19.04.1927
Efri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1324 í B-deild Alþingistíðinda. (1178)

21. mál, fjárlög 1928

Jónas Jónsson:

Jeg sje, að mest alt loftið er farið úr hæstv. forsrh., sem hann hefir belgt sig upp með út af þessu mikla ódæði, sem hv. Nd. hefir framið gagnvart honum og stjórn hans. Jeg hefi nú þrautsannað með dæmum alla eyðsluna hjá hæstv. landsstjórn, utan fjárlaga og í, og nú síðast þessar 15–20 þús. kr., sem fóru til þess að gera við hús einstaks manns hjer í bænum, — leiga fyrir þriggja daga notkun. Það sýnir, hvernig hæstv. stjórn virðir fjárlögin að vettugi.

Frá minni hálfu er þegar búið að undirstrika, að ekki er vanþörf á, ef skera verður niður ýmsa liði úr fjárlögum, að taka duglega til bænar marga pósta til eyðsluframkvæmda, sem hæstv. stjórn hefir komið í gegn samhliða fjárlögum og munu skapa óskapa tekjuhalla, ef þær verða framkvæmdar á þeim tíma, sem hæstv. stjórn ætlast til.

Hæstv. forsrh. kom auðsýnilega illa, að jeg benti á ósamræmið milli þess, er hann kemur fram í Danmörku og etur góðan mat og situr fagnað hjá formanni verkamannaflokksins þar, og þegar hann svo talar hjer heima á Íslandi um stjettar- og flokksbræður þeirra. Nú vildi hann ganga frá orðum og anda greina í flokksblaði sínu. En það er sannanlegt, að Morgunblaðið hefir lýst íslenskum verkamönnum oft og einatt sem væru þeir misyndismenn. Það er undarlegt, að hæstv. ráðh., sem hefir lýst íslenskum bændum, „sem standa föstum fótum á grundvelli núverandi þjóðskipulags“ og hata byltingu eins og pestina, hann, sem hefir af miklum móði hamrað á þeirri goðgá, að þeir skuli nokkurt samband hafa við þá, er æskja einhverra breytinga og umbóta, sest að fótum „bolsivikka“ í Danmörku og samneytir þeim.

Þetta ætlaði jeg að fá hæstv. forsrh. til að viðurkenna. Og það hefir tekist.

Hæstv. ráðh. hefir gengið í „felluna“. Hann vill eiga alt gott við verkamennina dönsku og skoðar það skyldu sína að halda þeim veislu á ríkisins kostnað. Þótt hæstv. ráðh. vilji líta smáum augum á verkamenn hjer, af því að þeir eru fátækir, þá verður annað uppi á teningnum, þegar hann hittir stjettarbræður þeirra í Danmörku, því að þar eru þeir stór flokkur, sem hefir ráð á veislum og góðum mat handa hæstv. ráðh.

Hæstv. atvrh. (MG) ætti, held jeg, sem minst að vitna í hv. 6. landsk. (JKr), nema hann vilji láta gera samskonar aðgerðir á sjer og jeg hefi áður vitnað í, að hv. 6. landsk. hefir gert á skurðarborði. Hæstv. ráðherra hefði kannske gott af svipaðri aðgerð og hv. þm. Str. (TrÞ) vildi láta gera á hæstv. stjórn.