19.04.1927
Efri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í B-deild Alþingistíðinda. (1166)

21. mál, fjárlög 1928

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Í umræðum sínum um stjórnina blandaði háttv. 1. landsk. (JJ) saman þingræðisstjórn og meirihlutastjórn. Þetta er ekki rjett. Þingræðisstjórn er hver stjórn svo lengi sem flokkar þingsins óska ekki eftir stjórnarskiftum, hvort sem flokkur stjórnarinnar er þar í meiri hluta eða ekki. Þetta er þungamiðja þingræðisins. Og það getur komið sjer vel fyrir háttv. 1. landsk. síðar að taka vel eftir þessu, hver munur er á meirihlutastjórn og þingræðisstjórn.

Hitt er annað mál, hve lengi stjórnin getur starfað, ef hún hefir ekki meiri hluta bak við sig í báðum deildum, en það miðast við gang málanna í hvorri deildinni fyrir sig. Þannig get jeg kannast við, að meðferð fjárlagafrv. í Nd. ber þess merki, að stjórnin hefir ekki meiri hluta þar. Og nú er eftir að vita, hvort grípa þarf til þeirra ráðstafana, sem gera þarf stundum, þegar stjórn og þingmeirihluti geta ekki komið sjer saman.

Þá var það í fyrsta skifti, sem jeg hefi fengið skýringu á þeim orðum í brtt. Framsóknarflokksins við vantrauststillöguna í Nd. „starfandi til bráðabirgða“. Háttv. 1. landsk. taldi þau eiga að merkja hið sama sem á dönsku er kallað „fungerende Ministerium“. En þetta er ekki rjett. Það táknar ávalt stjórn, sem búin er að beiðast lausnar, en samkv. beiðni konungs eða ríkisforseta gegnir stjórnarstörfum, þangað til ný stjórn hefir verið mynduð. Um þetta er ekki hjer að ræða. Stjórnin hefir ekki beiðst lausnar og er því ekki það, sem kallað hefir verið á hrognamáli „fungerandi“ stjórn. Sá eini skilningur, sem hægt er því að leggja í þetta, er, að stjórnarandstæðingar sjeu af sinni hálfu að boða skammlífi núverandi stjórnar.

Þá kem jeg að því, sem háttv. 1. landsk. sagði um fjárlagafrv., og skal jeg fara þar fljótt yfir sögu. Hann var þar að gera mjer upp orðin og sagði, að jeg hefði farið fram á, að alt væri strikað út úr þeim, sem hv. neðri deild hefði sett inn. Þetta sagði jeg alls ekki, enda hefir það aldrei verið ætlun mín, og því til staðfestingar skal jeg taka það fram, að jeg tel öldungis óhjákvæmilegt að láta sumt af því standa óhreyft, sem neðri deild setti inn.

Það, sem jeg átti við, var það, að það yrði að færa niður sumt af því, sem ætlað væri til verklegra framkvæmda, og það alveg án tillits til þess, hvort það væri borið fram af stjórnarandstæðingum eða stuðningmönnum stjórnarinnar.

Þá vil jeg ekki láta það standa ómótmælt, sem þessi háttv. þm. sagði, að stjórnin hefði gert samningana við stjórn landsspítalasjóðsins á bak við þingið. Þetta er ófyrirgefanlegt minnisleysi hjá sagnfræðingi, því að sagnfræðing telur þessi háttv. þm. sig vera, að minsta kosti þegar hann er að skrifa sumar kenslubækurnar sínar. Í athugasemd við fjárveitinguna til landsspítalans í fjárlögunum fyrir 1926 stendur: „Samkvæmt samningi milli ríkisstjórnarinnar og stjórnar landsspítalasjóðs Íslands“. Samningur þessi var því gerður með fullu samþykki þingsins. Jeg held nú, að þetta nægi til þess að sýna fram á, að það eru alt staðlausir stafir, sem þessi hv. þm. fer með, þegar hann er að tala um, að farið hafi verið á bak við þingið með þessa samningagerð.

Þá gerði hann svona almenna grein fyrir því, að mest alt það fje, sem varið væri til verklegra framkvæmda, gengi til þeirra kjördæma, sem styddu Íhaldsflokkinn, og þótti það ekki nema eins og molar, sem hryndu af borði hins ríka manns til hins fátæka, sem önnur kjördæmi fengju, eins og t. d. það, sem samþykt var í hv. neðri deild handa þeim flokkum, sem ekki styðja stjórnina. Hann taldi Reykjavík íhaldskjördæmi, þó að það sje nú ekki nema að hálfu leyti rjett. Vitanlega mintist hann ekkert á það, sem Framsóknarkjördæmin fengju, eins og t. d. til Vaðlaheiðarvegarins, Laugaskólans o. fl. Nefni jeg þetta ekki af því, að jeg ætli að fara út í meting um þessa hluti, heldur aðeins til þess að minna þennan háttv. þm. á, að til eru þó upphæðir, og þær ekki sem óverulegastar, sem renna til annara kjördæma en íhaldsmanna.

Annars vil jeg minna þennan háttv. þm., sem er svo alkunnur að því að síma alla mögulega hluti út um land, á að gleyma því nú ekki fyrir kosningarnar að tilkynna sem flestum, að alt, sem til verklegra framkvæmda sje varið úr ríkissjóði, gangi til þeirra kjördæma, sem styðji Íhaldsflokkinn.

