19.04.1927
Efri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

21. mál, fjárlög 1928

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Hv. 5. landsk. (JBald) byrjaði ræðu sína með nokkrum ummælum um stöðu núverandi stjórnar og sagði, að stjórnin yrði ekki krafin sagna, því að hún yrði eftir ályktun þeirri, sem samþ. var í hv. Nd., að skoðast sem stjórn til bráðabirgða, en ekki sem þingræðisstjórn. Þetta verð jeg að leiðrjetta. Hvort þessi stjórn er til bráðabirgða eða til lengri tíma, það eru spádómar, sem hver getur látið í ljós eftir því, sem honum sýnist. Og meiri hl. hv. Nd. hefir nú spáð stjórninni skammlífis að þessu leyti, en látið þó greinilega í ljós fyrir munn framsögumanns þeirrar till., sem samþ. var, að ef ekkert sjerstakt kæmi fyrir, þá hlyti þetta líf þó að endast stjórninni fram yfir næstu kosningar, eða til næsta þings. Og um það, hvað stjórnin verður langlíf, má hver hafa þá skoðun, sem honum kann að þykja geðfeldust, alveg óátalið af mjer; en hinu verð jeg að mótmæla, að þessi stjórn sje ekki þingræðisstjórn, heldur eitthvað annað. Í þeim löndum, sem þingræði er viðurkent, er í rauninni ekki um nema tvent að gera; annaðhvort er stjórnin þingræðisstjórn, eða, ef þingið af einhverjum ástæðum hefir þóst tilneytt að gefast upp við þá skyldu sína að sjá landinu fyrir stjórn, þá hefir stundum verið gripið til þess að setja það, sem kallað er embættismannastjórn. Er þá farið út fyrir það venjulega; fengnir til menn, sem standa að minsta kosti ekki sjerlega framarlega í þingflokkum. Sú stjórn er á dönsku máli kölluð Forretnings- Ministerium og starfar þangað til þingið hefir aftur komist í það horf — venjulega eftir nýjar kosningar —, að það getur tekið að sjer að standast straum af þingræðisstjórn. Það getur enginn verið í vafa um, að sú stjórn, sem nú situr, er ekki „Forretnings- Ministerium“. Hún er „pólitísk“ stjórn, skipuð að vilja stærsta stjórnmálaflokks í þinginu. — Þetta vita allir, og það þarf í raun og veru enga grein fyrir því að gera; en það má þó benda á það, að formaður þess flokks er forsætisráðherra og hinn ráðherrann á sæti í miðstjórn flokksins; auk þess eru báðir ráðherrarnir þingmenn þess flokks. Það getur engum blandast hugur um, að þetta er „pólitísk“ stjórn, sem verður að vera þingræðisstjórn, svo framarlega sem þingið hefir ekki alveg gefið það upp að gegna skyldu sinni um að varðveita þingræðið. Þessi stjórn stendur hjer eins og hver önnur þingræðisstjórn, opin fyrir atlögum andstæðinganna og viðbúin að taka á móti þeim á hverju augnabliki, þannig að andstæðingarnir krefjast, að hún fari frá, ef þeir hafa atkvæðamagn í þinginu til þess. Þeirri atlögu hefir verið beint að stjórninni, — vantraustsyfirlýsingu —, af þeim þingmanni Alþýðuflokksins, sem á sæti í hv. Nd. En till. var að efni og formi vikið frá, með því að henni var breytt þannig, að úr fyrirsögninni var numið burt það orð, sem mest veltur á í þessu sambandi; till. fjekk ekki að heita vantraust. Einnig var orðalagi till. gerbreytt svo, að hún bæði eftir fyrirsögninni og orðanna hljóðan og ummælum framsögumanns hlaut að þýða það, að sú þingdeild, sem vantrauststill. kom fram í, vildi ekki, eins og þá stóð, láta ganga til atkvæða um vantraust á núverandi stjórn.

En hv. 5. landsk. er líka þingmaður. Hann getur tekið upp sökina á hendur þessari stjórn, hvenær sem hann vill. Hún stendur sem þingræðisstjórn og er viðbúin að taka á móti atlögum frá honum sem hverjum öðrum. — En vegna ókomna tímans hefir þessi hv. þm. ekki leyfi til að standa hjer upp og segja, að stjórn, sem skipuð er úr og styðst við stærsta „pólitíska“ flokk þingsins og situr óáreitt af andstæðingum sínum, sje ekki þingræðisstjórn.

Jeg skal svo svara þeim tveim spurningum, sem snerta minn verkahring, sem hv. þm. bar fram. Hann spurði, hverjum veitt hefði verið leyfi til að gangast fyrir bankastofnun, samkvæmt heimild til þess að veita ýms hlunnindi nýjum banka, sem varð að lögum á síðasta þingi. Það hefir enginn þurft leyfi til þess að gangast fyrir stofnun þessa banka. Það er hverjum manni frjálst að gera tilraun í þá átt, sem það vill; og það hafa fleiri en einn gert, án þess að fá til þess neitt leyfi. En það hefir engum ennþá tekist að koma með þau skilríki, sem allir vita, — sem þekkja lögin —, að heimta verður áður en til mála gæti komið að veita leyfi til bankastofnunar samkv. lagaheimildinni.

Þá spurði hv. þm., hvort það hefði verið borguð ábyrgð sú, sem ríkissjóður er í fyrir h/f „Kára“. Því er að svara, að sú ábyrgð hefir ekki verið borguð enn. Þá gat hann um það, að rekstrarláni hefði verið hleypt fram fyrir, samkv. heimild síðasta þings, og spurði, hvort það rekstrarlán væri borgað, og hvort veðrjetturinn væri lakari nú heldur en hann var áður en því láni var hleypt fram fyrir.

Jeg er ekki viss um, að jeg geti gefið alveg nákvæmar upplýsingar um þetta, óviðbúinn eins og jeg er; en get sagt það, að það var aðeins tiltölulega mjög lítið rekstrarlán, sem var hleypt fram fyrir veðrjett ríkissjóðs. Það þurfti ekki eins mikið, þegar til kom, eins og við hafði verið búist. Og mjer var tjáð af bankanum, sem þetta fjelag skiftir við, að það hefði ekki getað borgað upp þetta rekstrarlán að öllu leyti árið sem leið, þannig að líklega standa eftir fáir tugir þúsunda, sem verða á undan þessum veðrjetti ríkissjóðs. — En um það, hvort veðrjettur ríkissjóðs sje verri en hann var fyrir ári síðan, þá verð jeg því miður að segja það, að hann er hvorki verri nje betri en hann var. Hann er öldungis einskisvirði nú eins og þá, vegna þess, að ríkissjóður hafði frá upphafi 2. veðrjett, en með 1. veðrjetti hvílir svo mikil upphæð á skipunum, að það er ekki nokkur von um, að 2. veðrjettur fái neitt, ef skipin verða seld. Svona hefir það því miður verið alla tíð frá 1924, að veðrjettur ríkissjóðs hefir verið einskisvirði. Von ríkissjóðs um það að sleppa frá því að greiða þessa ábyrgðarupphæð, sem er hátt á annað hundrað þús. kr., byggist einungis á því, að fjelagið geti rjett við, þannig að það geti borgað þá skuld, sem hvílir með 1. veðrjetti á skipunum. Þá getur veðrjettur ríkissjóðs batnað svo, að hann sleppi skaðlaus frá sinni ábyrgð. En takist fjelaginu ekki að rjetta við, þá eru því miður ekki minstu horfur á að ríkissjóður sleppi.