02.05.1927
Efri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1330 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

21. mál, fjárlög 1928

Frsm. (Einar Jónsson):

* Jeg vil leyfa mjer að hefja mál mitt með þakklæti til háttv. meðnefndarmanna minna fyrir góða samvinnu í starfi okkar frá upphafi til enda. En jafnframt verð jeg þó að taka það fram, að jeg fyrir mitt leyti hefi ekki getað skilið ástæðurnar til þess, að jeg var valinn frsm. nefndarinnar, því að þar var um mjer hæfari menn að ræða og sumir þeirra enda haft þetta starf með höndum áður. Vænti jeg því, að nefndin aðstoði mig eftir föngum í skýringum og andsvörum, þar sem með þarf, svo að jeg geti nú til að byrja með komist af með stutta ræðu, svo sem vani minn er.

Ef til vill má ýmislegt finna að nál. Þó held jeg, að þar komi nægilega í ljós, að nefndin setti sier tvö höfuðmarkmið, er hún tók til starfa, og reyndi að fylgja þeim eftir bestu getu, hvað athugun og afgreiðslu þessa máls snertir. Í fyrsta lagi ákvað nefndin að nema á burt tekjuhalla þann, er komist hafði í frv. við afgreiðslu og meðferð hv. Nd. á því, og í öðru lagi að sneiða hjá allri hlutdrægni í till. sínum.

Nefndinni var það ljóst, að fyrra markmiðinu —, að skila frv. tekjuhallalausu, — yrði ekki náð með öðru móti en að færa eitthvað niður fjárhæðir, sem ætlaðar eru til nytsamra og verklegra framkvæmda, bæði þær, sem stóðu í stjfrv. og eins hinar, sem inn í frv. komust í hv. Nd.

Þó skal jeg taka fram, að nefndinni var þetta alt annað en gleðiefni. Þess vegna er yfirleitt hið sama að segja um allar þessar lækkanir, að þær eru eingöngu gerðar vegna fjárhagsörðugleika ríkissjóðs, en nefndin er ekki á neinn hátt að amast við hlutaðeigandi framkvæmdum, eða neita nauðsyn þeirra. Það er aðeins álit hennar, að ekki megi á einu ári ætla hverri þeirra stærri fjárhæð en svo, að árstekjur ríkissjóðs nægi til að greiða þær allar, án þess að tekjuhalli verði að stórum mun í landsreikningnum.

Af því að jeg er ógjarn á að halda langar ræður úr hófi fram, vísa jeg á margan hátt til nál. á þskj. 465 og læt mjer því nægja að minnast aðeins á þær brtt. nefndarinnar, sem jeg hefi eitthvað sjerstakt um að segja. Ef jeg t. d. tæki mig til og talaði um hverja einstaka brtt. á þskj. 449, segjum t. d. 5 mínútur um hverja þeirra, þá mundi það taka mig á sjöttu klukkustund. En þá leið ætla jeg ekki að fara, heldur mun jeg stilla svo í hóf, að framsögu minni geti verið lokið á skammri stund. Þess vegna ætla jeg ekki að fara neitt frekar út í aðallækkunartill. nefndarinnar um verklegar framkvæmdir, en vísa þar til nál.

Eins og nál. ber með sjer, sá nefndin sjer ekki fært að breyta neinu í tekjubálkinum. Er tekjuhliðin því óhreyfð, eins og háttv. Nd. gekk frá henni. Brtt. nefndarinnar eru því allar við gjaldabálkinn, og sú 1. í röðinni er þá við 11. gr. frv., þar sem nefndin leggur til, að framlag ríkissjóðs til landhelgisgæslu sje lækkað um 65 þús. kr., eða úr 300 þús. kr. niður í 235 þús. kr., gegn 200 þús. kr. framlagi úr landhelgissjóði. Að öðru leyti vísast til nál. um þetta efni.

