19.04.1927
Efri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í B-deild Alþingistíðinda. (1168)

21. mál, fjárlög 1928

Einar Jónsson:

Jeg hjelt satt að segja, að þegar þetta mál kæmi á dagskrá, þá mundu umr. snúast um það, hvernig það væri úr garði gert, í fyrsta lagi frá hendi stjórnarinnar og í öðru lagi frá hendi hv. Nd., er það kemur nú hingað, fremur en að farið yrði að halda eldhúsdag, sem þó ekki er neinn verulegur eldhúsdagur. Því að hjer er ekki gert annað en að endurtaka það, sem áður hefir verið minst á, og það jafnvel flest hjer í deildinni, og er það því ekki til annars en að tefja tímann. Jeg hjelt þó, að flestum þætti nóg um, hve lítil störf þingsins hafa orðið til páska, þó að menn færu nú ekki að rísa upp eftir páska til þess að tefja störfin og eyða tímanum. En það er engin furða, þó að menn tali um fjárlagafrv., eins og það er nú orðið sjerstaklega, og hvort það sje hyggilegra að hafa það þannig, eða laga þann tekjuhalla, sem á því er og mjer þykir alt of mikill. Jeg er ófáanlegur til þess að hafa þá meðferð á fjárlagafrv., að því verði skilað með slíkum tekjuhalla úr þeirri deild, sem jeg á sæti í. Það er ekki forsvaranlegt að samþ. það, eins og það nú er. Jeg ætla ekki að fara að álasa neinum sjerstökum flokki, því að það væri ekki sanngjarnt. Báðir flokkar eiga að nokkru leyti sök á því. Það væri heldur ekki sanngjarnt að álasa stjórninni. En ef einhver á álas skilið fyrir þau fjárlög, er nú verða afgreidd, þá er það fyrst og fremst þessi deild. Þó svo fari, að hv. Nd. fari að trássast við að koma þeim í sama horf aftur, þá getur það ekki gengið, ef viljinn hjer verður nógu sterkur.

Háttv. ræðumenn hafa nú eytt deginum mest í það að álasa stjórninni fyrir ýms atriði, sem að sumu leyti eru eðlileg, en að öðru leyti mjög smávægileg og óþörf. Jeg ætla ekki að fara út í þessi einstöku atriði, en get þó ekki leitt hjá mjer nokkur atriði, sem færð hafa verið fram gegn stjórninni og eru viðkomandi mínu kjördæmi. Háttv. 1. landsk. var að finna að tilraun þeirri, sem gerð var í fyrra til fyrirhleðslu fyrir Þverá. Það var ekki stór upphæð, sem til þessa var veitt, einar 5000 kr. En hæstv. atvrh. upplýsti nú, að kostnaðurinn hefði farið upp í 7000 kr. Hann lýsti því og rjettilega, að farið hefði verið eftir áliti vegamálastjóra og auk þess leitað umsagnar sýslunefndar, hvort gera ætti tilraunina, og sagðist hún óska þess fyrir sitt leyti. En það var vatnið, en ekki mistök verkamanna, sem eyðilagði verkið. Straumurinn er svo mikill og þungur, að jarðvegurinn getur ekki staðist hann. Annars óska jeg ekki aftur, að slíkar smátilraunir verði gerðar, því að þær hafa enga þýðingu. Hjer dugar ekkert kák. Það þarf að gera rækilega fyrirhleðslu í Markarfljóti og veita vatninu burt úr Þverá. En til þess þarf auðvitað mikið fje. En þetta verður að taka föstum tökum, ef í það er ráðist.

Þá var sami háttv. þm. að tala um snjóbílinn og verk það, sem unnið var með honum á yfirstandandi vetri á Hellisheiði. Hann lýsti, hvernig því hefði verið háttað og að hvaða gagni það hefði komið. Hann lýsti þessu svo sem hann hefði verið þar við, en lýsti því þó ekki allskostar rjett. Það er sannanlegt, að bíllinn gerði stundum gagn, en svo aftur á öðrum tímum ógagn. En mest gagn verður að bílnum, er svo hagar til, að eftir eru orðnir stöku skaflar, en vegurinn annars auður á milli, og skörðin, sem hann grefur, haldast, en fyllast ekki þegar aftur af snjó. Það er því hyggilegast að brúka bílinn sem minst fyr en undir vor, þegar snjór er tekinn að sjatna og minni hætta er á því, að nýr snjór falli. En um það, hvernig verkinu hefir verið hagað, skal jeg ekki dæma. En hjer er þó eitt eftir skilið. Hvort sem bíllinn hefir gert gagn eða ekki, þá er það þó kunnugt, að mikill mannafli var honum ætíð til hjálpar úr Reykjavík, en þar voru menn atvinnulausir og hafa því verið fegnir að fá þennan starfa, sem varð þannig einskonar atvinnuleysisbjörg. Og ætla jeg ekki að álasa fyrir það.

Eins og jeg sagði áðan, var minst á þessi atriði hjer í lítilfjörlegri tilraun til eldhúsdags. En jeg ætla ekki að taka frekari þátt í þeim umr., en jeg vil aðeins lýsa því yfir, að jeg vil ekki, að fjárlögin fari úr höndum hv. Ed. eins og þau eru nú, og jeg óska, að háttv. þdm. verði sammála um að breyta hallanum, sem á þeim er, í vænlegra horf.