standa áfram í frv. Annars hefi jeg ekki haft tíma til að bera mig saman við nefndina um brtt., því að þær komu ekki fyr en nú á síðustu stundu. En jeg þori að slá því föstu fyrir hönd nefndarinnar, að hún leggur á móti fyrri brtt. Hin virðist mjer ósköp meinlaus, og ef til vill til bóta.