01.03.1927
Efri deild: 17. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

1. mál, sveitarstjórnarlög

Ingvar Pálmason:

Jeg geri ráð fyrir, að það beri ekki mikinn árangur, þó að jeg svari hæstv. atvrh. (MG), enda þótt mjer fyndist ræða hans gefa fyllilega tilefni til þess.

Hann hefir, hæstv. atvrh., hvorki nú nje áður neitað því, að þau tilfelli, sem jeg benti á, væru rjett. Hann viðurkennir, að það geti komið fyrir, að 2 menn af 7 í hreppsnefnd geti ráðið úrslitum mála. Ef þetta er ekki talinn galli, þá mega gallarnir vera nokkuð stórfeldir, ef á að taka þá til greina. Jeg játa, að það er rjett, að það geta komið fyrir mikilvæg mál, sem ekki þola bið. Jeg hugsa, að í flestum tilfellum verði þessir tveir menn sammála, t. d. ef um er að ræða viðurkenningu á sveitfesti þurfamanna, af því að það er altaf bygt á bókfærðum rökum, sem ekki verða hrakin. Ef þá greinir þá er komið ágreiningsatriði, sem maður er útilokaður frá að segja um, og er mjög hæpið að gefa einum manni í sjálfsvald úrskurð málsins. En jeg sje ekki, að oft sjeu vandkvæði á að fresta málinu, því að þó að jeg játi, að sveitfestismál þurfamanna þurfi bráðra aðgerða við, er í flestum tilfellum ekki ágreiningur um þau. Aftur á móti getur orðið ágreiningur um það, hvort þurfamannastyrkur sje afturkræfur eða ekki, og jeg tel mjög varhugavert að leggja þann úrskurð í vald eins manns.

Þó að þetta hafi ekki komið að sök hingað til, er að því að gá, að tímarnir breytast, og starfshættir hreppsnefnda eru með þeim hætti nú, að þeir eru ekki eins fullnægjandi nú eins og fyrir 50–60 árum.

Jeg skal ekki þreyta háttv. deild lengi. Jeg vil aðeins taka það fram, að samanburður hæstv. atvrh. (MG) á hreppsnefndum og Alþingi er ekki honum í vil, heldur mjer. Jeg veit ekki til, að nokkur maður á Alþingi, ekki einu sinni ráðherrarnir, hafi þann rjett, sem hreppsnefndaroddvitum er gefinn, 2/7 hlutar Alþingis geta aldrei ráðið úrslitum neins máls. Ef ekki fæst helmingur atkvæða með málinu, er það fallið. Jeg sting upp á í tillögu minni, að eins fari í hreppsnefndinni, og málið falli niður.

Annars læt jeg skeika að sköpuðu með tillögur mínar. Það verður að vera á valdi hv. deildar, hvort þær ná fram að ganga eða ekki.