01.03.1927
Efri deild: 17. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

1. mál, sveitarstjórnarlög

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg skal strax taka það fram, samkv. þeim ummælum, sem jeg hafði við 2. umr., að jeg hefi enga athugasemd að gera við brtt. frá hv. allshn. Þó er jeg ekki viss um, að brtt. undir b.-lið þyrfti að samþykkja, en geri það ekki að neinu kappsmáli.

Út af seinni brtt. hv. 2. þm. S.-M. (IP), við 39. gr., skal jeg segja það, að jeg sje ekki ástæðu til að leggja á móti henni. Hún þýðir ekki annað en það, að sýslufundur getur ekki orðið fyr en fyrstu dagana í apríl, í staðinn fyrir þegar eftir 20. mars. Jeg viðurkenni, að það var rjett hjá hv. þm., sem hann hjelt fram við 2. umr., að þessir frestir væru nokkuð stuttir, þótt jeg áliti, að í flestum eða öllum sýslum væri hægt að komast af með þá.

Öðru máli er að gegna um fyrri brtt. háttv. þm. (IP). Eins og jeg tók skýrt fram við 2. umr. — og einnig háttv. frsm. — þá get jeg ekki sjeð, að ástæða sje til að fella niður þetta ákvæði, sem búið er að standa í lögum í 55 ár án þess að nokkuð hafi verið að því fundið. Reyndar væri það út af fyrir sig ekki afgerandi, að ekki hafi verið að fundið; en jeg undirstrika það, sem jeg sagði við 2. umr., að jeg get ekki sjeð, hvernig á að fara að, þegar þau mál koma fyrir hreppsnefnd, sem ekki þola bið. Því er ómögulegt að neita, að oft geta komið mál til atkvæða og úrslita á fundi, þar sem tveir eða fjórir hreppsnefndarmenn eru til staðar, — mál, sem lögum samkvæmt verður að afgreiða á vissum tíma. Hv. þm. (IP) segir, að það megi kalla saman fund á ný. En hvernig á að fara að, þegar einn af þremur hreppsnefndarmönnum er dáinn, í útlöndum, veikur eða á öðru landshorni og þar fram eftir götum? Þá er það ekki mögulegt að kalla saman fund innan þess tíma, er lög ákveða, að svara skuli ýmsum erindum, t. d. kröfu um viðurkenningu á sveitfesti, kröfu um lögmæt gjöld o. fl. Slíkum málum er ekki hægt að fresta. Og ef brtt. hv. þm. verður samþ., getur auðveldlega farið svo, að þau mál verði ekki afgreidd á þeim tíma, er lög krefja. Jeg heyrði því ekki mótmælt við 2. umr., að þetta gæti komið fyrir. Hv. þm. virtist sjá þetta, en hann kom ekki með nein ráð til að bæta úr því. Hreppsnefndir liggja undir sektum, ef þær afgera ekki mál innan ákveðins tíma, og ef löggjöfin sjer ekki um meðul til þess, að það sje mögulegt, þá tel jeg hana algerlega óforsvaranlega.

Hv. þm. (IP) talaði um, að tveir af sjö gætu ráðið úrslitum mála. Það er rjett athugað. En svona er þetta víðar. Hvernig er um frv. í sameinuðu þingi? Þar getur eitt einasta atkvæði ráðið því, hvort heill frumvarpabálkur verður að lögum eða ekki. Svona er þetta alstaðar, þar sem atkvæðamagn ræður. Meiri hluti þeirra, sem við eru í hvert skifti, ræður úrslitum. Ef einn þingmaður er veikur einn dag, getur það valdið öðrum úrslitum máls en ella. Það er ekki verra að láta þetta koma fram þar, sem hreppsnefnd á í hlut, heldur en þar sem um stærstu löggjafaratriði er að ræða.

Jeg legg því eindregið á móti brtt. hv. 2. þm. S.-M. (IP). Jeg get ekki sjeð þarna neina hættu fram yfir það, sem svo víða á sjer stað í viðskiftalífi og opinberu lífi, og tel óþarft að gera sjer grýlur út af þessu atriði. Ennfremur vantar alveg að benda á, hvaða aðferð á að hafa, þegar svo stendur á, að löggjöfin skipar að úrskurða fyrir vissan tíma, en aðeins 2 menn geta mætt á hreppsnefndarfundi og þeir eru ósammála.