12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1195 í B-deild Alþingistíðinda. (1151)

21. mál, fjárlög 1928

Hákon Kristófersson:

Úr því að verið er að neyða mann til þess að sitja hjer, þá er ekki hægt að ætlast til, að maður sitji altaf þegjandi. En vel má maður stilla orðum sínum í hóf, til þess að hv. þm. Str. (TrÞ) spretti ekki upp og áminni um að gæta alls velsæmis.

Háttv. þm. Borgf. (PO) mintist á sendiför Pjeturs Ólafssonar og taldi hana engan árangur hafa borið. Þetta og þvílíkt er ekki líkt því, sem þessi háttv. þm. er vanur að sýna hjer í deildinni, hann, sem er vanur að sýna bæði mönnum og málefnum fulla sanngirni. Að ekki sje hægt að benda á neinn sýnilegan árangur af för þessa manns, er ekkert athugavert. Það getur legið í því, að ekki sje hægt að skjalfesta hann. Hv. þm. viðurkendi þó, að P. Ó. hefði lagt fram greinilega skýrslu um för sína. Jeg verð því að álíta, að þau ummæli hv. þm. Borgf., að sendiförin hafi engan árangur borið, hafi við engin rök að styðjast, því að það er ekki hægt að ætlast til þess, hvorki af P. Ó. nje öðrum sendimönnum, sem fara þessara erinda, að þeir geti sagt þegar þeir koma heim, að þeir hafi útvegað ágæta nýja markaði. Slíkt tekur oft fleiri ár. En að gefa nákvæma skýrslu um ferðina, benda á þá staði, sem hugsanlegt er, að nýir markaðir geti myndast, og leiðbeina því viðvíkjandi, er það, sem hægt er að búast við af slíkum sendimönnum. Jeg leyfi mjer því að slá því föstu, að sendiför P. Ó. hafi borið þann árangur, sem vænta mátti.

Að jeg fann ástæðu til þess að taka þetta fram, er sökum þess, að mjer er altaf illa við, þegar fjarstaddir mætir menn eru bornir tortrygni.

Þá mintist þessi háttv. þm. á krit þann, sem orðið hefir á milli hv. sjútvn. og hv. fjvn., og hv. þm. Str. tók því illa, að aðfinslur kæmu fram við gerðir hv. fjvn. En að jeg ekki fletti ofan af gerðum hennar, og það alvarlega, er af einskærri hlífð við háttv. frsm., sem segist vera „dauður“ eða „sálaður“. (TrÞ: Þá er að gera það! — PO: Það eru ekki allir fjvn.-menn dauðir!). Það má vel vera, að einhverjir sjeu eftir hjá háttv. fjvn. til þess að „hlaupa í skarðið”, en það vil jeg ráðleggja henni að vera ekki með neinar hótanir, ef hún vill ekki hafa verra af. Því sumar af gerðum hennar sýna það best sjálfar, að hún er algerlega berskjölduð, ef til hennar væri höggvið.

Þá benti hv. þm. Borgf. á, í sambandi við þessar síldarfarir háttv. sjútvn., að fjárveitingin myndi ætluð ákveðnum manni. En jeg hefi hvorki heyrt það eða sjeð, hver sá maður eigi að vera. (PO: Og nú er jeg fyrst alveg hissa!). En látum það þá vera svo, að þessu sje stefnt að sjerstökum manni, þá sje jeg ekkert við það að athuga, ef maðurinn er að öllu leyti fær til starfans.

Jeg ætla ekki að fara að slá mjer í þær deilur, sem orðið hafa á milli nefndanna, og ekki heldur að meta, hvað hvor atvinnuveganna hefir fengið af opinberu fje. Jeg tel best á því fara, að hvor atvinnuvegurinn styðji annan og sýni hvor öðrum fullan skilning.

Þá vildi hv. frsm. (TrÞ) halda því fram, að grundvöllurinn undir till vitamálanna væri ekki sem traustastur, og færði það til, að vitamálastjórinn hefði ekki vitað, hvoru megin Hornbjargs vitinn ætti aðstanda. Þetta kemur mjer ekki neitt undarlega fyrir sjónir, því að jeg minnist þess, að þegar setja átti vitann á Látrabjarg, fylgdi jeg vitamálastjóranum og spurði hann, hvar á bjarginu vitinn ætti að standa. Þá sagðist hann ekki vita það fyr en hann hefði athugað staðhættina. Eins hygg jeg, að hafi verið hjer. Hann vilji fyrst athuga staðhætti áður en hann ákveður, hvar vitinn skuli standa. Mjer hefir aldrei dottið í hug að halda öðru fram en að nauðsyn beri til að koma þessum vitum á. Og frá mínum bæjardyrum sjeð er ekkert á móti því annað en hinn erfiði fjárhagur ríkissjóðs.

Mjer dettur ekki í hug að ámæla hv. sjútvn. fyrir till. hennar í þessu máli, og jeg tel illa farið, að háttv. frsm. fjvn. skyldi finna ástæðu til þess, því að eins og gefur að skilja getur oft orkað tvímælis um tillögur nefnda. Á þær er litið frá ýmsum hliðum, að undanskildum till. samgmn., því að þar hefir ekkert verið að fundið. (TrÞ: Það hefir verið haldin löng ræða á móti till. hennar). Hver var sá óviti? (TrÞ: Það var hv. þm. S.-Þ.). Því á jeg bágt með að trúa um slíkan mann. Jæja, það sannar þá bara, að ekki er hægt að gera öllum til hæfis, enda þótt vel og viturlega sje gert.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara öllu frekar út í þetta mál, og jeg vona, að jeg hafi ekki komið svo nærri tilfinningum manna með þessum orðum mínum, að þau gefi tilefni til andsvara. Jeg hefi aðallega viljað sýna fram á, að sendimenn í markaðsleitum geta ekki lagt fram annað en skýrslur um ferðir sínar, eins og Pjetur Ólafsson gerði. (PO: Jeg sagði ekki, að för hans hefði engan árangur borið!). Jeg skildi það samt svo, að háttv. þm. vildi halda því fram, að hann hefði ekki leyst starfið sem best af hendi. Þessu kunni jeg illa um þann mæta mann, því að jeg veit, að hann hefir ekki gert annað en það, sem hann hefir talið að myndi koma að sem bestu gagni. Og jeg veit, að maðurinn er mjög fær á þessu sviði.