Um 3. brtt. má segja að ekki taki að ræða, þar sem lagt er til, að nýjum lið sje skotið inn í 12. gr., um 550 kr. styrk til Kjósarhrepps til læknisvitjana, en jafnhliða sje feldur niður styrkurinn til læknis í Reykjavík, sem skylt sje að gegna læknisvitjunum í Kjós, Kjalarnesi og Mosfellssveit. Það, sem farið er fram á með þessu, er í fullu samræmi við það, sem tíðkast, að veita þeim sveitum styrk til læknisvitjana, sem sjerstaklega eru illa settar. En að miða styrkinn eingöngu við Kjósarhrepp kemur til af því, að nefndin lítur svo á, að sá hreppurinn standi margfalt ver að vígi en Kjalarnes og Mosfellssveit, sem eiga altaf ljett með að ná til Reykjavíkur, eða jafnvel til hjeraðslæknisins í Hafnarfirði.

Um 8. brtt., sem er líka við 12. gr., er lítið að segja. Þessi kona, Eva Hjálmarsdóttir, hefir áður fengið styrk til dvalar á erlendu hæli, sjer til heilsubótar. En þar sem ætla má, að þessi styrkur nægi til þess, að hún nái þeim bata, sem búist er við, leggur nefndin til, að þetta sje lokastyrkur, og að ekki komi til, að oftar þurfi að veita hann.

Þá er 14. brtt. og till. þar á eftir um stórkostlega lækkun til þjóðvega og fjallvega. Nefndinni þótti rjett að ráðast ekki á neinn veg, sem ekki hefði hærri fjárveitingu en 10 þús. kr., en heldur á þá, sem fengju hærri fjárveitingar. Þó hefir hún reynt að taka tillit til allra staðhátta og yfirleitt leitast við að vera sem sanngjörnust.

23. brtt., við 13. gr., B, III, um brúagerð, er vandi að athuga. En hún er um að lækka fjárveitingu til brúagerðar að miklum mun. En með hliðsjón af því, að tvær stórbrýr, Hjeraðsvatnabrúin og Hvítárbrúin, munu báðar vera með í sigtinu, en á þeim brúm er báðum byrjað fyrir fjárveitingu í fjárlögum þessa árs, þá ætlast fjvn. til þess, að nóg sje í lagt 1928 með þeirri upphæð, sem hún stingur upp á, að varið sje til brúagerðar.

Um brtt. 24, við 13. gr. B, V, er það sama að segja og sagt var um þjóðvegina, að það er aðeins gert í sparnaðarskyni að lækka fjárveitinguna.

Brtt. 25 er svo smávægileg, að um hana þarf ekki að tala, en hún ræðir um ferjuna á Hrosshyl. Það var lengi búið að hringla því milli tanna hv. Nd., hve há fjárveitingin ætti að vera, en það rjeði úrslitum hjá nefndinni, að samanborið við styrk til dragferja, sem ekki er nema 300 kr., þá mundi 150 kr. vera nægilegt hjer. Þá hefir heyrst, að bóndinn byggist ekki við miklum styrk, en þar sem hann tefur sig oft frá heimaverkum við að flytja ferðamenn, þá fanst nefndinni ekki ástæða til að hafa styrkinn minni en 150 kr.

Þá kemur brtt. 26, við 13. gr. B, X, um vetrarflutninga á Hellisheiði. Það hefði mátt búast við, að jeg mundi verða tregur til að lækka þennan styrk, þar sem leið mín liggur yfir Hellisheiði, er jeg þarf að fara frá heimili mínu til Reykjavíkur. En jeg sá enga ástæðu til þess að setja mig upp á móti því, að styrkurinn lækkaði um 2000 kr., því það var fyllilega sanngjarnt. Mikill hluti kostnaðar liggur í snjómokstri á Hellisheiði á vetrum. Var því samþykt af öllum nefndarmönnum að lækka styrkinn svo.

27. brtt. er við 13. gr., D, II. Þar er um nokkuð stórt mál að ræða, en jeg læt þar nægja að vísa til nál.

Aðeins skal jeg koma með þá athugasemd, að af fjárveitingunni til nýrra símalagninga skal varið 10 þús. kr. til þess að leggja símalínu frá Hnausum að Ási í Vatnsdal, með því að sterkar sönnur eru fyrir því, að hlutaðeigendur leggi þar meira á móti en annarsstaðar.

