01.03.1927
Efri deild: 17. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

1. mál, sveitarstjórnarlög

Ingvar Pálmason:

Hvað snertir brtt. þær, er allshn. leggur til um frumvarp þetta, þá tel jeg þær til bóta; munu þær og fram komnar af þeim aths., sem gerðar voru við 2. umr. málsins. Fyrstu brtt., um kosningu endurskoðenda sveitarsjóðsreikninganna, tel jeg alveg í rjettum anda. Jeg hygg, að það sje alveg rjett, að það eigi að vera hlutur hreppsbúa, enda þótt það kunni að vera þægilegra, að hreppsnefndin framkvæmi kosninguna.

Viðvíkjandi till. þeirri, er jeg hefi leyft mjer að bera fram við þessa 3. umr., vil jeg segja nokkur orð til árjettingar. Eins og hv. deild er kunnugt, þá var aðalástæðan fyrir því, að jeg var því mótfallinn, að oddviti hefði tvöfalt atkvæði, þegar því væri að skifta, sú, að jeg þóttist geta sýnt fram á, að þau tilfelli gætu komið fyrir, að mikill minni hluti hreppsnefndar gæti með þessu fyrirkomulagi ráðið úrslitum mikilvægra mála. Jeg held þessu hafi ekki verið mótmælt ennþá. Jeg mun aðallega hafa tekið dæmi af 3 manna hreppsnefnd. En jeg get gjarnan tekið dæmi af 7 manna nefnd. Er áreiðanlegt, að þá fer ver, en ekki betur. Lögin ákveða, að hreppsnefndarfundur sje lögmætur, ef 4 mæta. Sje þessu ákvæði framfylgt, getur svo farið í 7 manna nefndinni, að tveir menn ráði úrslitum máls. Þá tel jeg nokkuð langt gengið. Það er viðurhlutamikið að láta 2 menn úr 7 manna nefnd — þótt góðir menn sjeu, — hafa vald um úrslit mála. Og ekki er hægt að neita, að svona getur þetta farið. Jeg álít þetta svo meinlegan galla, að þrátt fyrir það að þetta hefir staðið í lögum í ein 60–70 ár, þá sje ekki áhorfsmál að leiðrjetta það. Jeg get ekki heldur sjeð, að af þessari breytingu þurfi að leiða neitt tjón fyrir sveitarfjelög. Afleiðingin af breytingu minni verður ekki önnur en sú, að þegar ekki mæta nema 4 af 7 nefndarmönnum, þá verður málum ekki ráðið til lykta í það sinn, ef 3 verða ekki sammála. Minni kröfu er tæplega hægt að gera en að minsta kosti ekki færri en 3 menn af 7 ráði úrslitum um málefni hreppsins.

Jeg ætla svo ekki að orðlengja frekar um þetta; hygg, að það sje ljóst og hafi komið skýrt fram hjá mjer bæði við 2. umr. og nú, að þetta ákvæði sje varasamt, enda þótt það sje búið að standa í lögum 60–70 ár.

Um síðari brtt. sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða. Hún er aðeins í sama anda og þær brtt., sem allshn. hefir komið fram með um að lengja frestinn. Vænti jeg þess, að háttv. allshn. leggi ekki á móti þessari till. Jeg skal játa, að jeg vildi ganga feti framar í að lengja þennan frest, en kaus heldur að fá þessa breytingu en enga. Samkv. því, sem hv. allshn. hefir lagt til viðvíkjandi 25. gr., geri jeg eindregið ráð fyrir, að hún fallist á þessa till. mína.