19.04.1927
Efri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1218 í B-deild Alþingistíðinda. (1160)

21. mál, fjárlög 1928

Jón Baldvinsson:

Jeg heyrði, að í lok ræðu sinnar lagði hæstv. ráðh. til, að frv. yrði vísað til 2. umr. Verður hjer því ekkert framhald þessarar umr., svo sem venjan er í hv. Nd. Og þá er þar venjulega leyft að tala við stjórnina og fá hjá henni upplýsingar um stjórnarfarið og ýmislegt, sem annars er ekki hægt að heimta svar við. Mjer skilst, að þeir hv. þm., sem hjer eiga sæti, megi í þess stað nota þessa 1. umræðu til að fá slíkar upplýsingar. Að gera það þegar tillögur eru komnar fram og 2. umr. hafin, álít jeg óheppilegt.

Nú stendur svo á, að núverandi hæstv. stjórn verður ekki krafin sagna á sama hátt og venjuleg þingræðisstjórn, því að hún á aðeins að fara með völdin um stundarsakir og skoðast sem bráðabirgðastjórn. Hv. Nd. hefir gert ályktun um stjórnina, viðvíkjandi aðstöðu hennar til þingsins, sem engin önnur stjórn hefði látið sjer lynda. En hún hefir nú tekið þann kostinn að sitja kyr sem bráðabirgðastjórn, og verður því að tala öðruvísi við hana en venjulega þingræðisstjórn.

Samt er ýmislegt, sem menn vilja vita um framkvæmdir og stjórnarfar. Mjer hefði nú þótt vænt um að geta beint máli mínu jöfnum höndum til beggja hæstv. ráðh. Jeg er ekki alveg glöggur á, hvað heyrir undir hvorn um sig. Jeg býst samt við, að flest af því, sem jeg ætla að spyrja um, heyri undir hæstv. atvrh.

Fyrst langar mig til að gera fyrirspurn um bygginguna á Kleppi, hvort henni muni verða lokið í sumar. Mjer skilst, að sú bygging mundi geta orðið fullgerð vegna þess, að nægur væri tíminn, en jeg hefi heyrt því haldið fram af nokkrum kunnugum mönnum, að varla væru líkur til þess að svo yrði, og jeg heyri hjá þeim, sem standa fyrir byggingunni, að henni muni ekki verða lokið í sumar. Jeg vil spyrja hæstv. atvrh., hver sje tilhögunin á þessu. Þó að þrotin væri fjárveitingin, hefir hæstv. stjórn í hendi sjer að taka lán, samkvæmt lögum um lán til opinberra bygginga. Hv. sessunautur minn hefir gert mjer þann greiða að benda mjer á, að fjárveiting sje á næsta ári, en svo getur staðið á, að það sje miklum erfiðleikum bundið að þurfa að draga bygginguna í heilt ár.

Þá vil jeg gjarnan fá upplýsingar um, hvað hæstv. stjórn hafi gert í framkvæmdum um þál. þá, sem samþ. var á Alþingi í fyrra um rýmkun landhelginnar. Það var þá einhuga mál alls þingsins. Mig langar til að vita, hvað hæstv. stjórn hefir gert í því máli.

Næst vil jeg spyrja hæstv. atvrh., hvort hann hafi nokkuð gert í tryggingarmálunum. Jeg bar fram í fyrra tillögu til þál. um skipun milliþinganefndar til þess að gera tillögur um tryggingarmálin. Þessi nefnd var hugsuð skipuð á sama hátt og hugsað var í þeirri till., sem kom fram á þingi 1925 um almennar slysatryggingar. Málinu var, að jeg hygg, vísað til stjórnarinnar af hv. Ed., eftir tilmæli hæstv atvrh. Minnir mig ekki betur en hann ljeti falla orð um það, að stjórnin gæti alveg eins gert þetta, þótt till. yrði ekki samþykt. Nú langar mig til að vita, hvort nokkrar framkvæmdir hafa orðið í þessu máli. Hæstv. atvrh. getur vafalaust svarað því.

Þá langaði mig til að spyrja hæstv. atvrh., sem er yfirmaður flestra þeirra framkvæmda, sem hans undirmenn, vegamálastjóri og slíkir starfsmenn, láta framkvæma, hvert það kaupgjald væri, sem þeir hugsuðu sjer að greiða í sumar við vegavinnu. Mjer er sagt, að vegamálastjóri, eða menn fyrir hans hönd, sje í kjördæmi hæstv. atvrh. að leita fyrir sjer um ráðningu á mönnum fyrir 50 aura tímakaup fram að slætti. Það er miklu lægra kaup en var í fyrra; og raunar álít jeg algerlega ósæmilegt af hinu opinbera að bjóða slík smánarkjör. Jeg skil varla, að hæstv. ráðh. líði slíkt í sínu kjördæmi. (Atvrh. MG: Á kaup að vera hærra í mínu kjördæmi en annarsstaðar?). Að minsta kosti ekki lakara. Það er eðlilegast, að hæstv. ráðh. fari ekki ver með sína kjósendur en aðra. Mig langar gjarnan að vita þetta, af því að mjer skilst, að í fyrra á sama tíma hafi verið borgaðir 70 aur. um kl.tímann. Þetta er þá miklu meiri lækkun en annarsstaðar á landinu, og munu menn, ef þeir taka þessu kaupboði, aðeins gera það út úr neyð. Álít jeg, að hæstv. ráðh. ætti að skerast í leikinn um þetta, ef þessu er svo varið.