Um 28. brtt., við 13. gr., E, V, a. er hið sama að segja og um þá síðustu, að þar er um nokkuð mikið að ræða, þar sem eru vitar og leiðarljós. Annars nægir að láta nál. skýra frá þessari brtt., sem er um það að veita 10 þús. kr. lægri fjárveitingu en áður.

30. brtt. er við 14. gr., A, 7, um húsabætur á prestssetrum. Þar leggur nefndin til, að styrkurinn til þeirra verði lækkaður að miklum mun, vegna upplýsinga, er nefndin fjekk um tvö prestssetur, sem fyrirhugað var að endurbyggja, að þau mundu ekki geta haft not af styrk næsta ár. Þessi prestssetur eru Laufás og Háls, bæði í Þingeyjarsýslu. Var gengið út frá því, að ekki yrðu not að því að byggja við hús þar á þessu tímabili.

31. brtt. er um styrk til byggingar stúdentagarðsins, sem ákveðinn var áður 50 þús. kr. Leggur nefndin til, að honum verði skift á tvö ár og á árinu 1928 greiðist 25 þús. kr., en á árinu 1929 jafnmikið og þá.

32. brtt. er um gjöld til Hvanneyrarskóla, og nægir að vísa til nál. Eru þau gjöld ætluð til upphitunar á íbúðarhúsinu og til fjósbyggingar, en nefndin lítur svo á, að fresta megi fjósbyggingunni og því megi lækka liðinn sem því nemur.

33. brtt., um húsmæðraskóla, er mjög víðtækt atriði, en þar segir nál. glögt frá. Í því atriði var mjer hjálpað til að semja nál. af einum nefndarmanna, sem er glöggur og manna fróðastur í þessu efni, svo að á það er hægt að reiða sig.

Þá kemur 34. brtt. Þar var jeg svo heppinn, að þingsystir mín átti sæti í nefndinni, en hún er fróðust manna um þá hluti alla og getur því gefið þær upplýsingar, sem þarf. Annars var nefndin sammála um að hækka þyrfti liðinn úr 19 þús. kr. upp í 21 þús. kr., vegna kostnaðar við aukakensludeild og hækkun launa til forstöðukonunnar eða skólastjórans, því að jeg geri ráð fyrir, að hv. 2. landsk. (IHB) nefnist skólastjóri, en ekki forstöðukona. Annars heiti jeg á hv. 2. landsk. að skýra þetta mál sem honum þóknast.

Þá hefir liðurinn um raflýsing Blönduósskóla lækkað um 2000 kr., þar sem nýskeð var veitt mikið fje til upphitunar og nú til raflýsingar í þeim skóla. Ennfremur hefir það upplýst, að þetta er komið í kring að miklu leyti, en þar sem hinsvegar engir reikningar lágu fyrir um kostnað, þá lagði nefndin það til sem sparnaðarráðstöfun, að upphæðin yrði lækkuð svo sem þessu nemur.

Þá eru það 36.–42. brtt. Það er að vísu nokkuð staglsamt að vísa svona mörgum brtt. í nál., en jeg geri það einungis til þess að geta talað í sem fæstum orðum.

Brtt. 43, 44 og 45 fjalla allar um sama efni. Þó er um hækkun að ræða aðeins til Leikfjelags Akureyrar. Á það var skrásett 800 kr., en nefndinni fanst sanngjarnt, samanborið við Ísafjörð, að styrkurinn væri hækkaður upp í 1000 kr. Akureyringum er sem sje gert að skyldu að leggja fram 500 kr. móti 800 kr. úr ríkissjóði, en Ísfirðingum ekki nema 300 kr. á móti 600 kr., og eru það ekki sanngjörn hlutföll. Þá hefir siglingastyrkur til Friðfinns Guðjónssonar leikara verið lækkaður. Þó mætti finna þá menn innan nefndarinnar, sem vildu fella þann lið alveg niður. Hið sama mætti segja um styrk til Önnu Borg og Haralds Björnssonar, til leiknáms, en nefndin hefir komið sjer saman um þetta umþráttunarlaust og án þess, að það yrði að misklíðarefni.

