19.04.1927
Efri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (1170)

21. mál, fjárlög 1928

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg get vel skilið það, að háttv. 5. landsk. (JBald) sje óánægður yfir því, að stjórnin skyldi ekki fara frá út af till. þeirri, sem í samþykt var í hv. Nd. Það var flokksbróðir hans, er bar fram vantraustið, sem átti að leiða til stjórnarskifta, ef meiri hl. þingsins hefði fengist með því. En vantrauststillagan komst ekki til atkv. Henni var vikið frá í hv. Nd. Niðurstaðan varð því ekki að skapi hv. 5. landsk.; aðrir tóku af honum ráðin. Flokksbróðir hans sat hjá við atkvgr. um till. þá, sem samþykt var af helming deildarmanna. Till. þessi var flutt af 5 Framsóknarflokksmönnum. Formaður flokksins, hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ), mælti fyrir henni og skýrði frá því, hvað með henni væri meint. Jeg hefi nú fyrir framan mig þessa ræðu hans, leiðrjetta af honum, og þar getur hv. 5. landsk. fengið fulla skýringu á því, hvers vegna stjórnin gat ekki gert þá till. að fráfararatriði. Að ráðherrann og flokksmenn stjórnarinnar greiddu atkvæði á móti þessari till. stafaði af því, að stjórnin vildi heldur, að vantrauststillagan kæmi til atkvæða, en það gat ekki orðið, nema þessi till. yrði feld. Jeg vil leyfa mjer að lesa hjer upp kafla úr niðurlagi ræðu hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ), því að þar er ljóslega tekið fram, hvað flm. ætlast til að hún þýði:

„Ef hún (þ. e. till. þeirra) verður samþykt, er vantrauststillagan úr sögunni, og þessi stjórn situr áfram sem starfsstjórn. Eins og hæstv. forsrh. (JÞ) sagði í sinni ræðu, er það Alþingis að segja til, hvort landsstjórnin eigi að sitja eða ekki. Ef þessi brtt. er samþykt, þá er þar með látinn í ljós sá vilji, að hæstv. stjórn haldi áfram starfi sínu fyrst um sinn, enda þótt hún sje ekki meirihlutastjórn, uns þjóðinni hefir gefist kostur á að skera úr“.

Þar sem hv. þm. talar um, að þjóðinni gefist kostur á að skera úr, þá á hann við kosningarnar næsta sumar eða haust. Jeg veit nú ekki, hvernig stjórn, sem hefir helming þm. með sjer og fær svona lagaða yfirlýsingu frá öðrum stærsta flokki þingsins, hefði átt að gera samþykt þessarar tillögu að fráfararatriði. Það verður að koma eitthvað nýtt fyrir, sem gefur tilefni til þess; þetta er sannarlega ekki fráfararástæða. Hv. 5. landsk. verður að láta sjer það lynda, að flokksbróðir hans í hv. Nd. varð að láta í minni pokann og till. hans var vísað frá. Þessi yfirlýsing Framsóknarflokksins til núverandi stjórnar er alveg samskonar þeirri yfirlýsingu, sem vinstrimannastjórnin, sem nú situr í Danmörku, fjekk frá Íhaldsflokknum þar, og hún ljet sjer nægja til þess að sitja við völd og framkvæma lagasetningar þær, sem hún hafði í hyggju. Í yfirlýsingu Íhaldsflokksins danska er ekki einu sinni farið svo langt að heita stjórninni hlutleysi til næstu kosninga, heldur vildi Íhaldsflokkurinn lofa henni að gera tilraun til að koma fram þeirri lagasetningu, sem fyrir lá. Þetta hlutleysi gengur skemra en hjer, og þó er danska stjórnin fullgild þingræðisstjórn. Þessi afstaða Framsóknarflokksins hjer er eðlileg afleiðing bæði af ástandi því, sem nú er í þinginu, og ákvæðum stjórnarskrárinnar. Það var óframkvæmanlegt að hefta störf þingsins með þingrofi, stjórnarskráin bannar að rjúfa þing fyr en búið er að afgreiða fjárlögin. Það var því ekki hægt að rjúfa þetta þing fyr en búið var að afgreiða fjárlögin, sem þýðir eftir venju, að þingrofið hefði orðið að bíða, uns þingið hefði lokið störfum sínum.

Þá nær það ekki nokkurri átt að kalla þá stjórn, sem nú situr hjer. „Forretnings-Ministerium“, eins og hv. 5. landsk. vildi gera. Það kemur engu þingi í þingræðislandi til hugar að taka í „Forretnings-Ministerium“ menn, sem standa framarlega í einum þingflokki. Þegar slíkir menn mynda stjórn, þá er ekki annar kostur en að líta á stjórnina sem þingræðisstjórn, sem verður að fara frá völdum, ef meiri hluti þingsins óskar þess. En hjer er engu slíku til að dreifa, hjer eru aðeins tveir þm., sem hafa óskað stjórnarskifta.

Þá fór hv. 5. landsk. nánar inn á undirbúninginn um bankastofnunina og spurði, hvort þeir menn, sem fengust við að reyna að koma bankanum upp, hefðu fengið loforð um það, að öðrum yrði ekki veitt leyfi til bankastofnunar, þótt þeir kæmu með fje til þess. Engum mönnum hefir verið gefið slíkt loforð. Þessir menn voru látnir vita, að heimildin yrði notuð, ef einhverjir aðrir kæmu með nægilegt fje og semdu við stjórnina að öðru leyti. Einn af þeim mönnum, sem við þessar tilraunir fengust, fjekk um tíma loforð fyrir því, um það leyti, sem hann byrjaði á tilraununum, að öðrum skyldi ekki veitt leyfi til bankastofnunarinnar næstu 2 mánuði. En sá tími var löngu liðinn, er Þjóðverjarnir komu hingað í haust, og engin framlenging hefir verið gefin á þeim tíma.

Viðvíkjandi Kárafjelaginu og ábyrgð ríkissjóðs á skipakaupaláninu hefi jeg engu við að bæta. Jeg get látið mjer nægja að vísa til þess, sem fram kom á síðasta þingi. Málið var fullkomlega upplýst þá.