12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (1152)

21. mál, fjárlög 1928

Ólafur Thors:

Háttv. frsm. (TrÞ) var að hallmæla okkur í sjútvn. fyrir það að hafa gefið tilefni til þessarar deilu. En þar var honum sjálfum um að kenna, þar sem hann kvað upp áfellisdóm yfir sjútvn. í máli, sem sjútvn. hafði að sjálfsögðu miklu meiri þekkingu á og var því miklu dómbærari um. Jeg vitnaði til vitamálastjórans, en háttv. frsm. vildi reyna að gera hann broslegan. Hvað vitamálastjóri hefir sagt í fjvn., veit jeg ekki, en jeg veit, hvað hann sagði í sjútvn., og jeg hefi lesið upp úr skýrslu hans, — skýrslu, sem hv. fjvn. bar að kynna sjer, — og fellur skýrsla hans nákvæmlega saman við umsögn hans um málið á fundum sjútvn. Mjer þykir því líklegt, að vitamálastjóri hafi haft sömu ummæli við fjvn., en —, svo jeg noti samlíkingu hv. frsm., — alveg eins og það er ekki sönnun þess, að viti logi ekki, að einhver sjer ekki ljósið, þannig getur það komið fyrir, að greindum manni takist illa að gera öðrum skiljanlegt, hvað hann hugsar, án þess að það þurfi að vera af því, að hann hafi borið illa fram hugsun sína. Hitt getur eins vel verið, að þeir, sem hann átti tal við, hafi reynst tornæmir. Segi jeg þetta með tilliti til samtals vitamálastjóra og hv. fjvn.

Hv. frsm. var enn að reyna að bera fyrir sig hinn reynda sjávarútvegsmann, hv. 3. þm. Reykv. (JÓl), en fórst nú enn óhönduglegar en áður, og var þó ekki á bætandi. Í fyrra skiftið færði hv. frsm. þau rök helst fyrir andstöðu fjvn. gegn till. sjútvn., að þessi reyndi sjávarútvegsmaður hefði talið till. sjútvn. illa undirbúnar. En þegar nú hv. 3. þm. Reykv. lýsti því skýrt og skorinort yfir, að þetta væri hinn mesti misskilningur hjá hv. frsm., þá greip hann til þess óyndisúrræðis, að núa sjútvn. því um nasir, að þótt hv. 3. þm. Reykv. hefði ef til vill ekkert ilt sagt um þessar till. nefndarinnar, þá hefði hann að minsta kosti lagst fast á móti till. nefndarinnar í öðru máli, nefnil. fiskimatinu. Hugðist nú hv. frsm. hafa komið illa við kaun okkar sjútvn.-manna. En nú vill svo óheppilega til fyrir hv. frsm., að hann hefir einmitt fyrir skemstu gerst dómari í deilunni milli sjútvn. og hv. 3. þm. Reykv. um fiskimatið. Hann settist nefnilega eins og aðrir hv. þdm. í dómarasætið við atkvgr. um málið. Og hans dómur var sá, að við nefndarmenn færum með rjett mál í einu og öllu. Hv. frsm. hefði því verið sæmra að nefna þetta ekki. Annars skaut hv. frsm. sjer mjög undir vængi hv. þm. Borgf. (PO), svo að jeg verð að svara honum líka, en það verða aðeins fáein orð, því að það, sem hv. þm. sagði, var að mestu leyti utan við málið.