Auk þess sem mjer finst umræður um Þetta mál byrja á óhentugum tíma, þar sem fundur hefir þegar staðið lengi, þá geri jeg ekki ráð fyrir, að menn vilji tapa sínu miðdagskaffi, og vil jeg vera sem stuttorðastur, eins og minn er vandi, og hlaupa yfir þar til kemur að 62. brtt. Um hana er nokkuð getið í nál., en hún er um eftirgjöf af láni Stokkseyrarhrepps vegna brunans þar í vetur. Það má vel vera, að það muni verða óhjákvæmilegt að gefa eftir lánið, en hinsvegar þykir nefndinni óþarflega fljótt að gefa eftir lánið sama veturinn og það er tekið og áður en útsjeð er, hvernig þetta brunamál endar. Nefndin hefir því lagt það til að strika út þennan lið, enda á hann ekki heima í þessari grein fjárlaganna.

Um brtt. 63 segir nál. nægilegt, og hvað viðvíkur brtt. 64–68, þá álít jeg, að lítið þurfi um þær að tala. Þær breytingar, sem á þeim liðum hafa verið gerðar, eru einungis í samræmi við annað, til þess að nefndin geti verið sem sanngjörnust. Og eftir því sem kunnugir hafa skýrt frá, þá eru þessir menn í slíkum rjetti, að sjálfsagt virðist að veita þeim þennan styrk.

Með því að hlaupa svona á skemsta vaði getur maður verið fljótur, og er nú komið að síðustu brtt., sem er sú 69. Eru allir nefndarmenn sammála um, að liðurinn falli niður, eins og sjá má í nál.

Jeg hefi nú gefið yfirlit yfir brtt. fjvn. Tekjuhalli á frv. er nú kr. 327819.97, en brtt. fjvn. fara fram á kr. 339550 sparnað. Ef þær ná allar fram að ganga, verður þannig tekjuafgangur kr. 11730.03. Nú hafa einstakir þm. Ed. komið fram með till., sem samtals nema 323075 kr. hækkun. Því er þannig farið, að lækkun tekna nemur 15000 kr., en hækkun gjalda 324100 kr., sem er samtals 339100 kr. En nú nemur lækkun gjalda hjá einstökum þm. 16025 kr. og verður því mismunurinn 323075 kr. Ef þessi hækkun ætti að koma til viðbótar við hækkun Nd., þá væri tekjuhallinn orðinn 650894 kr. alls. En eins og málið liggur nú fyrir deildinni, er tekjuhalli ekki svo mikill, vegna þess, að það, sem nefndin leggur til til sparnaðar, dregst frá og er þá mismunurinn 311345 kr. Tel jeg nauðsynlegt fyrir deildina að reyna að nema burt þá upphæð frá fjárlagafrv. áður en það fer frá Ed., og meira að segja tel jeg henni það jafnvel skylt.

Till. nefndarinnar eru þá komnar hjer frá hennar hendi fyrir hv. deild. Leggur nefndin mjög mikla áherslu á, að hv. deild sje henni sem best samtaka um að laga tekjuhallan á fjárlagafrv.

Ábyrgðin hvílir því hjeðan í frá á atkvæðum og óeigingirni hv. þm. Ed. Hvort fjárlögin fyrir árið 1928 fara frá þingsins hendi með litlum eða engum tekjuhalla, er á valdi og ábyrgð hv. Ed., eins og komið er. Ef hún aftur á móti skellir skolleyrum við till. nefndarinnar, þá álít jeg, að hún geri landinu engan greiða með því. Það er betra að fá á sig óánægju einstakra manna en að landinu sje stefnt í voða, með því að engu stórfyrirtæki er í hættu stefnt, þótt farið sje eftir till. nefndarinnar.

Þá er eftir að athuga brtt. þær, sem komið hafa frá hv. þm., og vona jeg, að þeir vilji sjálfir skýra frá þeim. Ýmsar skýringar geta breytt afstöðu manna, en annars hygg jeg, að nefndin vilji fella þær að mestu leyti, einkum þær, sem fara fram á hækkun útgjalda.

Skal jeg svo veita hv. þm. leyfi til þess að segja það, sem þeir álíta nauðsynlegt.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.