Af öllum þeim spurningum, sem hv. 1. landsk. beindi til stjórnarinnar, voru ekki nema tvær, sem snertu mig eða minn verkahring.

Hann mintist á aðgerðina á ráðherrabústaðnum og spurði, hvort húsið væri nú svo úr garði gert, að konungurinn gæti búið þar, ef hann kæmi hingað. Hvað viðgerð hússins snertir, þá álít jeg hana nægilega til þess. En jeg vil ekki fara út í bollaleggingar um það, hvort það sje framkvæmanlegt eða viðeigandi, meðan hús þetta er notað sem embættisbústaður, að ráðherra flytji sig úr því, þegar konungurinn kemur til landsins. Hitt er annað mál, hvort nota skuli húsið eingöngu fyrir risnu. Um það má tala, en jeg sje ekki, að það hafi þýðingu að vera að því nú, meðan ekkert liggur að öðru leyti fyrir um það að breyta risnuhaldi þings og stjórnar. En þess þyrfti að sjálfsögðu, ef nota ætti hús þetta eingöngu í því skyni.

Þá spurðist háttv. þm. fyrir um kostnaðinn við aðgerð á húsi Jóns sál. Magnússonar síðastliðið vor. Hann kvaðst ekki hafa sjeð í fjáraukalögum fjárveitingu í þessu skyni. Það var nú svo síðastliðið vor, að Jón sál. Magnússon gerði landinu þann mikla greiða að flytja úr húsi sínu og lána konungi og fylgdarliði hans það til íbúðar, meðan það dvaldi hjer. Leysti hann þar með fram úr máli, sem annars hefði getað orðið talsvert vandamál. Hann ætlaði sjer ekki að setja neitt upp fyrir þetta, en varð þó sjálfur af leigu, því að hann leigði nokkuð af húsinu út, en sá leigjandi varð að flytja í burtu um nokkuð langan tíma vegna viðgerðarinnar og svo meðan að hans hátign konungurinn bjó þar. Jeg hygg, að það hafi verið ætlun hins látna forsætisráðherra að bera sjálfur kostnaðinn að miklu leyti við þá aðgerð og fágun innan húss, sem honum þótti nauðsynlegt að láta fram fara áður en hinn tigni gestur flyttist í húsið, þó að það annars hefði verið alveg sjálfsagt, að ríkið borgaði þann kostnað að einhverju dálitlu leyti, en svo ljest hæstv. forsrh. (JM) áður en búið var á nokkurn hátt að ganga frá greiðslu þessa kostnaðar, og okkur, ráðherrunum sem eftir sátum, þótti það yfir höfuð ekki sanngjarnt, að ekkja hans eða dánarbú bæri þá verulegan kostnað af þeirri aðhlynningu að húsinu, sem sannanlega og sjáanlega hafði verið gerð vegna dvalar hans hátignar þar, þannig að megnið af aðgerðarkostnaðinum var borgað úr ríkissjóði, og hefir það verið talið með öðrum kostnaði við konungskomuna, sem greitt hefir verið af óvissum gjöldum ársins 1926, samkvæmt 19. gr. fjárlaganna fyrir það ár. Er kostnaður þessi innifalinn í þeim útgjöldum samkv. 19. gr., sem jeg gaf skýrslu um ásamt öðrum útgjöldum ríkissjóðs í þingbyrjun í hv. Nd.

Jeg ætla svo aðeins að enda þessi ummæli mín með þeirri almennu athugasemd, að þó að stjórnin vilji fara fram á það við þingið, að það sje afgreitt og ákveðið, hvort heimavistahús eigi að byggja við lærða skólann eða ekki, og þó að hún vilji fá það afgreitt, hvort þingið vilji ganga inn á þá leið í mentamálum höfuðstaðarins og landsins, sem bent er til með samskólafrv., og þó að það kunni að vera margt annað, sem þarf að koma til athugunar og ákvörðunar þingsins og hefir í för með sjer útgjöld í framtíðinni, þá er alt þetta engan veginn til þess að draga úr nauðsyninni á því að gera fjárlögin sæmilega úr garði; tekjuhalli á fjárlögunum verður ekki minna tilfinnanlegur eða síður afleiðingaríkur fyrir það, þó að menn hafi fyrirætlanir um framhald á verklegum framkvæmdum á ýmsum sviðum, heldur einmitt þvert á móti, vegna þess að það er í þessu svo að segja nýnumda landi ekki hægt að sjá fram úr öllum þeim framkvæmdum, sem fyrir liggja. Einmitt þess vegna er nauðsynlegt að sýna nægilega gætni í afgreiðslu fjárlaganna, til þess að það þurfi sem sjaldnast og helst aldrei að koma fyrir, að um lengri eða skemri tíma þurfi að stöðva þessar verklegu framkvæmdir, til þess að rjetta við halla, sem orðinn er á landsbúskapnum, halla, sem óhjákvæmilega hlýtur að verða, ef tekjuhallafjárlög eru samþykt ár eftir ár.

En um alt það, sem hv. 1. landsk. þm. sagði um fyrirætlanir stjórnarinnar í slíkum málum, er það að segja, að það er einungis árjetting þess, sem jeg sagði í upphafi ræðu minnar, að gæta þess að reisa ekki landinu hurðarás um öxl í útgjöldunum á fjárlögunum.