19.04.1927
Efri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1252 í B-deild Alþingistíðinda. (1164)

21. mál, fjárlög 1928

Ingvar Pálmason:

Hjer hefir verið tekinn upp sá siður í efri deild, sem ekki hefir tíðkast áður, sem sje að halda eldhúsdag yfir stjórninni. Jeg ætla ekki að fara að blanda mjer í þær umræður, sem þegar hafa orðið, heldur aðeins að bera upp vankvæði hjeraðs míns, í von um að fá það upplýst, hvernig þau verði leyst. Á síðasta þingi lofaði þáverandi forsrh. (JM), að strandvarnir skyldu leystar af hendi við Austurland á tímabilunum frá 15. maí til júníloka og frá 15. sept. til 20. okt. Við þetta var ekki staðið að öllu leyti, því að strandvarnirnar byrjuðu þar ekki fyr en síðast í maí. Að þær gætu ekki byrjað fyr en þetta, var mjer kunnugt um áður en jeg fór austur í fyrra vor, því að skip það, sem fara átti, varð að leggjast upp og hreinsast. Þetta tilkynti þáverandi forsrh. mjer, svo að um það var ekki hægt að sakast. — Annaðist „Þór“ svo gæsluna yfir júnímánuð. En þegar svo kom að síðara tímabilinu, komu vanefndirnar. Má vel vera, að þær hafi stafað af óviðráðanlegum orsökum, en um það er mjer ekki kunnugt.

Út af þessu vil jeg leyfa mjer að spyrja hæstv. stjórn, hvort við Austfirðingar megum ekki vænta þess, að lík landhelgisgæsla verði framkvæmd fyrir Austfjörðum í sumar og lofað var í fyrra.

Það hefir verið viðurkent á undanförnum þingum, bæði af fyrverandi forsrh. og sjútvn., að landhelgisgæslan fyrir Austurlandi hafi verið vanrækt. Treysti jeg því fastlega, að úr þeirri vanrækslu verði bætt nú. En úr því að svona hefir farið að undanförnu, þótti mjer tryggara að slá varnaglann og spyrja, hvers við Austfirðingar mættum vænta í þessu strandvarnarmáli, og vildi því óska, að hæstv. stjórn gæfi sem skýrust svör þessu viðvíkjandi, til þess að við gætum fengið það skjalfest, hvers við mættum vænta í þessu efni.