Þessi hv. þm. gat um það, að nær enginn árangur hefði orðið af sendiför Pjeturs A. Ólafssonar konsúls til Suður-Ameríku, og vildi þar með benda á, að slíkar ferðir, sem sjútvn. mælir með, mundu ekki koma að haldi. En jeg verð þá enn að benda á það, að jeg sagði, að jeg vildi, að á bak við þær sendifarir stæðu skýr loforð íslenskra framleiðenda um að haga sendingum sínum eftir fyrirmælum sendimanna, en engin tilraun var gerð fyrirfram til þess að tryggja það, þegar Pjetur A. Ólafsson fór til Suður- Ameríku, svo að sú sendiför var einmitt sýnishorn af þeim sendiförum, sem sjútvn. vill ekki samþykkja. Auk þess er það ekki rjett, að áðurnefnd sendiför hafi ekki borið neinn árangur, því að ýmsir hafa, eftir þeim upplýsingum, er þá fengust, gert tilraunir, sem borið hafa nokkum árangur. — Verði þessi fjárveiting samþykt, þá mun sjútvn. fara þess á leit við atvrh., að hann veiti ekki styrkina, nema því aðeins, að tryggilega sje um það búið, að ráðum sendimanns verði fylgt. (PO: Það er ekkert um þetta í athugasemdunum!). Nei, en hv. þm. veit, að það er ætlast til, að slíkum skilyrðum sje fullnægt, og hefir sjútvn. skrifað hv. fjvn. um þetta. (PO: Sjútvn. hefir ekkert vald yfir málinu, þegar það er komið út úr þinginu). Nei, en jeg geri ráð fyrir, að hæstv. atvrh. myndi fara að ráðum sjútvn. um það mál, sem hún hefir borið fram. En hv. þm. virtist leggjast með meiri þunga á móti málinu, af því að nokkur hluti þessarar fjárveitingar væri ætlaður sjerstökum manni. Jeg hygg nú, að þessi maður sje vel fær til starfans, en auk þess vil jeg slá því föstu, að sjútvn. hefir aldrei sagt neitt um það, að þessi eini maður skuli fá styrkinn, því að það er sitt hvað að telja einhvern mann hæfan til að vinna eitthvert verk eða að telja hann einan hæfan, og jeg geri ráð fyrir, að þótt sjútvn. skrifaði hæstv. atvrh., að hún teldi ákveðinn mann hæfan til starfans, að þá myndi hæstv. ráðherra ekki telja sjer skylt að fela honum starfið, ef hann teldi sjálfur einhvern annan hæfari.

Jeg vil svo að endingu taka það fram, að það er ekki rjett, að jeg hafi verið að áfella hv. fjvn. fyrir till. hennar um fjárveitingu til radiovitanna. Jeg hefi áður tekið það fram, að jeg virti þann góða hug, sem nefndin sýnir í þessu máli, og reyndi ekki að draga úr þeim ummælum nú. Hinsvegar vildi jeg bera þær sakir af sjútvn., að hún hefði flutt þetta mál rakalaust, því að hún hafði einmitt aflað sjer þeirra upplýsinga um málið, sem hún bestar gat fengið, með því að tala við vitamálastjóra. Og svo að jeg nú leiði óræk vitni í málinu, bendi jeg á, að hv. fjvn. hefir í nefndarálitinu beint tekið fram, að í þessum fjárlögum ætlist hún ekki til, að fje verði veitt til miðunarvita. Þegar hún gaf þessa yfirlýsingu, hafði hún þó reynt að kynna sjer málið eftir föngum, og meðal annars talað við vitamálastjóra. Þegar hjer er komið sögu, tekur sjútvn. málið í sínar hendur, ber fram till. um fjárveitingu, færir rök fyrir henni og upplýsir málið hjer í þessari hv. deild. Og þau undur ske, að hv. fjvn., þessi víðfræga sparsemdarnefnd, lætur sannfærast og það svo rækilega, að hún tekur sig til og flytur till. um, að 35000 kr. —, þrjátíu og fimm þúsundir —, hvorki meira nje minna, verði nú þegar á næsta ári veittar til að reisa 2 radiovita.

Jeg hefi nú enga tilhneigingu til að gera lítið úr málaflutningi okkar sjávarútvegsnefndarmanna, en þó verð jeg að játa, að þessar undirtektir hv. fjvn. eru næstum oflof um rökfimi okkar.

Jeg lýk svo máli mínu með því að segja, að bæði hv. þm. Borgf. og hv. frsm. hafi talað mikið bæði um mig og við mig, en ákaflega lítið um það mál, sem jeg talaði um.