Þá langar mig að spyrja hæstv. ráðh. um það, hvers vegna jörðin Lambhagi í Mosfellssveit var seld og fyrir hvaða verð. Ennfremur hvað sje búið að gera við landið, sem ræktað var í Mosfellsmýrinni fyrir nokkru, hvort það liggur ennþá ónotað, og hvort engar framkvæmdir sjeu hugsaðar í sambandi við það.

Þá vil jeg spyrja hæstv. atvrh., hvað hann hugsi sjer um framkvæmdir með veginn, sem lagður var hjer frá Elliðaánum og átti að vera áleiðis til Hafnarfjarðar og kostaði marga tugi þús. króna.

Þá vil jeg spyrja hæstv. ráðh., hvort hann viti nokkrar líkur til, að ráðist verði í framkvæmdir um virkjun á Vesturlandi, samkv. sjerleyfi, sem „Dansk-Islandsk Anlægselskab“ var veitt í fyrra, — hvort hæstv. ráðh. hafi nokkra vitneskju eða hugboð um, að þar byrji bráðlega framkvæmdir.

Þá langar mig til að spyrja hæstv. ráðh., hverjir hafi á síðasta hausti fengið leyfi hjá hæstv. stjórn til að gangast fyrir stofnun nýs banka samkvæmt bankalögum, sem samþ. voru í fyrra. Hæstv. fjrh. (JÞ) mun geta leyst úr því. Er gott, að hann skýri deildinni frá því, hvernig yfirleitt verða framkvæmdir þessa máls, eða hvort nokkrar líkur eru til, að úr framkvæmdum verði.

Þá vil jeg spyrja hæstv. fjrh., hvort þurft hafi að greiða ábyrgð fyrir Kárafjelagið, sem ríkissjóður var í. Eins og kunnugt er, var bankanum veittur forgangsrjettur að togurunum, fram yfir veð ríkissjóðs. Nú spyr jeg hæstv. ráðh., hvort rekstrarlánið, sem tekið var, hafi verið endurgreitt, þannig að veðrjettur ríkissjóðs sje ekki verri nú en hann var áður en þetta var samþ. í fyrra í þinginu.

Enn vil jeg spyrja hæstv. ráðh. einnar spurningar. Það er viðvíkjandi vegagerð upp í Borgarfirði. Mjer er sagt, að vegarspotti og brú, sem þar er yfir síki, svokallað Ferjukotssíki, hafi bilað að einhverju leyti í vetur og viðgerð eigi að framkvæma á komandi sumri. — Það er nú ekki víst, að hæstv. ráðh. geti upplýst um þetta að svo stöddu, sem sje hvað mikið sje búið að greiða fyrir vegalagningu þarna. Mjer er sagt, að vegagerðin hafi mishepnast, að þarna hafi verið sökt í fen svo og svo mörgum þúsundum, og vegurinn bilað á hverju ári. Vildi jeg aðeins vekja athygli hæstv. ráðh. á þessu og óska upplýsinga um, hvort framvegis eigi að leggja fje í slíkt, sem ekki eru þær samgöngubætur, sem brýr og vegir annars eiga að vera. Það gefur annars hugmynd um, að ekki hafi verið rjett að farið í upphafi og eitthvað þyrfti að breyta til. En Alþingi er nauðsynlegt að vita, ef einhver mistök hafa verið í framkvæmdum, ekki einungis þar, sem stjórnin á sjálf að framkvæma, heldur líka þar, sem hennar undirmenn vinna og hún að vissu leyti ber ábyrgð á, enda þótt þeir starfi nokkuð sjálfstætt. Það á að koma fram, hverjir sem það eru, sem ábyrgðin hvílir á.

Þá vil jeg spyrja þann hæstv. ráðh., sem það heyrir undir, hvers vegna síldarsamlagið, sem samþ. var á síðasta þingi, hafi ekki komið til framkvæmda. Það ganga ýmsar sögum um, að það sje vegna þess, að frá útlöndum hafi komið svo sterk andúð á móti þessu, að stjórnin hafi ekki sjeð sjer fært að veita leyfið. Jeg vildi sem sagt vita, hvers vegna þetta hafi ekki komist til framkvæmda, sem lögin gerðu ráð fyrir að framkvæmt yrði strax, og forgöngumenn málsins í fyrra.

Jeg ætla nú, að það sjeu ekki fleiri spurningar, sem jeg þarf að leggja fyrir hæstv. stjórn að þessu sinni. Þætti mjer vænt um, að jeg fengi greið svör og gild og gæti fengið þau helst nú. Hygg, að spurningarnar sjeu þess eðlis, að hæstv. stjórn geti nú þegar svarað þeim. Það kann að vera ein spurning, sem ástæða er fyrir hæstv. stjórn að leita upplýsinga um.